Færsluflokkur: Hjólreiðar

Hljólreiðakeppni - andstæð hljóð

Arnþór yljar sér á kaffi. Ljósmynd: Elín Árnadóttir

Alvogen Trial hjólreiðakeppnin var haldin í fyrsta sinni að kvöldi 4. Júlí. Norðurhluta Sæbrautarinnar var breytt í leikvang hjólreiðafólks. Slóðin á keppnina er http://hjolamot.is. Við Elín fórum á staðin og komum okkur fyrir milli göngu- og hjólreiðastígsins og akbrautarinnar skammt vestan við Sólfarið. Reynt var að fanga reiðhjólakliðinn og hófst hljóðritun skömmu áður en kapparnir hófust handa. Óneitanlega truflaði hávaðinn frá umferðinni, en þegar keppnin hófst færðist umferðin á suður-akreinarnar og nokkru fjær hljóðnemunum. Notaðir voru tveir Røde NT-2 hljóðnemar í AB-uppsetningu og voru hafðir í 2,5 m hæð. Eindregið er mælt með að fólk hlusti í góðum heyrnartólum. Hljóðnemarnir voru stilltir á víða uppsetningu og skorið var af 80 riðum. Þeir voru klæddir í loðfeldi vegna golu og skúraleiðinga.

The Alvogen Trial Cyclingrace was held in Reykjavik in the evening of July 4, see link above. The northern lanes of Sæbraut, one of the mainstreets along the coast were closed for motor-trafic. The recording started a little before the contest. Røde NT-2A mics were used in an AB-setup with apr. 55 cm spacing. The mics were set up as omnidirectional and covered with fur as there was some breeze and showers. Headphones are recommended.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Togarinn Vigri sandblásinn

Í morgun var Ormurinn blái leiddur úr hýði sínu, hann smurður og þrýstingur kannaður í hjólbörðunum. Hann þjónar okkur nú 10. sumarið, en Elín gaf mér hann í afmælisgjöf árið 2002, er ég varð fimmtugur. Ormurinn, sem er tveggja manna hjól, er þó sérhannaður handa henni þar sem hún er lægri en ég, en yfirleitt eru stýrimenn á tveggja manna hjólum hærri vexti en hásetarnir.

Eftir að áhöfnin hafði skrýðst hjálmum var haldið af stað. Hjólað var um Seltjarnarnesið og niður á höfn. Þar sem við námum staðar á miðbakkanum mátti heyra hvar togarinn Vigri var sandblásinn úti í Örfirisey, sem eitt sinn hét Effersey og er sennilega kennd við Effers nokkurn, sem hefur væntanlega verið þar kaupmaður.

Örlítil tilraun var gerð til þess að fanga hljóðheiminn umhverfis okkur, þótt einungis væri Olympus LS-11 með í för og gola sem truflaði hljóðritunina.

Þaðan var haldið austur í Laugarnes og lagst þar í guðs grænni náttúrinni. Þangað bárust hljóðin frá Vigra. Sum hljóð berast ótrúlega langt.

Þá var haldið lengra austur á bóginn, farið um Elliðaárhólmana og beygt vestur á bóginn um Fossvogsdalinn út á Seltjarnarnes eftir göngu- og hjólreiðastígum. Sums staðar hafa verið markaðir sérstakir stígar fyrir hjólreiðamenn og aðrir fyrir gangandi vegfarendur. Ótrúlegamargir viða ekki þessi mörk og getur það valdið vissum vandræðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austankaldinn og gróðurinn

Vindurinn gælir við gróðurinn (ljósmynd)

Ormurinn blái hefur fengið að þenja sig í uppsveitum Árnessýslu. Laugardaginn 3. júlí tókum við Árni Birgisson allharðan 20 km sprett og var Árni stýrimaður. Mánudaginn 5. júlí var svo haldið í Skaftholt og var Elín þá stýrimaður. Þann dag hjóluðum við nær 60 km.

Í dag, þriðjudaginn 6. júlí, héldum við að Hruna. Fórum við lengri leiðina, hjóluðum norður á bóginn og beygðum síðan afleggjarann sem liggur heim að Hruna og fleiri bæjum. Er það fögur leið og skemmtileg, en vegurinn misjafnlega ósléttur. Austan kaldi var á og 15-16 stiga hiti.

Þegar við komum að Hruna fangaði athygli okkar útsprungin rós sem er skammt frá sáluhliðinu. Þar voru flugur á iði og öfluðu sér fanga. Hafði Elín orð á að ég ætti að hljóðrita þær en ég nennti því ekki, langaði frekar í nesti og það bitum við undir suðurvegg kirkjunnar. Þegar ég hafði orð á að nú væri mál að hljóðrita flugurnar hélt Elín því fram að þær væru sjálfsagt farnar í kaffi og reyndist hún hafa rétt fyrir sér, sú góða kona. Maður skyldi aldrei láta tækifæri ganga sér úr greipum og það veit Elín manna best. Ég stillti mér samt upp við rósina og hljóðritaði umhverfið. Vindurinn hvein í gróðrinum. Austanáttin hafði heldur farið vaxandi á meðan við námum staðar að Hruna og var magnþrungið að hlusta á samleik hennar og gróðursins. Gerði ég enga tilraun til að hreinsa hljóðritið heldur lét það flakka á vefinn eins og guð ákvað að hafa það.

Myndina tók Elín Árnadóttir, eiginkona mín og stýrimaður á Orminum bláa, en hún er sérstakur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við ylströndina í Nauthólsvík

Fólk nýtur lífsins í Nauthólsvík (ljósmynd)Það var ylur í lofti í dag og norðvestangolan hlý. Hitamælirinn á Orminum bláa neitaði að fara niður fyrir 22 stig. Sólin hlýtur að hafa ofhitað hann.

Við hjónakornin lögðum land undir hjól og riðum orminum til Nauthólsvíkur. Þar var hann tjóðraður og við gengum að veitingasölunni. Settumst við þar á bekk og ég hljóðreit mannlífið. Börn skríktu, fólk spjallaði, buslaði, þrammaði um og golan strauk blíðlega hljóðnemunum og mér um norðvestur-vangann.

Myndina tók sérlegur ljósmyndari hljóðbloggsins, sem verið hefur eiginkona mín í 21 ár og 1 dag.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vorkvöld í Skerjafirði

Stundum er algert logn við Skerjafjörðinn á kvöldin. Vorkvöld eitt í maí árið 2006 hljóðritaði ég umhverfið við göngustíginn framan við Skildingatanga. Viðstaddur var fullorðinn hundur sem nú er allur. Hann var stundum pirraður vegna þess að vegfarendur fóru í leyfisleysi um stíginn án þess að virða meintan rétt hans til yfirráða og gæslu.

Veðrið var svo gott að ég gat notað Shure VP88 hljóðnema án þess að verja hann með vindhlíf. Hljóðritað var með Nagra Ares-M á 44,1 kílóriðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hjólað austur á Fáskrúðsfjörð

Árið 2005 hjólaði Guðbjörn Margeirsson ásamt þremur félögum sínum austur á Fáskrúðsfjörð. Voru þeir fjórmenningarnir viku á leiðinni.

Þessi frásögn, sem hljóðrituð var árið eftir ferðalagið, kveikir vonandi hugmyndir hjá einhverjum um hjólreiðar í sumar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband