Allt iðar af lífi í suðvestan-golunni við Gróttu

Kvöld við GróttuÞá eru æðarkollurnar orðnar léttari og farnar að svamla um með unga sína. Æðarblikarnir eru hinir íbyggnustu og ráða ráðum sínum en kollurnar eru fremur hryssingslegar.

Í kvöld fórum við Elín út í fjöruna við Gróttu. Ég varð mér úti um Blimp-vindhlíf frá Röde, en Magnús Bergsson smitaði mig af blimp-sýkinni. Það var allsnörp suðvestan gola. Ég ákvað að nota Shure VP88 víðómshljóðnema. Golan var svo hvöss að ég neyddist til að skera af 100 riðunum á Nagra Ares BB+. Þarna bjargaði vindhlífin því sem bjargað varð við þessar aðstæður.

Þegar ég fór yfir hljóðritið síðar í kvöld reyndi ég að losna við eitthvað af goluskvaldrinu með lágtíðniafskurði, en það gerði bara illt verra. Þeir sem hafa gaman af að hljóðrita á voru vindblásna landi verða að leyfa vindinum að njóta sín öðru hverju. Magnús Bergsson er til dæmis snillingur í því. Ég hugsaði einnig að ég hefði e.t.v. átt að nota loðhlíf. Þá hefði ég misst eitthvað af hátíðninni og blikaskvaldrið hefði orðið ónýtt.

Ég birti hér tvö hljóðrit. Í því fyrra er þröngt hljóðhorn, en ég víkkaði það í seinna hljóðritinu. Ég reyndi einnig í þriðju tilraun að snúa hljóðnemanum þannig að hann vissi betur við fuglunum en þá varð vindurinn of yfirgnæfandi í annarri rásinni.

Elín Árnadóttir, sérlegur hljóðbloggsljósmyndari, tók þessa mynd í kvöld.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 7. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband