Vængjaðir Seltirningar og blá og glöð augu

Vorið 1998 lauk ég námi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Þar sem ég fékk enga vinnu við fjölmiðla lagði ég fyrir dagskrárstjóra útvarpsins fjölmargar hugmyndir um útvarpsþætti. Fyrsti þátturinn fjallaði um fuglalífið á Seltjarnarnesi og var útvarpað í ágúst þá um sumarið.

Stefán Bergmann hjálpaði mér að hljóðrita kríugarg á nesinu og Elín, kona mín, var mér innan handar um annað. Ríkisútvarpið léði mér Sennheiser víóms-hljóðnema sem ég notaði nokkuð.

Viðmælendur og sögumenn voru Sigurlaug Jónsdóttir, kennari, Jóhann Óli Hilmarsson, ljósmyndari og fuglafræðingur, Stefán Bergmann, líffræðingur, Jens Pétur Hjaltested, sem lengi var í nefndum á vegum Seltjarnarnesbæjar og var ef ég man rétt formaður umhverfisnefndar, Jón Ásgeir Eyjólfsson, tannlæknir og formaður golfklúbbs Seltjarnarness, Guðjón Jónatansson, verndari fuglanna á Seltjarnarnesi og Anna Birna Jóhannesdóttir, kennari og náttúruvinur.

Látið ekki lélegan lestur undirritaðaðs fæla ykkur frá því að hlýða á athyglisverðar frásagnir sögumanna.

Ein saga verður að fljóta með í þessu samhengi.

Að morgni hvítasunnudags árið 1998 fórum við Elín upp í Heiðmörk að hljóðrita fugla. Mývargur var þar nokkur og komust einhverjar flugur inn fyrir skeljarnar sem hlífa fólki við að sjá hversu skemmd augu mín eru. Olli þetta mér miklum óþægindum og varð ég að taka augnskeljarnar úr mér.

Þegar við höfðum lokið við hljóðritanirnar sóttum við Hring okkar Árnason, sem þá var á fjórða ári og fórum síðan til foreldra Elínar.

Drengurinn horfði eitt sinn á mig og sagði: „Afi, augun þín eru rauð!“

Ég sagði honum að augun mín væru ónýt og nú skyldi hann segja bæði langömmu og Elínu ömmu að afi væri með ónýt augu.

Blessað barnið hugsaði sig um og sagði svo: „Já, en mín augu eru blá og glöð.“

Er til yndislegri yfirlýsing?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband