Áramótaskothríðin 2010-2011

Gleðilegt ár.

fyrsti áratugur aldarinnar endaði vel. Miklu var skotið af flugeldum en púðurreykurinn ekki jafnmikill og stundum áður. Veðurguðirnir sáu fyrir því.

Hamagangurinn var svo mikill að ég stóðst ekki mátið og dró fram tækjabúnaðinn. Hélt ég mig á svölunum á 3. hæð Tjarnarbóls 14 með tvo sennheiser Me62-hljóðnema. Hljóðritað var á Nagra Ares BB+ á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.

Fyrst skar ég neðan af 100 riðunum en ákvað síðan að láta skeika að sköpuðu og afnam afskurðinn. Drunurnar verða því býsna tilkomumiklar og örlítið kann að bera á yfirmótun.

Þeir sem hafa gaman af samanburðarrannsóknum geta borið saman skothríðina um þessi áramót og hin síðustu. Væntanlega verður þessum hljóðritunum haldið áfram næstu ár og fæst þá samanburður á milli staða auk þess sem áætla má magn ólíkra tegunda flugelda af hljóðunum sem rata inn á minniskortið.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum eða hljómtækjum. Höfundur hljóðritsins tekur hvorki ábyrgð á heyrnar- né tækjaskaða.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ókeypis flugeldaskothríð

Um síðustu áramót hljóðritaði ég rúmlega 8 klst af áramótahljóðum. Tveimur Sennheiser ME62 var komið fyrir á ónefndum svölum. Hófst hljóðritun kl. 17:25 árið 2009 og lauk kl. 02:08 árið 2010.

Ýmsir hafa gaman af áramótahljóðum en geta ekki skotið upp flugeldum. Fylgir því þessari færslu um stundarfjórðungur mikillar skothríðar sem nýtur sín best í heyrnartólum eða góðum hátölurum. Þar sem mikið myndefni er til af ljósaganginum hefur ritstjóri ekki áhyggjur af því að menn verði sér ekki úti um þann hluta sýningarinnar. Hlustendur eru áminntir um að gæta þess að verða hvorki fyrir heyrnarskaða né eyðileggja hljómtækin.

Njótið vel. Einnig eru þakkaðar þær undirtektir sem hljóðbloggið heffur fengið. Haldið verður áfram á sömu braut og eftir áramótin verða birt viðtöl og frásagnir sem ekki hafa birst áður. Fleira er í bígerð og eru tillögur frá hlustendum einnig vel þegnar.

Ritstjóri óskar hlustendum árs og friðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjölbreytni brimsins

Fjölmargir hafa spreytt sig á að ljósmynda síbreytilegt brimið. Það er engu fábreytilegra viðfangsefni að hljóðrita hinar margvíslegu hljóðmyndir þess.

Umhverfis golfvöllinn á Seltjarnarnesi liggur stígur. Í dag milli kl. 16 og 17 fóru fáir um hann. Brimgnýrinn var talsverður. Lágsjávað var og því hljóðin ögn fjarlægari en á flóði, en áhrifin engu síðri og það var líkast því sem við værum víðsfjærri vélaskarkala höfuðborgarinnar, umvafin dulúð rökkursinns sem smám saman varð myrkur. En lengi sást bjarma fyrir roða í vestri.

Skammt sunnan við gamla varðskýlið er dálítið útskot. Þar námum við Elín staðar. Í fyrstu tilraun skar ég ekkert af lágtíðninni en óttaðist að vindurinn truflaði hljóðritið og því skar ég af 100 riðum í seinni hljóðritunum.

Fyrstu tvö hljóðritin eru gerð þannig að ég horfði nær til suðurs og var með Sennheiser ME62 í u.þ.b. 90° uppsetningu. Hljóðrit 2 er gert á sama stað en skorið neðan af 100 riðunum.

Hljóðrit 3 er gert nokkrum metrum norðar og horfði ég þá til vesturs. Ótrúlegt er hvað hljóðið er gjörólíkt.

Að lokum var staðnæmst við Daltjörnina. Þá var sjávarniðurinn orðinn lágur, en þó greindust nokkrar bárur sem skáru sig úr gnýnum.

Þessi hljóðrit njóta sín best í góðum hátölurum eða heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólavænting

Á aðfangadagsmorgun árið 2009 útvarpaði ég dálítilli hljóðmynd sem ég nefndi Jólavæntingu. Hún var sett saman úr ýmsum áttum. Nefna má barnatíma frá Vestmannaeyjum árið 1973, söng Hrings Árnasonar frá 2007, bróðir hans, Birgir Þór, söng fyrir mig 2009 þegar hann var á 5. ári og Sunna Kristín Ríkharðsdóttir lenti í hremmingum vegna flumbrugangs Kertasníkis aðfaranótt aðfangadags í fyrra.

Njótið vel og jólist ykkur vel.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hringhendu hjónin á Akranesi

Hringhendu hjónin á Akranesi á Bragaþingi 2010.

Lýsingarorðið "hringhendur" er notað innan Kvæðamannafélagsins Iðunnar um þann sem létt er um að yrkja hringhendur. Heiðurshjónin og snilldarhagyrðingarnir, Anna Heiðrún Jónsdóttir og Sigmundur Benediktsson, fylla þann flokk með sæmd.

Ég útvarpaði viðtölum við þau í janúar 2008 og fylgja þau bæði með þessari færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vindur blæs um vetrarnátt

Um niðnættið herti vindinn talsvert á Seltjarnarnesi. Kl. 12 á miðnætti mældust 12 sekúndumetrar á mæli Veðurstofunnar í Öskjuhlíðarhálendinu eins og Jón Múli kallaði það, en ég er viss um að í hvössustu hviðunum var mun hvassara.

Á tjarnarbóli 14 eru stálkantar til þess að hlífa þak-kantinum, en hann var farinn að skemmast fyrir um tveimur áratugum. Í stálinu heyrist dálítið í hvassviðri og loftnet, sem er á suðvesturhorni hússins, tekur undir. Úr þessu verður hinn fróðlegasta hljómkviða eins og hlustendur geta heyrt. Þeir sem hafa góða heyrn greina einnig tifið í vekjaraklukku.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andardráttur fjöleignarhúss í óveðri

Þann 17. desember 2010 gekk hvassviðri yfir landið. Þegar ég átti leið um Tjarnarból 14 bárust mér ýmis hljóð sem urðu til þegar vindurinn réðst á húsið. Það hvein í hverri gátt og loftræstingin lét í sér heyra. Hurðir glömruðu í falsinum o.s.frv. Vegna eðlislægrar feimni og þess að málarar voru að störfum, frestaði ég hljóðritun þar til kvöldaði, en þá fór ég á kreik.

Áður en þið farið að hlusta skuluð þið slökkva öll ljós eða loka augunum. Hljóðritað var í myrkri. Ljósglæta barst að utan frá götuljósunum.

Við hefjumst handa á ganginum á 3. hæð, stöldrum svo við á jarðhæðinni og ljúkum síðan ferðinni þar sem hún hófst.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og tveimur Sennhyeiser ME62 hljóðnemum

Hljóðritið nýtur sín best í góðum hátölurum eða heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eðalhagyrðingurinn Sigrún Ásta Haraldsdóttir

Sigrún Á. Haraldsdóttir

Fyrir nokkrum árum birtist ný stjarna á hagyrðingahimni Íslendinga og hefur skinið skært síðan. Sigrún Ásta Haraldsdóttir, sem stýrir þjónustusviði tölvudeildar Landspítalans, er fædd á Blönduósi árið 1953 og ól aldur sinn fyrstu 10 ár ævinnar á bænum Litla-Dal í Austur-Húnavatnssýslu. Fyrir þremur árum útvarpaði ég nokkru af kveðskap hennar og fylgir hljóðritið með þessari færslu. Síðar verður birt meira af ljóðum og vísum Sigrúnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Það er dálítið eins og að skreppa í annan landshluta að fara vestan af Seltjarnarnesi suður í Hafnarfjörð. Bæjarbragurinn í Hafnarfirði er á einhvern hátt frábrugðinn Reykjavíkurbragnum, að ekki sé talað um Seltjarnarnes sem er að mestu svefnbær. Að vísu hafa verið byggð úthverfi í Hafnarfirði sem lúta svipuðum lögmálum, en miðbærinn er þó enn á sínum stað og er miðbær.

Við hjónin höfum stundum brugðið okkur í jólaþorpið í Hafnarfirði á aðventunni. Í dag vorum við þar ásamt tengdadóttur okkar og þremur sonarsonum. Sá elsti sá um mið-bróðurinn, Elín um þann yngsta og ég var á ábyrgð tengdadótturinnar.

Skemmtiatriði hófust kl. 15:00 í jólaþorpinu og þar flutti Jólatríóið jólasöngva. Í för með mér var Nagra Ares BB+ hljóðriti og aldraður Sennheiser MD21 hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rafbíl reynsluekið á Akureyri

Í þættinum Tilraunaglasinu í dag útvarpaði Pétur Halldórsson ökuferð með rafbíl sem Orkusetrið á Akureyri hefur fengið til prófunar.

Bíllinn heitir Mitsubishi MIEV og nú er hann væntanlegur frá franska bílarisanum PSA líka undir heitunum Citroën C-Zéro og Peugeot IOn, nánast óbreyttir. Sjá vefsíðu Orkuseturs,

www.orkusetur.is.

Í bílnum er 47 kílóvatta rafmótor sem samsvarar 64 hefðbundnum hestöflum. Litíum-rafhlaða er í bílnum, 330 volt, og hún á að jafnaði að endast til um 130 km. aksturs. Innan bæjar á vetrum endist hún þó væntanlega mun skemur því kuldinn hefur áhrif og í kuldanum notar fólk miðstöðina meira o.s.frv. Bíllinn er 15 sekúntur að ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu og kemst hraðast 130 km. á klukkustund. Hann tekur fjóra í sæti að bílstjóra meðtöldum og farangursrýmið er 166 lítrar. Þessar tölur eru allar sambærilegar við minnstu bensín- og díselbíla nema hvað hámarkshraði þeirra er yfirleitt nokkru meiri. Rafbíllinn er stilltur þannig að hann komist ekki hraðar en þetta.

Pétur notaði Nagra ARES+ hljóðpela og Shure VP88 víðómshljóðnema. Hlustendur eru hvattir til þess að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum og skynja um leið það sem gerist innan dyra og utan bílsins.

Slóðin á vef Tilraunaglassins er

http://ruv.is/tilraunaglasid


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband