Færsluflokkur: Heimilishljóð

Andardráttur fjöleignarhúss í óveðri

Þann 17. desember 2010 gekk hvassviðri yfir landið. Þegar ég átti leið um Tjarnarból 14 bárust mér ýmis hljóð sem urðu til þegar vindurinn réðst á húsið. Það hvein í hverri gátt og loftræstingin lét í sér heyra. Hurðir glömruðu í falsinum o.s.frv. Vegna eðlislægrar feimni og þess að málarar voru að störfum, frestaði ég hljóðritun þar til kvöldaði, en þá fór ég á kreik.

Áður en þið farið að hlusta skuluð þið slökkva öll ljós eða loka augunum. Hljóðritað var í myrkri. Ljósglæta barst að utan frá götuljósunum.

Við hefjumst handa á ganginum á 3. hæð, stöldrum svo við á jarðhæðinni og ljúkum síðan ferðinni þar sem hún hófst.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og tveimur Sennhyeiser ME62 hljóðnemum

Hljóðritið nýtur sín best í góðum hátölurum eða heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ys og þys í Ásabyggð

Víða um land hafa risið hverfi sumarbústaða. Í raun eru þetta nokkur smáþorp með mismunandi stórum húsum og flest eru þau með ýmiss konar nútímaþægindi. Nútímamaðurinn vill hafa flest handa á milli í sumarbústaðnum sem finnst á hverju heimili. Þess vegna eru flestir með sjónvarp og víða um land er nettenging. Síminn og önnur fjarskiptafyrirtæki selja nú 3G-lykla eins og heitar lummur svo að landinn geti verið í netsambandi.

Á Flúðum er eitt slíkt þorp og þar var hljóðritað laugardaginn 3. júlí 2010. Þegar hljóðstyrkurinn er magnaður kemur ýmislegt í ljós og hljóðumhverfið er hið fjölbreytilegasta.

Fyrra hljóðritið er frá því um kvöldmatarleytið. Þá var mikill ys og þys í hverfinu. Hljóðritað var af svölum eins bústaðarins.

Síðar um kvöldið eða um kl. 22 var skollin á rigning, en það hafði gengið á með skúrum um daginn. Þá var enn farið út. Ekki vænti ég mikils af þessari hljóðritun. Enn var hljóðstyrkurinn aukinn að mun og þá kom vitanlega í ljós að umferðarhávaði barst frá þjóðveginum. Einnig virtist mér þyrla sveima um nágrennið. Glöggir hlustendur geta heyrt hin margvíslegustu hljóð, en að ássettu ráði er hljóðritið ekki sett inn á vefinn með fullum hljóðstyrk.

Heyra má vatn seytla í pott með heitu vatni, en sírennsli er í pottinn. Á Flúðum er gnægð heits vatns og dettur engum í hug að spara það.

Hljóðritasnillingurinn Magnús Bergsson hefur einnig verið á Flúðum. Bárum við saman bækur okkar og komumst m.a. að því að stöðugt erfiðara er að komast út í íslenska náttúru þar sem ekki er mengun af völdum vélahljóða og annarra hljóða sem fylgir nútímalífi. Það er því eðlilegt að þessi hljóð fljóti með.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Uppþvottavélin

Árið 2004 var skipt um eldhúsinnréttingu hjá okkur. Við áttum forláta AEG-uppþvottavél sem var ekki nema 15 ára gömul og hafði einungis bilað einu sinni. Pípulagningarmeistarinn taldi óráð að veðja á hana og fór hún því forgörðum. Í staðinn keyptum við Siemens-vél.

Báðar eru þessar vélar afar hljóðlátar. Á meðan ég var atvinnulaus hlustaði ég stundum eftir hljóðum vélarinnar á meðan hún þvoði og ég lét hugann reika. Tók ég þá eftir því að hljóðin voru margvísleg og ólík eftir því hvað þvegið var. Til dæmis þykir vélinni gaman að þvo stóra potta og önnur ílát sem hljóma vél.

Þriðjudaginn 9. október 2007 fannst mér liggja óvenjuvel á vélinni og var greinilegt að eitthvað skemmtilegt sýslaði hún við. Ég sótti því hljóðrita og hljóðnema og stillti upp framan við hana. Þá heyrðust enn fleiri hljóð en ég hafði áður greint, en hljóðneminn var í u.þ.b. 30 cm hæð frá gólfi.

Vélin er svo taktföst að hæfileikaríkur tónlistarmaður getur auðveldlega notað undirleik hennar sem viðbót eða undirstöðu í eitthvert ofurskemmtilegt lag eða tónverk. Skyldi ég geta sótt um styrk frá siemens til að semja næsta Evróvisjónlag? Hver veit nema það ryki upp í fyrsta sæti og Íslendingar fengju efnahagsaðstoð frá Þjóðverjum til að halda keppnina.

Fái einhver annar þessa hugmynd eftir lestur þessa pistils og verði fyrri til en ég óska ég honum góðs gengis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðhræringur - ekki skyrhræringur

Meðfylgjandi hljóðmynd var útvarpað í maí 2006 í þættinum Vítt og breitt. Þar er leikið sér að umhverfinu sem börn þurfa að æfa sig í og fléttað saman ýmsum hljóðum úr umhverfi, heimili auk tónlistar. Kynningin er alllöng. fólki er ráðlagt að hlusta annaðhvort með góðum heyrnartólum eða njóta myndarinnar í góðum hátölurum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Brothljóð

Miðvikudaginn 28 maí árið 2008 hafði ég nýlokið við að lesa inn pistil fyrir þáttinn Vítt og breitt. Shure VP88 hljóðneminn stóð á borðstofuborðinu og var tengdur við hljóðritann. Ég kom mér fyrir og ætlaði að fara að hlusta á fréttir þegar ég heyrði að viðgerðarmenn bjuggu sig undir að taka rúðuna úr þar sem vinnuhorn okkar hjónanna er. Eitthvað gekk þeim það öndvert og brotnaði rúðan í þúsund mola eins og heyra má af þessu hljóðriti.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tilraun

Í dag setti ég tvo örsmáa Sennheiser-hljóðnema á gleraugnaspangir. Þótt þeir séu víðir (omnidirectional) gáfu þeir allskemmtilega hljóðmynd.

Heyra má mismunandi umhverfishljóð á heimilinu, líkamshljóð og kaffidrykkju, umhverfishljóð frá svölunum og síðast en ekki síst margbreytileg hljóð í hröfnum.

Hljómurinn í talinu er ekki mjög skemmtilegur. Sjálfsagt valda loðsvampar því auk þess sem hljóðnemarnir vísuðu fram á við og voru fremst á spöngunum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tónelskur miðstöðvarofn

Heimilishljóðin eru margvísleg. Í eldhúsinu hjá okkur er miðstöðvarofn. Sá, sem átti íbúðina áður, hafði látið setja ofninn langt frá útivegg. Þegar nýrri eldhúsinnréttingu var komið fyrir var nýr ofn keyptur og hann fluttur að útvegg enda kom í ljós að þar var úttak fyrir ofninn.

Þessi ofn hefur sjaldan verið til friðs og fyllist iðulega af lofti. Við reyndum að auka innstreymið inn á hann og mér skilst að aukinn hafi verið þrýstingur á húskerfinu. En loftið myndast ævinlega.

Ofninn hefur nú tekið að semja sjálfur lágvær tónverk. Hér birtist eitt þeirra. Ef til vill getur einhver pípulagningarmaður greint verkið.

Ofninn krefst engra stefgjalda og þess vegna er hljóðverkið birt á þessari síðu.

Hljóðritað á Nagra Ares BB+ með tveimur Sennheiser ME64.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lambhrúturinn Þorkell á Hala

Miðvikudaginn 8. júlí 2009 skoðuðum við hjónin Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Eftir að hafa snætt kvöldverð í húsnæði bændagistingarinnar á Gerði gengum við um nágrennið og nutum kvöldblíðunnar. Veittum við þá athygli lambi sem haft var í stekk ásamt gamalá nokkurri sem virtist láta sér standa á sama um það.

Skýringin reyndist vera sú að lambhrútur, sem nefndist Þorkell, varð móðurlaus og tók heimilisfólkið á Hala hann í fóstur. Gamalær þessi var sett honum til samlætis í stekkinn og er löng saga af því sem ekki verður rakin hér.

Ég hljóðritaði lambsjarminn, tók síðan einn jafminn, teygði og togaði þannig að úr varð að Þorkell jarmaði íslenska þjóðlagið, Gimbillinn mælti og grét við stekkinn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband