Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hávær stórmarkaður - A noisy moll

Í stórmörkuðum ríkir oft mikill hávaði.

Hljóðritið er úr Smáralind í Kópavogi. Staðið var á mótum veitingastaðar og leikjasalar.

Hljóðritað með Zoom H6 og áfestum ms-hljóðnema.

Mælt er með góðum heyrnartólum.

Gætið að heyrninni!

 

In English.

Supermarkets are often quite noisy.

This recording was made at Smáralind, Kópavogur, Iceland, on the second floor close to a restaurant and a entertainment hall.

Recorded with a Zoom H6 with an attached ms-microphone.

Good headphones recommended.

 

Be careful not damaging your hearing!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Afbrigðilegt góðgæti

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 3. október síðastliðinn kvað Þórarinn Már Baldursson vísur um matseldina hjá Guðrúnu konu sinni, sem fer mjög að matarsmekk hans samanber Súrmetisvísur, sem Þórarinn kvað á Iðunnarfundi í upphafi Þorra, 7. febrúar síðastliðinn.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Afbrigðilegt súrmetisát

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 7. Febrúar síðastliðinn var margt kveðið um Þorrann. Þórarinn Már Baldursson kvað þessar vísur um matarlyst sína við alkunna stemmu, en hann er prýðilegur kvæðamaður eins og heyra má.

Sértu hallur heimi úr

og heilsu viljir glæða

onúr hjalli og upp úr súr

ættir þú að snæða

Heilnæman nú hyggst ég kúr

halda næstu daga;

allt er betra upp úr súr,

er það gömul saga.

Ekki vil ég vera klúr,

en vita mega flestir

að ég borða upp úr súr

allt sem tönn á festir.

Stundum fer ég fram í búr

að forðast heimsins amstur.

Indælan ég upp úr súr

et þar lítinn hamstur.

Lykkju minni leið ég úr

legg að kaupa mysu

því ég ætla að setja í súr

sæta litla kisu.

Úti í garði á ég skúr,

er þar fullt af döllum.

Þar ég geymi í góðum súr

ganglimi af körlum.

Oft á kvöldin fínar frúr

finna hjá mér næði,

en að lokum upp úr súr

ég eymingjana snæði.

Siðferðis er mikill múr

sem meinar fólki að smakka

langsoðna og lagða í súr

litla feita krakka.

Ef ég fer og fæ mér lúr

fer mig strax að dreyma

að ég liggi oní súr

en ekki í bóli heima.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kínversk-íslenskur matur

 

Síðdegis, laugardaginn 28. maí, héldum við hjónin í leiðangur um reykjavíkursvæðið. Þessu sinni fórum við akandi enda náði yfirferð okkar yfir 5 sveitarfélög og tvö kjördæmi.

Að leiðangri loknum stóð svo á að klukkan var að verða 9 og kvöldverður ósnæddur. Því var numið staðar við Don Huang í Hafnarfirði og keyptur dýrindis matur, smokkfiskur í sterkri sósu og kjúklingur, pönnusteiktur, með gómsætu meðlæti.

http://www.kinaferdir.is/

Við fengum okkur sæti á meðan við biðum eftir matnum. Vasahljóðritinn, Olympus LS-11, nam andrúmsloftið. Um það leyti sem hljóðritun hófst bar að fólk sem hafði pantað mat og í fjarska heyrðist skarkað í pottum og pönnum í eldhúsinu. Kínverska og íslenska heyrist einnig og dauf tónlist í hljóðkerfi staðarins.

Ekki þurfti lengi að bíða þess að okkur yrði fengið þetta lostæti og héldum við með það heim á leið.

Njótið vel reyksins af réttunum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rjómaís með bjórbragði

Um þessar mundir h efur eini stjórnarmaður Maoíska ísklúbbsins, sem staddur er á Íslandi, kjörið ísbúðina við Laugalæk og Ís-land í Suðurveri við Kringlumýrarbraut í Reykjavík skemmtilegustu ísbúðir Reykjavíkur. Eigendur búðanna eru báðar konur.

Þykir rétt að tilnefna Erluís við Faxafen heilnæmustu ísbúð borgarinnar, en þar fæst sykurskertur eða jafnvel sykurlaus ís.

Einn góðan veðurdag í febrúar, skömmu fyrir kvöldfréttir Ríkisútvarpsins, settumst við niður og gæddum okkur á ís. Stjórnarmaður Maoíska ísklúbbsins fékk sér rjómaís með bjór frá Kalda og kom hann á óvart.

Hljóðriti var í vasanum og var hann dreginn upp. Gjörið svo vel að hlusta á hljóðritið í góðum hljómtækjum eða heyrnartólum og njótið íssins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Litla hagyrðingamótið 4. febrúar 2011

 

Á litla hagyrðingamótinu, sem haldið var á síðasta fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 4. febrúar síðastliðinn, var ort um súrt, rammt og sætt. Helgi Zimsen stýrði mótinu að vanda. Auk hans komu fram þeir Gunnar Thorsteinsson og Höskuldur Búi Jónsson. Ingi Heiðmar Jónsson forfallaðist og flutti Helgi vísur hans.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þorravísur á Iðunnarfundi eftir Helga Zimsen

 

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 4. febrúar 2011, fluttu Iðunnarfélagar tvo vísnabálka eftir Helga Zimsen. Fyrri bálkurinn fjallar um íslenskan mat. En þar sem ekki var snæddur íslenskur matur á fundinum nema þá pönnukökur, fór Rósa Jóhannesdóttir, formaður rímnalaganefndar, þess á leit við Helga að hann orti eina lokavísu. Þær urðu 7 og mátti hún velja eina þeirra. Hún kaus að láta flytja þær allar vegna valkvíða.

 

 

Matargikksbálkur

 

Aftur kominn enn á ný

árs er víst á fresti

ýmsir blóta þorra því

þá er úldnað nesti.

 

Freðinn ref ef finn á grund

fráleitt neita að borð'ann

úldna rollu eða hund

allt má drýgja forðann.

 

Gamalt nesti nörtum í

næring feðra vorra

borðum þetta bara af því

blóta verðum þorra.

 

Hákarl siginn sigla fær

svona oní maga:

brennivín um bitinn rær

bragð má þannig laga.

 

Súrinn virðist sumum best

sviðin aðrir kjósa

háfsins illri ýldupest

ýmsir jafnvel hrósa.

 

Sviðin eru mönnum mæt

metið þau við getum

snoppan er svo ósköp sæt

að við hana étum.

 

Þorra blóta, yrki óð,

önd og búknum hlýnar.

Finnst mér þá sem flæði blóð

fornt um æðar mínar.

 

Kjaftur bítur, lína er lögð

lengst úr fyrri tíma.

Þorrakrása kynleg brögð

kýs ég við að glíma.

 

Gengnir áar gæddu sér

á gömlum mat og þráum,

vegna þessa í veislu hér

vistir góðar fáum.

 

Punga þunga og súran sel

með sviði í kviðinn læði.

Metið get ég magál vel,

mikið spikið snæði.

 

(Helgi Zimsen)

 

Ábótarvísur

 

Kvæðamannafundir fljótt

fylla gesti kæti.

Flæðir rímið fram á nótt

fjörið held það bæti.

 

Iðunn glæðist óðs á stund,

örvast fjör og gaman.

Gamlar hefðir gleðja lund,

glöggt það finnum saman.

 

Hér nú yrkjum hress og slyng.

Hér er skáldafákur.

Hér er ekkert hrafnaþing.

Hér eru engar krákur.

 

Gaman er á gleðistund,

gefst þó fátt að éta.

Kvæðamannakempufund

kann ég vel að meta

 

Enn við kveðum eina stund,

óð í góðum hópi

Heftir ekki hal og sprund

hér þótt Steindór skrópi.

 

Þorrin eru þessi ljóð

þau við kváðum saman

þó að blóti einhver óð

ekki súrnar gaman.

 

Víst hér enda verðum brag

vísnaflóði lýkur.

Nú er fundið lokalag

línan hinsta fýkur.

 

(Helgi Zimsen)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kaffihús á vefnum

Bláberjaísterta á CafeSigrunSigrúnu Þorsteinsdóttur, aðgengissérfræðingi, er margt til lista lagt og lysta.

Fyrir nokkrum árum stofnaði hún kaffihús á vefnum

www.cafesigrun.com

Þar eru í boði ókeypis uppskriftir af ýmsu tagi. Flestar eru þær í hollara lagi og því full ástæða til að fara á þetta kaffihús. Ókeypis veitingar að öðru leyti en því að menn þurfa að útvega hráefnið sjálfir og búa þær til.

Ég útvarpaði viðtali við Sigrúnu í þættinum Vítt og breitt þann 6. september árið 2007 og læt það hér óstytt ásamt kynningu minni í upphafi.

Viðtalið var hljóðritað á HP-fartölvu með Digigram hljóðkorti og Shure VP88 hljóðnema.

Verði ykkur að góðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband