Á aðventunni - jólavísur eftir Pétur Stefánsson

Á jólafundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 4. Desember síðastliðinn, voru kveðnar vísur Péturs Stefánssonar um aðventuna. Rósa Jóhannesdóttir, kvæðakona og formaður rímnalaganefndar, stjórnaði samkveðskapnum.

Hljóðritið er birt með heimild höfundar og þátttakenda.

 

Á aðventunni

 

Á aðventu er segin saga

sem mig ávallt pirrar mjög,

í eyrum glymja alla daga

óþolandi jólalög.

Í desember ég fer á fætur

fjörlítill sem síld í dós.

Eyðir svefni allar nætur

óþolandi jólaljós.

Út og suður allir hlaupa.

Ærið marga þjakar stress.

Eiginkonur ýmsar kaupa

óþolandi jóladress.

Í ótal magni æ má heyra

auglýsingar fyrir jól.

Losar merginn oft úr eyra

óþolandi barnagól.

Húsmæðurnar hreinsa og sópa,

húsið skreyta og strauja dúk.

Íslensk þjóð er upp til hópa

óþolandi kaupasjúk.

Fennir úti, frostið stígur,

faðmar að sér dautt og kvikt.

Upp í nasir einnig smýgur

óþolandi skötulykt.

Margir finna fyrir streitu

og fá að launum hjartaslag.

Yfirbuguð er af þreytu

íslensk þjóð á jóladag.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Skemmtilegt að hlusta á
Takk fyrir mig og góðar kveðjur
Milla frænka

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.12.2015 kl. 07:16

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband