Færsluflokkur: Vestmannaeyjar

"Viltu ekki spila fyrir þá nýja þjóðhátíðarlagið?"

Í dag er þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu Oddgeirs Kristjánssonar, þess manns sem einn getur kallast þjóðartónskád Vestmannaeyinga.

Oddgeir setti sterkan svip á bæjarlífið í Vestmannaeyjum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja í tæpa þrjá áratugi, lék í hljómsveitum, samdi þjóðhátíðarlög áratugum saman, kenndi söng í Barnaskóla Vestmanneyja, þjálfaði hljóðfæraleikara og var hvarvetna hrókur alls fagnaðar þar sem hann átti leið um. Oddgeir var, auk þess að vera tónskáld, orðhagur maður og setti einatt saman kviðlinga sem flugu víða.

Oddgeir Kristjánsson hafði áhrif á alla sem kynntust honum og þegar hann lést, 18. febrúar árið 1966, varð almenn sorg í Vestmannaeyjum. Allir vissu að skaparinn hafði hrifið til sín einn af eyjanna bestu sonum.

Í morgun rifjaðist upp fyrir mér dálítið atvik frá sumrinu 1962. Ég sótti þá píanótíma hjá Hrefnu, dóttur Oddgeirs. Einhvern tíma miðsumars, þegar við tvíburarnir vorum stadir hjá Hrefnu, kom Oddgeir inn í stofuna og spurði hvort hún vildi ekki spila fyrir okkur nýja þjóðhátíðarlagið. Það hét þá ekkert annað, því að textinn var ekki tilbúinn, en hlaut svo nafnið "Ég veit þú kemur".

Í minningu minni hafði Hrefna stutt forspil að laginu. Okkur ber ekki saman um upphafið, en í huga mínum mótaðist minningin með þeim hætti sem meðfylgjandi hljóðrit ber með sér.

Lag þetta varð síðan eitt af fyrstu lögunum sem Gísli Helgason, blokkflautuskáld úr Vestmannaeyjum, lærði og olli tímamótum í lífi hans.

Í kvöld verður efnt til tónleika í eldborgarsal Hörpu, þar sem flutt verða lög Oddgeirs Kristjánssonar. Er það tilhlökkunarefni hverjum þeim, sem ann tónlist þessa merka manns og tónlistarfrömuðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra ...

Í dag kom út geisladiskurinn "Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra ...". Þar flytur Tíó Blik, sem skipaðer Daníelu Hlinkóvu, slaghörpuleikara, Freyju Gunnlaugsdóttur, klarínettuleikara og Hönnu Dóru Sturludóttur, söngkonu, ljóð Ása í bæ við eigin lög, Oddgeirs Kristjánssonar og Arnþórs Helgasonar. Atli Heimir Sveinsson útsetti lögin af sinni alkunnu snilld.

Ég hef áður vikið að tónleikum, sem haldnir voru í Seltjarnarneskirkju í sumar þar sem hluti þess efnis, sem er á geisladiskinum, var fluttur. Það er skemmst frá því að segja að flutningurinn er hin prýðilegasti og útsetningar Atla Heimis hefja þessi lög í annað veldi en menn hafa þekkt hingað til. Leyfi ég mér að spá því að mörg lögin þeirra Ása og Oddgeirs eigi eftir að hljóma á einsöngstónlekum og tekið verði mið af útsetningum Atla Heimis þegar útsett verður fyrir kóra eða hljómsveitir.

Við Ási í Bæ áttum ævinlega góð samskipti og sem unglingi þótti mér undurvænt um Oddgeir Kristjánsson. Það hríslaðist um mig sælukennd þegar ég hlýddi á flutning laga eins og "Ég veit þú kemur", Sólbrúnir vangar, Heima auk fleiri laga.

Ekki eru öll ljóð Ása á diskinum sem hann samdi við lög Oddgeirs en flest þau bestu. Freyja, sem er sonardóttir Ása hefur staðið einstaklega vel að þessari útgáfu.

Kjartan Sveinsson, kenndur við sigurrós, og Birgir Jón Birgisson hljóðrituðu og hljóðjöfnuðu. Hafa þeir leyst verk sitt prýðilega af hendi.

Aðstandendum disksins eru færðar einlægar heillaóskir í tilefni útgáfunnar. Jafnfram er þeim þakkað fyrir að flytja útsetninguna sem Atli Heimir gerði af þessu tilefni og skilar svo vel efni ljóðsins Fréttaauka.

Telja verður víst að tónlistarunnendur taki þessari útgáfu fegins hendi og er hún einn fjársjóðurinn í menningararfi Vestmannaeyinga og reyndar þjóðarinnar allrar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðheimur æskunnar - Herjólfsdalur

Ágústsíðdegi í Herjólfsdal (ljósmynd).

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.

Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðheimur æskunnar - Kaplagjóta

Kaplagjóta á Heimaey (ljósmynd)

Föstudaginn 13. ágúst 2010 fórum við Elín ásamt Hring Árnasyni til Vestmannaeyja. Notaði ég þá tækifærið og hljóðritaði. Elín var sem fyrr hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.

Hljóðritin eru tvö sem fylgja þessari færslu. Hið fyrra er tekið skammt utan við göngustíginn meðfram Kaplagjótu. Vakin er sérstök athygli á djúpum tónum sem heyrast þegar öldurnar skella á klettunum.

Seinna hljóðritið er tekið litlu sunnar. Þar ber meira á hljóðinu sem myndast þegar vatn seytlar niður bergið, en úrhellingsrigning hafði verið fyrr um daginn.

Notaðir voru 2 Sennheiser ME62 hljóðnemar sem stillt var upp í 90° horn. Enginn afskurður er á hljóðritinu sem var gert í 24 bita upplausn. Fólki er eindregið ráðlagt að hlusta annaðhvort í góðum hátölurum eða heyrnartólum. Þannig njóta litbrigði hljóðsins sín best.

Á Heimaslóð segir svo um Kaplagjótu:

Kaplagjóta er löng gjóta sunnan við

Dalfjall sem gengur til austurs, samhliða Herjólfsdal. Gjótan dregur nafn

sitt af því að hestum var varpað þar niður til þess að farga þeim, þar sem ekki mátti eta hrossakjöt lengi á Íslandi. Dæmt um það á

Vilborgarstaðaþingi árið 1528 að ekki skyldu vera fleiri en 16 hross í

Heimaey, og viðtekin var sú venja að konungsumboðsmaður mætti láta drepa, slá eign sinni á, eða ráðstafa með öðrum hætti þeim hrossum sem fundust fram yfir regluna, en eigendur höfðu þó 14 daga til þess að koma aukateknum hrossum sínum annars staðar fyrir. Óskilafærleikum var þá gjarnan hrint ofan í sjóinn, þeim sem fundust fram yfir regluna, eða voru orðnir of gamlir til þess að koma að gagni.

Annar staður á Heimaey var notaður til sama brúks að talið er, en það voru

Kaplapyttir í Stórhöfða.

Tíkartóa-draugurinn

Í suðaustanverðu Dalfjalli, ofan við Kaplagjótu, eru grösugar hillur, sem nefndar hafa verið

Tíkartær . Um langt skeið hafðist þar við afturganga sem menn urðu oft varir við. Tildrög að afturgöngu þessari voru þau, að

einhverju sinni hafði burðalítill piltur verið sendur út á Fjall til lundaveiða. Fór hann nauðugur í þessa ferð en hart hafði verið að honum gengið. Hrapaði hann í Tíkartónum og gekk síðan aftur. Sást hann oft vera aðsteypa sér kollhnís fram af Tíkartónum ofan í Kaplagjótu en aldrei gerði hann neinum manni mein, að því er kunnugt sé.

Nánar má forvitnast um örnefni í Vestmannaeyjum á síðunni

http://www.heimaslod.is


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband