Enn meiri vindur - hljóðdreifingin

Í fyrrinótt gerði hvassviðri og hellirigningu að Flúðum. Það stytti upp með morgninum en áfram var stynningskaldi eða jafnvel hvasst.

Eftir hádegi var ég einn heima við og gerði tilraunir með vindhljóðritanir. Setti ég Shure VP88 í Blimp vindhlíf og stillti upp á svölunum fyrir vestan húsið. Fékkst mjög skemmtileg dreifing í vindinn. Hafði ég hvorki hljóðsíur á Nagra-tækinu né hljóðnemanum. Árangurinn varð eftir vonum, en best fór á að skera af neðstu 80 riðunum þegar hljóðið var unnið í tölvu. Þannig er fyrra hljóðritið, vindgnauð og máríuerla.

Í seinna hljóðritinu var rofi á hljóðnemanum stilltur þannig að hann sker 12 db neðan af 88 riðum og kom það mjög vel út. Þá hafði ég einnig bætt loðfelldi á vindhlífina og skaðaði það hátíðnisviðið minna en ég átti von á. Í þessu hljóðriti heyrast ýmis umhverfishljóð gegnum hvininn í vindinum og gróðrinum. Athygli hlustenda er sérstaklega vakin á hreyfingu vindsins. Það heyrist hvrnig vindhviðurnar færast til í gróðrinum framan við bústaðinn.

Notað var Nagra Ares BB+ tæki auk Shure VP88 víðómshljóðnema sem var stilltur á gleiðasta hljóðhorn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austankaldinn og gróðurinn

Vindurinn gælir við gróðurinn (ljósmynd)

Ormurinn blái hefur fengið að þenja sig í uppsveitum Árnessýslu. Laugardaginn 3. júlí tókum við Árni Birgisson allharðan 20 km sprett og var Árni stýrimaður. Mánudaginn 5. júlí var svo haldið í Skaftholt og var Elín þá stýrimaður. Þann dag hjóluðum við nær 60 km.

Í dag, þriðjudaginn 6. júlí, héldum við að Hruna. Fórum við lengri leiðina, hjóluðum norður á bóginn og beygðum síðan afleggjarann sem liggur heim að Hruna og fleiri bæjum. Er það fögur leið og skemmtileg, en vegurinn misjafnlega ósléttur. Austan kaldi var á og 15-16 stiga hiti.

Þegar við komum að Hruna fangaði athygli okkar útsprungin rós sem er skammt frá sáluhliðinu. Þar voru flugur á iði og öfluðu sér fanga. Hafði Elín orð á að ég ætti að hljóðrita þær en ég nennti því ekki, langaði frekar í nesti og það bitum við undir suðurvegg kirkjunnar. Þegar ég hafði orð á að nú væri mál að hljóðrita flugurnar hélt Elín því fram að þær væru sjálfsagt farnar í kaffi og reyndist hún hafa rétt fyrir sér, sú góða kona. Maður skyldi aldrei láta tækifæri ganga sér úr greipum og það veit Elín manna best. Ég stillti mér samt upp við rósina og hljóðritaði umhverfið. Vindurinn hvein í gróðrinum. Austanáttin hafði heldur farið vaxandi á meðan við námum staðar að Hruna og var magnþrungið að hlusta á samleik hennar og gróðursins. Gerði ég enga tilraun til að hreinsa hljóðritið heldur lét það flakka á vefinn eins og guð ákvað að hafa það.

Myndina tók Elín Árnadóttir, eiginkona mín og stýrimaður á Orminum bláa, en hún er sérstakur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ys og þys í Ásabyggð

Víða um land hafa risið hverfi sumarbústaða. Í raun eru þetta nokkur smáþorp með mismunandi stórum húsum og flest eru þau með ýmiss konar nútímaþægindi. Nútímamaðurinn vill hafa flest handa á milli í sumarbústaðnum sem finnst á hverju heimili. Þess vegna eru flestir með sjónvarp og víða um land er nettenging. Síminn og önnur fjarskiptafyrirtæki selja nú 3G-lykla eins og heitar lummur svo að landinn geti verið í netsambandi.

Á Flúðum er eitt slíkt þorp og þar var hljóðritað laugardaginn 3. júlí 2010. Þegar hljóðstyrkurinn er magnaður kemur ýmislegt í ljós og hljóðumhverfið er hið fjölbreytilegasta.

Fyrra hljóðritið er frá því um kvöldmatarleytið. Þá var mikill ys og þys í hverfinu. Hljóðritað var af svölum eins bústaðarins.

Síðar um kvöldið eða um kl. 22 var skollin á rigning, en það hafði gengið á með skúrum um daginn. Þá var enn farið út. Ekki vænti ég mikils af þessari hljóðritun. Enn var hljóðstyrkurinn aukinn að mun og þá kom vitanlega í ljós að umferðarhávaði barst frá þjóðveginum. Einnig virtist mér þyrla sveima um nágrennið. Glöggir hlustendur geta heyrt hin margvíslegustu hljóð, en að ássettu ráði er hljóðritið ekki sett inn á vefinn með fullum hljóðstyrk.

Heyra má vatn seytla í pott með heitu vatni, en sírennsli er í pottinn. Á Flúðum er gnægð heits vatns og dettur engum í hug að spara það.

Hljóðritasnillingurinn Magnús Bergsson hefur einnig verið á Flúðum. Bárum við saman bækur okkar og komumst m.a. að því að stöðugt erfiðara er að komast út í íslenska náttúru þar sem ekki er mengun af völdum vélahljóða og annarra hljóða sem fylgir nútímalífi. Það er því eðlilegt að þessi hljóð fljóti með.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband