Þorravísur á Iðunnarfundi eftir Helga Zimsen

 

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 4. febrúar 2011, fluttu Iðunnarfélagar tvo vísnabálka eftir Helga Zimsen. Fyrri bálkurinn fjallar um íslenskan mat. En þar sem ekki var snæddur íslenskur matur á fundinum nema þá pönnukökur, fór Rósa Jóhannesdóttir, formaður rímnalaganefndar, þess á leit við Helga að hann orti eina lokavísu. Þær urðu 7 og mátti hún velja eina þeirra. Hún kaus að láta flytja þær allar vegna valkvíða.

 

 

Matargikksbálkur

 

Aftur kominn enn á ný

árs er víst á fresti

ýmsir blóta þorra því

þá er úldnað nesti.

 

Freðinn ref ef finn á grund

fráleitt neita að borð'ann

úldna rollu eða hund

allt má drýgja forðann.

 

Gamalt nesti nörtum í

næring feðra vorra

borðum þetta bara af því

blóta verðum þorra.

 

Hákarl siginn sigla fær

svona oní maga:

brennivín um bitinn rær

bragð má þannig laga.

 

Súrinn virðist sumum best

sviðin aðrir kjósa

háfsins illri ýldupest

ýmsir jafnvel hrósa.

 

Sviðin eru mönnum mæt

metið þau við getum

snoppan er svo ósköp sæt

að við hana étum.

 

Þorra blóta, yrki óð,

önd og búknum hlýnar.

Finnst mér þá sem flæði blóð

fornt um æðar mínar.

 

Kjaftur bítur, lína er lögð

lengst úr fyrri tíma.

Þorrakrása kynleg brögð

kýs ég við að glíma.

 

Gengnir áar gæddu sér

á gömlum mat og þráum,

vegna þessa í veislu hér

vistir góðar fáum.

 

Punga þunga og súran sel

með sviði í kviðinn læði.

Metið get ég magál vel,

mikið spikið snæði.

 

(Helgi Zimsen)

 

Ábótarvísur

 

Kvæðamannafundir fljótt

fylla gesti kæti.

Flæðir rímið fram á nótt

fjörið held það bæti.

 

Iðunn glæðist óðs á stund,

örvast fjör og gaman.

Gamlar hefðir gleðja lund,

glöggt það finnum saman.

 

Hér nú yrkjum hress og slyng.

Hér er skáldafákur.

Hér er ekkert hrafnaþing.

Hér eru engar krákur.

 

Gaman er á gleðistund,

gefst þó fátt að éta.

Kvæðamannakempufund

kann ég vel að meta

 

Enn við kveðum eina stund,

óð í góðum hópi

Heftir ekki hal og sprund

hér þótt Steindór skrópi.

 

Þorrin eru þessi ljóð

þau við kváðum saman

þó að blóti einhver óð

ekki súrnar gaman.

 

Víst hér enda verðum brag

vísnaflóði lýkur.

Nú er fundið lokalag

línan hinsta fýkur.

 

(Helgi Zimsen)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband