Elsa á Bítlatónleikum

Veturinn 2007 var haldið skemmtikvöld á vegum starfsmanna Öskjuhlíðarskóla. Þar sagði Birgir Þór Baldursson, kennari, frá ferð á Bítlaslóðir í Liverpool og annar kennari, Elsa Guðmundsdóttir, frá því er hún fór á bítlatónleika í borginni Brighton í Bretlandi sumarið 1964, en hún var þar á sumarskóla. Frásögn Elsu var fyrir ýmsa hluti stórmerkileg og fékk ég hana til að segja mér hana inn á Nagra-hljóðpelann. Ég útvarpaði hluta frásagnarinnar í þættinum Vítt og breitt þá um vorið en varð að stytta hana talsvert. Hér birtist hún óstytt - öllu innihaldi pelans hellt gagnasafn mbl.is.

Elsa tók myndir á tónleikunum og faðir hennar, sem var ljósmyndari, hjálpaði henni við að framkalla þær og lagfæra.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ómstríð á með mildu ívafi

Föstudaginn 17. September vorum við Ingi Heiðmar Jónsson á faraldsfæti og hljóðrituðum. Fyrst varð fyrir okkur Svartá í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu þar sem hún fellur úr Gjánni. Hljómur árinnar er þar ómstríður en með furðumildu ívafi. Þennan dag var veður stillt og kjörið til hljóðritana.

Notaðir voru tveir Sennheiser Me62 hljóðnemar með 90° horni.

Við gleymdum að hafa myndavél með okkur og er meðfylgjandi mynd fengin af netinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýjar hringhendur eftir Jóa í Stapa

Jóhann Guðmundsson - Jói í Stapa - í góðra vina hópi.

Fimmtudaginn 16. september síðastliðinn löguðum við Ingi Heiðmar Jónsson land undir fót og héldum norður í Austur-Húnavatnssýslu að hljóðrita. Árangur ferðarinnar varð meiri en við bjuggumst við og verður afraksturinn birtur á þessum síðum eftir því hvernig vinnslu efnisins vindur fram.

Í morgun var tekið hús á Jóhanni Guðmundssyni, landskunnum hagyrðingi, Jóa í Stapa, sem býr að Norðurbrún 9 í Varmahlíð. Á leið okkar hirtum við upp Álftagerðisbróðurinn Sigfús Pétursson. Jóii í Stapa var svo vinsamlegur að fara með nokkrar vísur. Þar af eru tvær sem aldrei hafa birst áður.

Jóhann er fæddur árið 1924 og yrkir sem aldrei fyrr. Hann er ótrúlega vel á sig kominn og stundar enn smíðar.

Ljósmyndina sendi Anna Heiðrún Jónsdóttir. Hún var tekin í Hótel Varmahlíð vorið 2006 þegar sveitungar hans glöddust með Jóhanni vegna útgáfu ljóðmæla hans sem nefnas Axarsköft.

Í upphafi viðtalsins spurði ég hvort Jóhann hefði ort eitthvað nýlega.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tvísöngur breimakatta

Skuggi verkstæðisköttur (ljósmynd)

Við Elín vorum að ganga frá í kvöld upp úr kl. 23 þegar dásamlegur söngur barst að utan. Elín hvatti mig eindregið til þess að nýta tækifærið og hljóðrita. Ekki var vitað hve lengi söngskemmtan þessi stæði yfir og því var gripið það sem hendi var næst, Nagra Ares BB+ og Sennheiser MD21U hljóðnemi.

Ég vona að hlustendur njóti sönglystarinnar þrátt fyrir vindgnauðið.

Ljósmyndin, sem prýðir þessa færslu, er fengin úr safni Önnu Maríu Sveinsdóttur á Stöðvarfirði. Skuggi vann um nokkurra ára skeið á verkstæði Síldarbræðslunnar á Fáskrúðsfirði, en Hrafn Baldursson, eiginmaður Maríu, var vinnufélagi hans. Skuggi fylgdi Hrafni gjarnan heim um helgar og naut þar góðs atlætis. Myndina sendi Þorgeir Eiríksson, Toggi, mikilvirkur ljósmyndari.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband