Færsluflokkur: Bloggar

Bréf frá ánægðum hlustanda

 

Í dag barst mér ánægjulegt tölvubréf frá Þóri Jónssyni á Ólafsfirði. Það er greinilegt að ýmsir hafa ánægju af Hljóðblogginu og það ýtir einnig undir eðlsu manna og innflutning.

 

 

Heill og sæll, Arnþórr.

 

Þakka þér heilt hljóðbloggin sem ég hlusta á mér til mikillar ánægju

og llíka hitt að nefna með hvaða tækjum þau eru gerð. Ég hef  undanfarin ár unnið við Árbók Ólafsfjarðar og hef tekið viðtöl við  fólk, þar á meðal eldri borgara sem stundum tala ekki mjög skýrt. Ég  hef notað Olympus spóludiktafóna og nú síðast nýkeyptan Olympus S725 sem mér fannst bara góður. Þegar ég hins vegar hlustaði á upptökur  þínar með Olympus LS-11 heyrði ég glöggt að mitt tæki var ekki giska  gott, fór á Netið, skoðaði tæki og bar saman

http://www.wingfieldaudio.com/portable-recorder-reviews.html

 

Einnig Philips spóluhljóðriti á sama verði og Olympus LS-11:

http://www.ht.is/index.php?sida=vara&vara=LFH0388

 

Þar var augljóst að LS-11 var langbestur talinn miðað við verð svo ég pantaði hann frá Sjónvarpsmiðstöðinni. Kostaði tæp 60 þús. Fyrsta viðtalið tók ég svo í gær og svo sannarlega stóðst LS-11 allar væntingar með prýði. Kristaltært hljóð tekið upp úr nægilegri fjarlægð til að viðmælendur gleymdu að upptökutæki var í gangi. Hljóðnemar stilltir á meiri næmni og upptökustyrkur á 7. Ekki spillir að tækið er afskaplega einfalt í notkun og allar valmyndir skýrar og rökréttar svo þær lærast fljótt.

 

Ekki spillir fyrir að hægt er að klippa burt lágtíðnihljóð og upptökusniðin þrjú, PCM, MP3 og WMA - og fjöldinn allur af upptöku- og afspilunarfídusum. Maður sér enga  hliðstæðu nema í miklu dýrari tækjum. Jafnvel þessi sýnist mér ekki  eins fjölhæfur og LS-11

http://emusician.com/daw/emusic_sony_pcm_d1/

 

og kostar þó á Netinu 5,85 sinnum meira ef verðið er rétt.

 

 

Enn og aftur takk.

 

Kveðjur bestar, - ÞJ

--

Þórir Jónsson * Bylgjubyggð 16 * ÍS-625 Ólafsfjörður * Ísland

Netpóstur <mailto:bb16@simnet.is> * Heimasími 466 2211 * Farsími 894 0211

 


Kvöldstund hjá ömmu og afa

Bræðurnir Birgir Þór, 6 ára og Kolbeinn Tumi, þriggja ára, synir Árna og Elfu Hrannar, komu í heimsókn til ömmu og afa í kvöld ásamt föður sínum og Hring, stóra bróður. Þeim bræðrum var boðið að gista.

Afi stóðst ekki mátið og greip hljóðritann þegar verið var að bursta tennurnar. Allt of lítið er gert af því að hljóðrita ærsl og gleði barnanna og samskipti þeirra við góða ömmu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunn á svölunum í mars

 

 

Á kyrrum vetrarmorgni í úthverfi stórborgar gera sé fáir grein fyrir þeim fjölda hljóða sem berst að eyrum fólks og rýfur kyrrðina. Þetta gerist jafnvel þótt úthverfið sé sjálfstætt sveitarfélag.

Í morgun var ttalsverður atgangur hrafna. Greip ég lítinn hljóðrita, skellti á hann vindhlíf og setti út á svalir. Eftir það flugu einungis tveir hrafnar framhjá og krunkuðu. Ýmislegt annað barst að eyrum.

Látið ykkur dreyma með góð heyrnartól á höfðinu. Lygnið aftur augunum og ímyndið ykkur hhvað þi sjáið og hvernig veðrið var.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvæntur vísnasöngvari á Iðunnarfundi

Eggert Jóhannsson (ljósmynd)

Íslensk alþýðumenning lætur ekki að sér hæða. Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem haldinn var 7. janúar 2011 söng Eggert Ólafur Jóhannsson, vísnasöngvari, nokkrar vísur eftir Cornelis Vreeswijkog lék undir á gítar. Vakti hann verðskuldaða hrifningu fundargesta fyrir skemmtilega túlkun og fágaðan gítarleik. Auk þess að sinna vísnasöng fæst Eggert við feldskurð.

Notaður var Shure VP88 hljóðnemi og Nagra Ares BB+ hljóðriti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýjar hringhendur eftir Jóa í Stapa

Jóhann Guðmundsson - Jói í Stapa - í góðra vina hópi.

Fimmtudaginn 16. september síðastliðinn löguðum við Ingi Heiðmar Jónsson land undir fót og héldum norður í Austur-Húnavatnssýslu að hljóðrita. Árangur ferðarinnar varð meiri en við bjuggumst við og verður afraksturinn birtur á þessum síðum eftir því hvernig vinnslu efnisins vindur fram.

Í morgun var tekið hús á Jóhanni Guðmundssyni, landskunnum hagyrðingi, Jóa í Stapa, sem býr að Norðurbrún 9 í Varmahlíð. Á leið okkar hirtum við upp Álftagerðisbróðurinn Sigfús Pétursson. Jóii í Stapa var svo vinsamlegur að fara með nokkrar vísur. Þar af eru tvær sem aldrei hafa birst áður.

Jóhann er fæddur árið 1924 og yrkir sem aldrei fyrr. Hann er ótrúlega vel á sig kominn og stundar enn smíðar.

Ljósmyndina sendi Anna Heiðrún Jónsdóttir. Hún var tekin í Hótel Varmahlíð vorið 2006 þegar sveitungar hans glöddust með Jóhanni vegna útgáfu ljóðmæla hans sem nefnas Axarsköft.

Í upphafi viðtalsins spurði ég hvort Jóhann hefði ort eitthvað nýlega.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Raggagarður 5 ára

Flestir finna eitthvað við sitt hæfi í Raggagarði (ljósmind).

Um þessar mundir er 5 ára afmæli Raggagarðs á Súðavík haldið hátíðlegt. Vilborg Arnarsdóttir, stofnandi garðsins, hefur unnið einstætt samfélagsafrek og garðurinn á sér vart nokkra hliðstæðu hér á landi.

Þegar við Elín vorum vestur í Súðavík í fyrrasumar sagði Vilborg mér sögu garðsins sem ég útvarpaði 6. ágúst árið 2009. Hlustendur geta einnig kynnt sér heimasíðuna

http:www.raggagardur.is

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir 28. júní árið 2009.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn meiri vindur - hljóðdreifingin

Í fyrrinótt gerði hvassviðri og hellirigningu að Flúðum. Það stytti upp með morgninum en áfram var stynningskaldi eða jafnvel hvasst.

Eftir hádegi var ég einn heima við og gerði tilraunir með vindhljóðritanir. Setti ég Shure VP88 í Blimp vindhlíf og stillti upp á svölunum fyrir vestan húsið. Fékkst mjög skemmtileg dreifing í vindinn. Hafði ég hvorki hljóðsíur á Nagra-tækinu né hljóðnemanum. Árangurinn varð eftir vonum, en best fór á að skera af neðstu 80 riðunum þegar hljóðið var unnið í tölvu. Þannig er fyrra hljóðritið, vindgnauð og máríuerla.

Í seinna hljóðritinu var rofi á hljóðnemanum stilltur þannig að hann sker 12 db neðan af 88 riðum og kom það mjög vel út. Þá hafði ég einnig bætt loðfelldi á vindhlífina og skaðaði það hátíðnisviðið minna en ég átti von á. Í þessu hljóðriti heyrast ýmis umhverfishljóð gegnum hvininn í vindinum og gróðrinum. Athygli hlustenda er sérstaklega vakin á hreyfingu vindsins. Það heyrist hvrnig vindhviðurnar færast til í gróðrinum framan við bústaðinn.

Notað var Nagra Ares BB+ tæki auk Shure VP88 víðómshljóðnema sem var stilltur á gleiðasta hljóðhorn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austankaldinn og gróðurinn

Vindurinn gælir við gróðurinn (ljósmynd)

Ormurinn blái hefur fengið að þenja sig í uppsveitum Árnessýslu. Laugardaginn 3. júlí tókum við Árni Birgisson allharðan 20 km sprett og var Árni stýrimaður. Mánudaginn 5. júlí var svo haldið í Skaftholt og var Elín þá stýrimaður. Þann dag hjóluðum við nær 60 km.

Í dag, þriðjudaginn 6. júlí, héldum við að Hruna. Fórum við lengri leiðina, hjóluðum norður á bóginn og beygðum síðan afleggjarann sem liggur heim að Hruna og fleiri bæjum. Er það fögur leið og skemmtileg, en vegurinn misjafnlega ósléttur. Austan kaldi var á og 15-16 stiga hiti.

Þegar við komum að Hruna fangaði athygli okkar útsprungin rós sem er skammt frá sáluhliðinu. Þar voru flugur á iði og öfluðu sér fanga. Hafði Elín orð á að ég ætti að hljóðrita þær en ég nennti því ekki, langaði frekar í nesti og það bitum við undir suðurvegg kirkjunnar. Þegar ég hafði orð á að nú væri mál að hljóðrita flugurnar hélt Elín því fram að þær væru sjálfsagt farnar í kaffi og reyndist hún hafa rétt fyrir sér, sú góða kona. Maður skyldi aldrei láta tækifæri ganga sér úr greipum og það veit Elín manna best. Ég stillti mér samt upp við rósina og hljóðritaði umhverfið. Vindurinn hvein í gróðrinum. Austanáttin hafði heldur farið vaxandi á meðan við námum staðar að Hruna og var magnþrungið að hlusta á samleik hennar og gróðursins. Gerði ég enga tilraun til að hreinsa hljóðritið heldur lét það flakka á vefinn eins og guð ákvað að hafa það.

Myndina tók Elín Árnadóttir, eiginkona mín og stýrimaður á Orminum bláa, en hún er sérstakur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðrembusyrpa á sautjándanum og fleira gott

Við Elín tókum þátt í sautjándanum af lífi og sá, hún á upphlut og bóndi hennar á íslenska þjóðbúningnuml. Í Dómkirkjunni nutum við þess að hlusta m.a. á eftirspil Arnar Magnússonar sem lék stef úr Rímnadönsum Jóns Leifs, og um kvöldið nutum við þess sem á boðstólnum var í miðborg Reykjavíkur. Er þá öllu sleppt sem gerðist millum messu og aftans og hvorki minnst á menningu né allt fólkið sem við hittum.

Hljóðsýnin eru að þessu sinni 3. Staldrað við á Ingólfstorgi og hlustað á Varsjárbandalagið flytja íslensk-balkneska þjóðrembusyrpu, rölt eftir Lækjargötu í átt að Arnarhóli að hlusta á Hjaltalín og að lokum gengið eftir Aðalstræti. Notaðir voru örsmáir Sennheiser hljóðnemar sem festir voru á gleraugnaspangir og fór enn sem fyrr að fólk hélt að þetta væri nýjasta hjálpartækið mitt. Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti og tekið upp í 24 bitum og 44,1 kílóriðum.

Fólki er eindregið bent á heimasíðu Varsjárbandalagsins á Fésbókinni, en þar getur það gerst aðdáendur þessarar skemmtilegu hljómsveitar, horft á myndbönd o.s.frv.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við ylströndina í Nauthólsvík

Fólk nýtur lífsins í Nauthólsvík (ljósmynd)Það var ylur í lofti í dag og norðvestangolan hlý. Hitamælirinn á Orminum bláa neitaði að fara niður fyrir 22 stig. Sólin hlýtur að hafa ofhitað hann.

Við hjónakornin lögðum land undir hjól og riðum orminum til Nauthólsvíkur. Þar var hann tjóðraður og við gengum að veitingasölunni. Settumst við þar á bekk og ég hljóðreit mannlífið. Börn skríktu, fólk spjallaði, buslaði, þrammaði um og golan strauk blíðlega hljóðnemunum og mér um norðvestur-vangann.

Myndina tók sérlegur ljósmyndari hljóðbloggsins, sem verið hefur eiginkona mín í 21 ár og 1 dag.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband