Færsluflokkur: Vestmannaeyjar

Hljómsveit og kór Eyjapistils

Fyrir nokkru fundust frumrit tónlistar sem flutt var í Eyjapistlum okkar tvíburanna árið 1973. Skömmu eftir að gosið hófst setti Árni Johnsen saman lag um eyjuna og orti við kvæði. Árni er athafnasamur og vildi ólmur fá að flytja lagið í þættinum. Var það því hljóðritað í skyndingu og búið til fyrirbærið Hljómsveit og kór Eyjapistill. Undirritaður annaðist undirleik á Farfisa rafmagnsorgel, höfundurinn sló gítarinn og fyrrum trymbill Hljóma, Eggert V. Kristinsson sá um slagverk. Í kórnum voru þeir Gísli, sem auk þess lék á flautur, Árni Gunnarsson, fréttamaður, Eggert V. Kristinsson og einhverjir fleiri sem áttu leið framhjá hljóðverinu sem notað var sem tónleikasalur o.fl. á Skúlagötunni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950

Þessi þáttur var frumfluttur í Ríkisútvarpinu 16. janúar 2000, en 7. þess mánaðar voru liðin 50 ár frá því að Helgi VE 333 fórst við Faxasker í Vestmannaeyjum ásamt 7 manna áhöfn og þremur farþegum.

Þátturinn byggir á viðtölum sem tekin voru á árunum 1994-2000.
Rakin er saga skipsins frá upphafi smíði þess árið 1935 allt til þess að rekinn úr því var nýttur við Breiðafjörð.
Eftirtaldir koma fram:
Guðrún Stefánsdóttir, ekkja Helga Benediktssonar, útvegsbónda í Vestmannaeyjum,
Séra Halldór E. Jonsson (fórst með Helga),
Björn Sigurðsson frá Hallormsstað (vann að smíði skipsins),
Gísli Brynjóúlfsson, sonur Brynjúlfs Einarssonar, bátasmiðs,
Halldóra Úlfarsdóttir (vann hjá Guðrúnu og Helga),
Vernharður Bjarnason (starfaði um árabil við inn- og útflutning hjá Helga Benediktssyni),
Hallgrímur Hallgrímsson (sonur Hallgríms Júlíussonar, skipstjóra á Helga),
Andrés Gestsson, háseti á Helga um nokkurra ára skeið,
Einar Vilhjálmsson, fv. tollvörður,
Sigtryggur Helgason (sonur Guðrúnar og Helga),
Aðalheiður Steina Scheving,
Jón Hjörleifur Jónsson, fv. skólastjóri,
Árni Ingvarsson, fyrrum háseti á Herðubreið,
Sigríður Ólafsdóttir (Sirrý í Gíslholti), vinkona og fyrrum vinnustúlka hjá Helga og Guðrúnu,
Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð,
Þórunn Sólveig Kristjánsdóttir, fyrrum hjúkrunarkona á Sjúkrahúsi Vestmanneyja,
Gunnar Eyjólfsson frá Lambavatni á Rauðasandi,
Ari Ívarsson frá Melanesi á Rauðasandi,
Eigill Ólafsson frá Hnjóti í Örlygshöfn,
Ragnar Guðmundsson frá Brjánslæk.

Lesari var Sigrún Björnsdóttir og kynnir í lok þáttar Ragnheiður Ásta Pétursdóttir.

Kór Langholtskirkju flutti kvæði Halldórs E. Johnsons í lok þáttarins við lag Arnþórs Helgasonar

 

Sigtryggur Helgason kostaði gerð þáttarins.

Tæknimaður við samsetningu var Vigfús Ingvarsson.

Höfundur handrits: Arnþór Helgason

 

Vakin skal athygli á þættinum "Faxasker" sem er neðar á síðunni. Þar er fjallað um sögu þeirra þriggja skipa sem fórust við skerið á síðustu öld. Í þættinum koma fram ítarlegri upplýsingar um Helga VE 333 og ýmislegt sem tengist Helgaslysinu.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Guðrúnarslysið 23. febrúar 1953

Þann 23. febrúar 1953 hvolfdi vélbátnum Guðrúnu VE 163. Um borð voru 9 skipverjar og komust fjórir þeirra í björgunarbát. Sveinbjörn Hjálmarsson sagði mér þessa sögu sumarið 2000 og var henni útvarpað þá um haustið.

Frásögn Sveinbjörns er afar merkileg fyrir margra hluta sakir. Hann virtist hafa mótað hana svo í huga sér að það var sem hann læsi stundum af blaði. Þá koma fyrir atriði sem kunn eru úr þjóðsögum og Íslendingasögum þegar boðuð er feigð manna. Einnig er fjallað um drauma, en þeir eru og hafa verið ríkur þáttur í lífi margra sjómanna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Faxasker

Hér er greint frá skipum þeim sem strönduðu og fórust við Faxasker á síðustu öld, en þau voru Ester 1918, Helgi VE 343 7. janúar 1950 og Eyjaberg í mars 1966. Mannbjörg varð er Ester og eyjabergið strönduðu, en 10 manns fórust með Helga (sjá þáttinn Helgaslysið 7. janúar 1950). Lesari í þættinum var Gunnþóra Gunnarsdóttir. Honum var útvarpað haustið 1999. Lesið er m.a. bréf sem Hallgrímur Júlíusson, skipstjóri á Helga, skrifaði vini sínum, Þórði Benediktssyni, um mikla svaðilför sem Helgi fór til Bretlands í febrúar 1943.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eplaskipið og aðrar sögur af sjó

Hér greinir frá samgöngum á milli Vestmannaeyja og lands á fyrri hluta síðustu aldar. M.a. er lesin frásögn Sigtryggs Helgasonar af siglingu til Eyja með Helga Helgasyni VE 343 rétt fyrir jólin 1947, en Helgi fór þá með rúmlega 60 farþega.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gott í Vestmannaeyjum - Goot - an excellent restaurant on The Westman Islands

Maturinn var einstakur og skammtarnir hæfilegir.

Þann 22. júlí héldum við hjónin ásamt vinkonu okkar, Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, til Vestmannaeyja. Tilgangurinn var að heimsækja skyldulið auk þess að kanna nýjan veitingastað sem nefnist Gott og er að Bárustíg 11. Matseðillinn er að hætti Berglindar Sigmarsdóttur, hollur og ljúffengur. Eindregið er mælt með staðnum.

Meðfylgjandi hljóðrit er úr Herjólfi. Olympus LS-11 var haldið út fyrir borðstokkinn og numið hvernig sjórinn freyddi meðfram skipinu. Mælt er með heyrnartólum.


In English


On July 22 I and my wife together with our friend, Unnur St. Alfreðsdóttir, went to the Westman Islands to visit some friends and relatives. We also dined at a newly established restaurant, Gott, at Bárustígur nr. 11. The menu is made according to Berglind Sigmarsdóttir's prescriptions. This restaurant is recommended for it's excellent and healthy food.

The attached recording was made onboard the ferry, Herjólfur, while steaming to the Westman Islands. An Olympus LS-11 was held outside the gunnel on the larbourd side capturing the sound of the froathing sea. Headphones are recommended.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæðið Vestmannaeyjar eftir Kristin Bjarnason (1892-1968)

Á þessum síðum hef ég aldrei birt kvæðið um Vestmannaeyjar sem Kristinn Bjarnason, sem var vörubílstjóri í Vestmannaeyjum á 4. Áratug síðustu aldar, orti og átti að flytja á þjóðhátíð árið 1936 eða 1937, en ekkert varð af. Við þetta kvæði setti ég lag árið 1966 og var því útvarpað í fremur frumstæðri útsetningu. Seinna söng Guðmundur Jónsson það í Eyjapistli en þremur árum áður var það útsett fyrir blandaðan kór. Samkór Vestmannaeyja mun hafa sungið lagið á söngferð í Færeyjum, en í Vestmannaeyjum veit ég ekki til að lagið hafi nokkru sinni verið sungið.

Kristinn Bjarnason heimsótti okkur þriðjudaginn 9. Ágúst það sama sumar og gaf mér ljóðabók sína. Þá hljóðrituðum við tvíburarnir lestur hans á kvæðinu.

Hér fyrir neðan er kvæðið birt.

Ég hef í hyggju að láta hljóðrita útsetningu fyrir blandaðan kór á næsta vetri ef efni og ástæður leyfa.

Heimaey, þú hafsins gyðja,

hrikaleg en fögur þó,

þér er helguð öll vor iðja,

athöfn jafnt á landi og sjó.

Storkur elds skal rjúfa og ryðja,

rækta flöt úr hrauni og mó.

Framtíð þeirra og farsæld styðja fortíðin sem erfðir bjó.

Allt í kring um Eyja hringinn Ægisdætur bylta sér,

við austanrok og útsynninginn

um þær vígamóður fer,

léttast brýr við landnyrðinginn

löðra þá við klett og sker,

hæglátar við hányrðinginn

hjala milt um strönd og ver.

Heimaklettur, hafnarvörður,

hæzta tignarsvipinn ber,

eins og hann væri af guði gjörður,

gamla ey, að skýla þér.

Brimi varin Vík sem fjörður,

vatnar yfir Básasker.

„Óðinn“, Baldur“, „Bragi“, Njörður“,

Bóls á festum vagga sér.

Athyglina að sér dregur

Eyjartangi, höfði stór,

þar upp liggur vagna vegur,

víðast kringum fellur sjór.

Fuglabjörg á báðar hendur,

brekka grösug ofan við.

Efst þar vitavirkið stendur vermdarstöð um mannlífið.

Fuglamæður fanga vitja

fjölbreytt eru þeirra störf,

aðrar uppi á syllum sitja.

söngva hefja af innri þörf. Undirleikinn annast sjórinn,

yrkir stormur lag og brag.

Þúsund radda klettakórinn

kyrjar þarna nótt og dag.

Hömrum krýndi Herjólfsdalur,

hátíðanna meginstöð,

skín nú eins og skemmtisalur,

skreytt er fánum tjalda röð.

Njótum dagsins, hrund og halur,

hresst og yngd við sólarböð.

Truflar enginn súgur svalur

söngva hefjum frjáls og glöð.

Hundruð fólks á staðinn streymir,

stundin sú er mörgum kær.

Saga engum gögnum gleymir

þótt gamli tíminn liggi fjær,

skyggnan anda örlög dreymir, atburðirnir færast nær:

Stærstu rökin staðreynd geymir,

stóð hér forðum Herjólfs bær.

Rústir hans úr rökkri alda

risið hafa í nýja tíð,

þar sem skriðan kletta kalda

kviksett hafði fé og lýð.

Sögn er krummi kænn og vitur

konu einni lífið gaf,

meðan urðarbyljan bitur

bóndans setur hlóð í kaf.

Hamragarðsins hæsti tindur,

hjúpaður fjarskans bláa lit,

um þig leikur vatn og vindur,

vanur súg og fjaðraþyt.

Veit ég margan grípur geigur

gægjast fram af hárri brún,

þar sem aðeins fuglinn fleygur

flögrar yfir strandbergs hún.

Yfir þessu undralandi

einhver töfraljómi skín,

sem perludjásn á bylgjubandi

blómgar eyjar njóta sín.

Sær og vindur síherjandi

sverfa fuglabjörgin þín.

Þó er sem vaki vermdarandi,

veiði svo hér aldrei dvín.

Njóttu allra góðra gjafa,

glæsilega eyjan vor,

meðan röðulrúnir stafa

Ránar-flöt og klettaskor.

F'öður, móður, ömmu og afa

enn þá greinast mörkuð spor.

Æskan má ei vera í vafa

að vernda drengskap, kraft og þor.

Sit ég hér á sumarkveldi,

silfrar jörðu döggin tær,

vestrið líkt og upp af eldi

aftanroða á fjöllin slær.

Nóttin vefur dökka dúka,

dularfull og rökkurhljóð.

Blítt í sumarblænum mjúka

báran kveður vögguljóð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eplaskipið - aðventusaga

Sigtryggur Helgason, sagnameistari og jólabarn

Um þetta leyti árs leitar hugurinn til liðinna stunda. Að morgni aðfangadags söfnuðust ættingjar saman á heimili móður minnar og fengu hjá henni triffli. Þá voru sagðar sögur. Sigtryggur Helgason, sem var næstelstur okkar bræðra, sagði þá gjarnan söguna af því þegar Helgi Helgason VE 343 fór með á 7. tug farþega til Vestmannaeyja á Þorláksmessukvöld. Veðrið var afleitt og tók siglingin 22 tíma.

Sigtryggur birti þessa sögu í jólablaði Fylkis fyrir nokkrum árum. Gunnþóra Gunnarsdóttir las frásögnina í útvarpsþætti árið 2000.

Ég óska hlustendum Hljóðbloggsins gleðilegrar hátíðar og þakka viðtökurnar á undanförnum árum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrjátíu ára gamalt viðtal frá Vestmannaeyjum birt á Völdum greinum

 

Blindrafélagið hefur gefið út hljóðtímaritið Valdar greinar frá árinu 1976. Gísli Helgason stofnaði tímaritið og fékk í lið með sér hinn kunna útvarpsmann, Svein Ásgeirsson, hagfræðing, og las hann ásamt Lions-félögum efni blaðsins fyrstu árin. Tímaritinu var dreift til félagsmanna Blindrafélagsins á snældum og síðar á geisladiskum. Nú er tímaritið einnig á Netinu.

Gísli hefur lengstum verið ritstjóri tímaritsins og rifjar stundum upp gamalt efni úr segulbandasafni Blindrafélagsins. Í síðasta tölublaði er frásögn af ferð Blindrafélagsins til Vestmannaeyja, sem farin var helgina 3.-5. september 1982. Þar átti ég samtal við Ásu Friðriksdóttur, Páll Helgason lýsti því sem fyrir augu bar í skoðunarferð og Jón Eyjólfsson, skipstjóri á Herjólfi, heiðraði hópinn með því að þeyta skipsflautiuna þegar Herjólfur sigldi til Hafnar laugardaginn 4. september, en hópurinn var þá staddur á nýja hrauninu. Gísli kynnir efnið í upphafi og endar pistilinn.

Notaður var Electrovoice RE-50 hljóðnemi og sony TCD-5 segulbandstæki.

Tengil á pistilinn má finna hér fyrir neðan.

Haustferð Blindrafélagsins til Vestmannaeyja 1982

 

Nokkur fleiri viðtöl voru tekin í þessari ferð og birt í þættinum Snerting, sem við Gísli höfðum umsjón með í Ríkisútvarpinu og fjallaði um málefni fatlaðra. Vonandi eru þessi viðtöl enn til.

 


Af baráttu fyrri tíðar - viðtal úr Eyjapistli við Helgu Rafnsdóttur

 

Þriðjudaginn 1. maí árið 1973 útvarpaði Gísli Helgason, annar umsjónarmaður Eyjapistils, viðtali við Helgu Rafnsdóttur, hina ódeigu baráttukonu, sem bjó ásamt eiginmanni sínum, Ísleifi Högnasyni og börnum þeirra hjóna, í Vestmannaeyjum um langt árabil.

Viðtalið er birt hér að ábendingu umsjónarmanns.

Helga Rafnsdóttir

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband