Frá kirkju mótmælenda í Beijing 3. ágúst 1986

Trúarbrögð hafa átt misjöfnu gengi að fagna í Kína. Á dögum Tang-keisaraættarinnar, sem ríkti frá 618-907 eftir krist er sagt að í XI'AN, höfðuborg Kínaveldis, hafi verið ýmsir trúarsöfnuðir af ólíkum toga. Þar á meðal voru kristnir söfnuðir, múslimar og gyðingar svo að fátt eitt sé nefnt. Kristni leið undir lok en muslimar héldu velli og er enn starfandi trúarsamfélag þeirra í borginni sem byggir á gömlum grunni.

Hér verður ekki rakin saga kristni í Kína en þess þó getið að kristin trú hefur eflst mjög undanfarna áratugi og er nú talið að allt að 15-20 milljónum manna iðki kristna trú í landinu (sumir nefna að vísu lægri tölur).

Sumarið 1986 fórum við Emil Bóasson, samstarfsmaður minn, vildarvinur og velgjörðamaður til margra ára, til Kína ásamt hópi esperantista. Opinber tilgangur okkar var að gera 8 þætti fyrir íslenska ríkisútvarpið um samskipti Kínverja og Íslendinga og stóðum við félagarnir við þann þátt ferðarinnar.

Sunnudaginn 3. Ágúst fórum við ásamt tveimur vinkonum okkar í kirkju mótmælenda í Beijing. Það vakti aðdáun okkar og gleði hvað safnaðarsöngur var almennur. Leikið var undir á slaghörpu og orgel-harmonium. Hljóðrituðum við það sem fram fór og síðan viðtöl við nokkra kirkjugesti á eftir messu. Hér verður birtur síðasti sálmurinn sem sunginn var ásamt messusvörum. Í lokin heyrist hluti útgönguspilsins. Ekki hefur mér tekist að bera kennsl á sálmalagið en finnst sem ég hafi heyrt það áður. Er það ekki ólíklegt því að flest ef ekki öll sálmalögin, sem sungin voru við guðsþjónustuna, voru vestræn.

Notað var Sony TCD5 segulbandstæki, Sony metalsnælda og Shure SM-63-L hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Upptakan hefur enst vel og vekur ljúfar minningar fá góðu sumri. Var það ekki við lok þessarar messu að prestarnir færðu okkur Heilaga ritningu að gjöf og báðu fyrir eintak til Biskups Íslands, sem jafnframt var þá boðið í heimsókn til Kína?

Í Bandaríkjunum er enn safnað fyrir trúboði í Kína og Biblíugjöfum og trúir mér enginn að kristnir söfnuðir þar prenti sínar eigin biblíur. Trúin lokar stundum skilningarvitum bestu manna.

Bæta þarf við ýmsum öðrum upptökum sem til eru úr heimsóknum til margra annarra trúfélaga. Merkilegt að enn skuli því haldið fram að trúfrelsi sé ekki í Kína.

Emil (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband