Færsluflokkur: Menntun og skóli

Breiðdalssetur - vaxandi menningar- og vísindastofnun

Erla Dóra Vogler er verkefnastjóri á Breiðdalssetri.

Á Breiðdalsvík er starfrækt Breiðdalssetur. Setrið er til húsa í Gamla kaupfélaginu, en það var byggt árið 1906. Húsið hefur nýlega verið endurnýjað og gert aðgengilegt. Þar er m.a. lyfta á milli hæða svo að flestir sem fara þar um eiga að geta notið þeirra sýninga sem eru í setrinu.

 

Á setrinu eru um þessar mundir sýningar um tvo merka vísindamenn, sem hvor um sig markaði djúp spor í vísindasögu Austfjarða. Á jarðhæð er sýning um Dr. George Walker, breskan jarðfræðing, sem rannsakaði m.a. berglög á Austurlandi og skrifaði um þau merkar vísindagreinar.

 

Á efri hæð hússins er sýning um Dr. Stefán Einarsson frá Höskuldsstöðum í Breiðdal, prófessor, en hann var einn af fremstu málvísindamönnum Íslendinga á síðustu öld. Hann vann mestan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum, en hafði óbilandi áhuga á varðveislu þjóðlegra fræða og varð fyrstur íslenskra fræðimanna til þess að hljóðrita á segulbönd þjóðlegan fróðleik, svo sem frásagnir, vísur og kvæðalög, sem tengdust Breiðdalnum. Þá var hann einn af hvatamönnum útgáfu safnritsins Breiðdælu, sem enn kemur út. Á hluta þessa merka hljóðritasafns má hlusta í Breiðdalssetri ásamt ýmsu öðru sem tengist ævi Stefáns og störfum, s.s. bréfaskriftum þeirra Halldórs Laxness.

 

 

Erla Vogler, verkefnastjóri Breiðdalsseturs, sagði mér frá starfi þess, er ég átti þar leið um ásamt Hrafni Baldurssyni. Þess má geta að á fimmtudagskvöldum er gengið um þorpið á Breiðdalsvík og saga þorpsins rakin.

 

Á heimasíðu setursins eru einnig fleiri upplýsingar, en stöðugt bætist nýtt efni á síðuna.

http://breiddalssetur.is/


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslenskan á Umferðarmiðstöðinni

 

Í dag átti ég leið á Umferðarmiðstöðina við Vatnsmýri í Reykjavík. Þar er starfsfólkið lipurt og vill viðskiptavinum allt hið besta.

Nokkuð virðist skorta á þjálfun sumra sem þar eru við störf. Ég fékk mér sæti í biðsalnum og dró upp Olympus LS-11 varahljóðritann, en hann hefur nýlega hlotið 3. verðlaun sem tækninýjung ársins 2010 á sviði hljóðrita. Hugðist ég hljóðrita umhverfið eins og stundum áður. Fremur lítil umferð var um miðstöðina. Þó mátti heyra rennihurðina fara fram og aftur um dyraopið, skemmtilegt skóhljóð, ferðatösku dregna áfram, mas og skvaldur.

Í tvígang var kallað í hátalarakerfi hússins. Fyrri tilkynningin skildist alls ekki. Ef grannt er hlustað á seinni tilkynninguna, sem hefst á 27. sek. 3. mínútu (02:27) heyrist ekki betur en að farþeggar til Hveragerði, Selfoss, Hvolsvöllur, Flúðir og Borgarfjörður séu beðnir að ganga um borð - ekkert eignarfall.

Íslendingar hafa furðulítinn metnað fyrir hönd þjóðtungu sinnar á sjálfu afmælisári Jóns Sigurðssonar. Væri ekki ráð að kenna starfsfólki Umferðarmiðstöðvarinnar hvernig eigi að lesa slíkar tilkynningar? Ætli tilkynningalestur sé kenndur á ferðamálabrautum framhaldsskólanna?

Hljóðritað var rétt fyrir kl. 17:00 á 24 bitum, 44,1 kílóriðum. Notaður var Olympus LS-11 hljóðriti með áföstum hljóðnemum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Birgir Þór 6 ára

Birgir Þór 6 ára

Þriðjudaginn 15. febrúar verður Birgir Þór Árnason 6 ára. Þótt aldurinn sé ekki hár verða ýmis tímamót þegar menn komast á 7. ár. Þeir byrja í skóla, verða grunnskólanemar í stað leikskólanema, mi ssa tennur og sitthvað fleira, sem markar spor í vitund þeirra.

Á þessum tímamótum þótti rétt að taka kappann tali og forvitnast um framtíðaráætlanir hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Elsa á Bítlatónleikum

Veturinn 2007 var haldið skemmtikvöld á vegum starfsmanna Öskjuhlíðarskóla. Þar sagði Birgir Þór Baldursson, kennari, frá ferð á Bítlaslóðir í Liverpool og annar kennari, Elsa Guðmundsdóttir, frá því er hún fór á bítlatónleika í borginni Brighton í Bretlandi sumarið 1964, en hún var þar á sumarskóla. Frásögn Elsu var fyrir ýmsa hluti stórmerkileg og fékk ég hana til að segja mér hana inn á Nagra-hljóðpelann. Ég útvarpaði hluta frásagnarinnar í þættinum Vítt og breitt þá um vorið en varð að stytta hana talsvert. Hér birtist hún óstytt - öllu innihaldi pelans hellt gagnasafn mbl.is.

Elsa tók myndir á tónleikunum og faðir hennar, sem var ljósmyndari, hjálpaði henni við að framkalla þær og lagfæra.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Feldenkrais - athyglisverð heilsubótarmeðferð

PICT0039

Fyrir fjórum árum var mér bent á að Sibyl Urbancic ætlaði að halda námskeið í svokallaðri Feldenkrais tækni. Aðferðin byggir á að ná stjórn á líkama sínum og auka hreyfifærni hans með fíngerðum hreyfingum. Eftir að hafa sótt kynningu hjá henni þótti mér þessi aðferð svo merkileg að ég fékk Sibyl til þess að ræða við mig fyrir Ríkisútvarpið. Var viðtalinu útvarpað í september 2006. Það er enn í fullu gildi og er því birt hér með samþyki hennar.

Þess má geta að Sibyl heldur námskeið í Feldenkrais-tækninni í byrjun næsta mánaðar og fylgir auglýsingin þessari færslu sem viðhengi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband