Kveðið í bjargi

Sumarið 2006 tókum við Elín á leigu íbúð í Örlygshöfn í Patreksfirði og gerðum þaðan út ásamt fjölskyldunni.

Látrabjarg heillaði og þangað fórum við einn daginn. Þetta var seinni hluta dags og hafgola nokkur. Ekki þorði ég of nærri brúninni heldur settist niður og beindi hljóðnemanum að bjargbrúninni. Þess vegna er skvaldrið e.t.v. nokkuð fjarlægt en samt áhrifamikið. Talsverð umferð ferðafólks torveldaði hljóðritunina og því varð hljóðritið styttra en gert var ráð fyrir.

Örlítið vindgnauð heyrist í vinstri rás og þytur golunnar í gróðrinum hægra megin. Notaður var Shure VP88 og Nagra Ares-M.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útidansleikur í Maastricht

Ég hef tvisvar komið til Maastricht í Hollandi, árið 1992 og 2005. Elín var með mér í bæði skiptin og árið 2005 slóst Hringur Árnason, þá á 11. ári, í för með afa og ömmu.

Ég eyddi tímanum að mestu á námskeiði um löggjöf Evrópusambandsins um málefni fatlaðra. Námskeiðinu lauk laugardaginn 25. júní. Veðrið var yndislegt og ákváðum við að skoða borgina. Á rölti okkar rákumst við á hóp fólks sem skemmtil sér konunglega við dans á litlu torgi. Á palli stóðu tveir tónlistarmenn, trumbuslagari og harmonikuleikari. Annar þeirra söng af hjartans list.

Leikur þeirra félaganna minnti mig á jólaböllin í Vestmannaeyjum í árdaga en þar léku menn alls kyns lög á trumbur og harmoniku, jafnvel bítlalög. Ég var með Nagra Ares BB hljóðpela meðferðis og dreypti ég á hann einu lagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband