Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950

Hinn 7. janúar 1950 fórst vélskipið Helgi VE 333 er það lenti á Skelli, boða sem er skammt austan við Faxasker.

Um svipað leyti brast á mikið ofviðri í Vestmannaeyjum sem enn er í minnum haft.

Með Helga fórust 10 menn. Tveir skipverjar komust upp í Faxasker en lík þeirra náðust ekki þaðan fyrr en um 40 stundum eftir að Helgi fórst.

Fyrri þátturinn, sem fylgir þessari færslu, fjallar um sögu Helga allt frá því að kjölur var lagður og þar til yfir lauk. Listi yfir sögumenn og aðra, sem komu að gerð þáttarins, er birtur í lok þáttarins.

Sigtryggur Helgason styrkti gerð þessa þáttar og var höfundi ómetanleg stoð og stytta. Einnig var Sigrún Björnsdóttir, fjölmiðlafræðingur, mér innan handar og gerðist sögumaður þáttarins.

Seinni þátturinn fjallar um þau þrjú skip sem fórust við Faxasker á 20. öld, en þau voru Esther, dönsk skúta, Helgi og Eyjaberg.

Þar segir m.a. frá mikilli svaðilför er Helgi fór til Bretlands í febrúar árið 1943. gunnþóra Gunnarsdóttir var lesari í þættinum ásamt höfundi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavík 871 +-2

Sumarið 2006 rakst ég inn á sýninguna Reykjavík 871 +-2 á göngu okkar hjóna um borgina. Ég varð uppnuminn. Þessi sýning er á meðal hins besta sem unnið hefur verið á svið menningarsögu hér á landi. Ég vann þátt fyrir Ríkisútvarpið um sýninguna þar sem lýst er tilurð hennar og uppsetningu.

Ég vænti þess að þáttur sá sem hér er birtur virði til þess að einhverjir njóti sýningarinnar. Við hjónin höfum sótt hana nokkrum sinnum og finnum ætíð eitthvað nýtt.

Öll viðtöl og kynningar voru hljóðrituð með Nagra Ares-M. Notaðir voru Sennheiser ME62, ME65 og víðómshljóðnemi sem festur var á tækið (viðtalið við Orra Vésteinsson).

Þátturinn var unninn í Soundforge og kynningar lesnar í svefnherbergi okkar hjóna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vernharður Bjarnason - Venni frændi

Vernharður Bjarnason fæddist 16. júní 1917 og lést 1. mars árið 2001. Hann var einhver mesti frænd æsku minnar í föðurætt, en Benedikt, föðurfaðir minn og Bjarni, faðir Venna, voru bræðrasynir. Bjarni mun m.a. hafa átt hlut að því að fá föður mínum hið góða fóstur hjá þeim hjónum, Sigtryggi Péturssyni og Hólmfríði Magnúsdóttur á Húsavík nokkru eftir að móðir hans dó frá honum rúmlega árs gömlum.

Árið 1992 bað ég Venna að rifja upp kynni sín af föður mínum, Helga Benediktssyni, athafnamanni í Vestmannaeyjum. Venni kunni einhver reiðinnar býsn af sögum og sagði betur frá en flestir sem ég hef þekkt. Varð hann vel við bón minni.

Sjö árum síðar tók ég hann enn tali og bað hann að segja mér frá kynnum sínum af vélskipinu Helga VE 333 sem fórst við Faxasker 7. janúar árið 1950. Notaði ég brot úr þeirri frásögn í útvarpsþætti sem ég gerði um slysið.

Frásagnir Venna frænda hafa aldrei verið birtar í heild. Birti ég þær nú algerlega óklipptar í minningu þeirra frændanna, föður míns og hans. Þeir áttu margt saman að sælda og þótti vænt hvorum um annan. Og móðir mín sagði um Venna að hann væri ráðabesti maður sem hún hefði þekkt og oft óskaði hún þess að Venni réði öllu hér á landi.

Njótið heil.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tónelskur miðstöðvarofn

Heimilishljóðin eru margvísleg. Í eldhúsinu hjá okkur er miðstöðvarofn. Sá, sem átti íbúðina áður, hafði látið setja ofninn langt frá útivegg. Þegar nýrri eldhúsinnréttingu var komið fyrir var nýr ofn keyptur og hann fluttur að útvegg enda kom í ljós að þar var úttak fyrir ofninn.

Þessi ofn hefur sjaldan verið til friðs og fyllist iðulega af lofti. Við reyndum að auka innstreymið inn á hann og mér skilst að aukinn hafi verið þrýstingur á húskerfinu. En loftið myndast ævinlega.

Ofninn hefur nú tekið að semja sjálfur lágvær tónverk. Hér birtist eitt þeirra. Ef til vill getur einhver pípulagningarmaður greint verkið.

Ofninn krefst engra stefgjalda og þess vegna er hljóðverkið birt á þessari síðu.

Hljóðritað á Nagra Ares BB+ með tveimur Sennheiser ME64.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fiskurinn hefur fögur hljóð

Í þessum þætti segir frá síldinni og því þegar Íslendingar fóru að nota fiskleitartæki. Baldur Böðvarsson og Eggert Gíslason voru aðalsögumenn þáttarins. Einnig var rætt við Pál Reynisson hjá Hafrannsóknastofnun.

Viðtölin voru hljóðrituð í maílok 1999 og þættinum útvarpað þá um sumarið. Einsöngvarar þáttarins voru þau Elín Árnadóttir og Hringur Árnason sem þá var á 5. ári.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skaftfellingur, aldna skip, aldrei verður sigling háð

Árið 1999 gerði ég þrjá þætti fyrir Ríkisútvarpið sem báru heitið "Sögur af sjó". Einn þeirra fjallaði um vélskipið Skaftfelling VE33. Byggt var m.a. á útvarpsþáttum sem Gísli Helgason hafði gert um skipið á 8. áratugnum auk þess sem viðtöl voru tekin við Jón Hjálmarsson, Ágúst Helgason og Guðrúnu Gísladóttur.

Árið eftir að þátturinn var gerður var Skaftfellingur fluttur austur í Vík í Mýrdal. Þar er hann nú geymdur í gamalli skemmu og bíður þess er verða vill.

Flest viðtölin voru tekin með Sennheiser ME-65 og notað var Sony md-tæki.

Hægt er að fá hljóðrit í fullum gæðum hjá höfundi þáttarins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýtt hljóðrit með Steindóri Andersen

Það er á engan hallað þótt fullyrt sé að Steindór Andersen, formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sé nú mestur kvæðamaður hér á landi. Hann hefur öðrum fremur hafið stemmuna til þeirrar virðingar sem henni ber innan íslenskrar menningar.

Á fundi Iðunnar, 5. Febrúar síðastliðinn, kvað hann úr kosningarímum séra Guðlaugs Guðmundssonar, prests á Stað í Steingrímsfirði, sem hann orti vegna kosningar sýslunefndarmanns, sem fram fór að Hrófbergi á Jónsmessunni 1912. Guðlaugur orti þessa rími í riddarasagnastíl til þess að spauga með þá sem að þessari kosningu stóðu.

Hljóðrit þetta er birt með samþykki Steindórs.

Notaður var Shure VP88 víðómshljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rósa Jóhannesdóttir kveður vísur um áramótin, veðrið o.fl.

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 8. Janúar síðastliðinn, Kvað Rósa Jóhannesdóttir nokkrar vísur sem hún fann á Leir, póstlista meintra hagyrðinga. Fyrst flutti hún þó vísur sem eitt leirskáldanna, Sigmundur Benediktsson, hafði sent henni þá um morguninn.

Hin leirskáldin voru Arnþór Helgason, Hallmundur Kristinsson, Jón Ingvar Jónsson, Pétur Stefánsson, Árni Jónsson, Davíð Hjálmar Haraldsson og Sigrún Haraldsdóttir.

Notaðir voru tveir Sennheiser ME-64 hljóðnemar sem mynduðu u.þ.b. 90°horn og vísuðu hvor að öðrum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Guðrúnarslysið 23. febrúar 1953

Hinn 23. Febrúar árið 1953 hvolfdi Guðrúnu VE 163 og fimm menn fórust. Fjórir komust af. Þeim vildi til happs að gúmíbjörgunarbátur var um borð og skolaði þeim á land skammt undan Hallgeirsey í Landeyjum.

Í þættinum, sem hér er birtur, segir Sveinbjörn Hjálmarsson, einn þeirra, sem komust af, frá þessum atburðum og draumum sem honum tengdust. Einnig er skotið inn athugasemdum Jóns Björnssonar frá Bólstaðarhlíð o.fl.

Þátturinn er birtur á mp3-sniði í 56 bita upplausn. Þeir, sem hafa hug á hljómbetra eintaki, geta haft samband við ritstjóra þessarar bloggsíðu.

Hlustendum skal bent á að þeir geta halað niður mp3-skránni og er það e.t.v. betra en að hlusta beint af netinu. Þátturinn er rúmar 43 mínútur og frásögnin tekur á.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Apinn sem keypti grænmeti og aura

Birgir Þór Árnason birgissonar og Elfu Hrannar Friðriksdóttur var borinn í þennan heim 15. febrúar 2005 og hélt upp á 5 ára afmæli sitt í gær. Mikið var um dýrðir eins og vera ber á stórafmælum.

Ekkert vekur mönnum innilegri gleði, þakklæti og djúpa lotningu en þegar barn fæðist. Amma og afi verða ung aftur og þakka fyrir að eiga hlutdeild í þessari dásemd.

Haustið 2008 gerði ég örstuttan útvarpsþátt um Birgi Þór sem þá var á fjórða ári. Auk hans komu nokkur leikskólabörn við sögu í leikskólanum tjarnarási, þar sem Birgir litli stundar nám.

Notaðir voru þrír hljóðnemar. Sennheiser MD-21U við útihljóðritanir, AKG DM-230 í samtölum og Shure VP88 á leikskólanum. Hljóðritinn sjálfur er af tegundinni Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband