Afbrigðilegt súrmetisát

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 7. Febrúar síðastliðinn var margt kveðið um Þorrann. Þórarinn Már Baldursson kvað þessar vísur um matarlyst sína við alkunna stemmu, en hann er prýðilegur kvæðamaður eins og heyra má.

Sértu hallur heimi úr

og heilsu viljir glæða

onúr hjalli og upp úr súr

ættir þú að snæða

Heilnæman nú hyggst ég kúr

halda næstu daga;

allt er betra upp úr súr,

er það gömul saga.

Ekki vil ég vera klúr,

en vita mega flestir

að ég borða upp úr súr

allt sem tönn á festir.

Stundum fer ég fram í búr

að forðast heimsins amstur.

Indælan ég upp úr súr

et þar lítinn hamstur.

Lykkju minni leið ég úr

legg að kaupa mysu

því ég ætla að setja í súr

sæta litla kisu.

Úti í garði á ég skúr,

er þar fullt af döllum.

Þar ég geymi í góðum súr

ganglimi af körlum.

Oft á kvöldin fínar frúr

finna hjá mér næði,

en að lokum upp úr súr

ég eymingjana snæði.

Siðferðis er mikill múr

sem meinar fólki að smakka

langsoðna og lagða í súr

litla feita krakka.

Ef ég fer og fæ mér lúr

fer mig strax að dreyma

að ég liggi oní súr

en ekki í bóli heima.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og núlli?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband