Færsluflokkur: Bækur

í minningu tengdamóður minnar, Sólveigar Eggerz Pétursdóttur

Blessunin hún tengdamóðir mín, Sólveig Eggerz Pétursdóttir, var jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag. Gerði séra Svanhildur Blöndal það af stakri snilld.
Sólveig var kunn myndlistarkona, málaði, teiknaði og varð fyrst Íslendinga til þess að mála á rekavið.
Í maí 2010 hélt hún sýningu á málverkum sem hún kallaði Svipina í hrauninu og hún hafði málað með akríl-litum, en Sólveig hafði þá nýlega tekið að nota þá við listsköpun sína. Af því tilefni setti ég á hljóðbloggið viðtal við hana. Í dag birti ég það á ný, bæði klippta og óklippta útgáfu, en þar kemur frásagnarlist Sólveigar glögglega í ljós. Hver hefði trúað því að þar talaði 85 ára gömul kona?
Til minningar um kveðjustundina set ég á milli viðtalanna 23. sálm Davíðs, sem sunginn var í dag af kammerkór undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Lagið er tileinkað Elínu, eiginkonu minni og var einnig sungið við útför föður hennar, Árna Jónssonar. Það var upphaflega frumflutt í Seltjarnarneskirkju árið 2003 og samið að tilhlutan Gunnlaugs A. Jónssonar.

 

Sólveig Eggerz Pétursdóttir á góðri stund í Laugardalsgarðinum 2015


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af séra Jóni Ísleifssyni

Af séra Jóni Ísleifssyni 

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir, er einna skemmtilegastur þeirra Íslendinga, sem nú eru á dögum. Nú er nýkomin úr prentsmiðju bókin „Sigurður dýralæknir". Sigurður lýsir bókinni svo:

„Hún fjallar um ævi mína fram að utanferð til náms. Í bókinni eru sögur um ýmsa sérkennilega menn sem eg hefi mætt á lífsferðinni eða heyrt um frá mínu fólki og alþýðlegar frásagnir af nokkrum búfjársjúkdómum. Þessa bók hefeg skrifað að mestu leyti sjálfur með góðri aðstoð Gunnars Finnssonar fyrrum skólastjóra, frænda míns frá Selalæk.

Viðmiðunarverð í bókabúð er kr. 5980,- Verð í Eymundsson er kr 5.999 í dag. Verð í Bónusi í morgun sýndist mér aftur á móti vera kr 4.385.- (Bónus gamli er reyndar lítt útreiknanlegur og getur hækkað og lækkað slíkt tilboð frá degi til dags, jafnvel innan dags).

Ég mun afhenda bókina áletraða þeim sem óska fyrir kr 4.500.- meðan birgðir endast. Eg fekk nokkra tugi af bókum á afsláttarverði frá forlaginu. Þá myndi sendingarkostnaður falla niður. Ef einhverjir vilja fá bókina senda, er það hægt. Þá leggst við burðargjald með fóðruðu umslagi kr 1155.- Sending í póstkröfu yrði um kr 1500.- á hverja sendingu.

Framhaldið af þessari bók er væntanlegt að ári með frásögnum af dýralæknisnámi, störfum og baráttu við pestir og við andleg og veraldleg yfirvöld. Inn í þann texta verður fléttað skemmtisögum eins og í þessu bindi, sem boðið er til kaups. Þar verða einnig vísur og ljóð og á geisladiskum, greyptum í bókarkápu, frumsamin sönglög og messusvör auk passíusálma, sem eg hefi sett þekkt kvæðalög við."

 

Sigurður las upp úr bókinni kaflann um séra Jón Ísleifsson, á Iðunnarfundi 4. þessa mánaðar. Hljóðritið er birt með samþykki hans.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðustu andartök Karítasar Jónsdóttur vestur í Skálavík

Kristín Marja Baldursdóttir skóp listakonuna Karítas Jónsdóttur í bókum sínum, Karítas án titils og Óreiða á striga. Fáar persónulýsingar hafa haft jafndjúp áhrif á mig undanfarna áratugi. Karítas fæddist vestur í Skálvík aldamótaárið 1900.

Sagan lýsir fjandsamlegri ást þeirra Karítasar og eiginmanns hennar, Sigmars Hilmarssonar sem fara hvort sína leið, en Sigmar virðist þó hafa yfirhöndina þar til síðast – eða hvað? Hún hafði heitið að hvíla honum við hlið norður á Akureyri þar sem hann var jarðaður. En skömmu fyrir 100 ára afmæli sitt sagði hún við sonardóttur sína að nú mætti það fara í heitasta helvíti, hún væri að verða hundrað ára. Héldu þær síðan vestur í Skálavík og fylgdust sonardóttirin og vinkona hennar með því hvernið sú gamla stjáklaði um í fjörunni þar til hún hvarf þeim sjónum. Ég eftirlæt lesendum bókarinnar að rifja upp lýsinguna og hvet aðra til að kynna sér bækur Kristínar.

Ég velti því fyrir mér hvað borist hefði henni Karítas til eyrna eða flogið um huga hennar um það leyti sem öndin hvarf frá henni. Þessar hugrenningar birtast í meðfylgjandi hljóðmynd.

Notað var öldugjálfur vestan úr Skálavík sem hljóðritað var þar á góðviðrisdegi 2. júlí 2009. Bætt var ofan á hljóðriti klukkna Landakirkju í Vestmannaeyjum frá 4. Des. 1999.

Öldugjálfrið var hljóðritað með Nagra Ares BB+ og Sennheiser hljóðnemum ME62, sem voru látnir mynda um 100° horn og vísuðu þeir hvor frá öðrum. Á millum þeirra var u.þ.b. 1 metri. Kirkjuklukkurnar voru hljóðritaðar með Sony minidisktæki og Sennheiser MD21U sem var hannaður árið 1954.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband