Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Útifundur á Austurvelli 8. nóvember 2008

Mér gafst einungis tækifæri til að sækja einn baráttufund á Austurvelli veturinn 2008-2009. Ég þóttist þó leggja lóð mín á vogarskálarnar með því að upplýsa sitthvað og halda uppi gagnrýni á http://arnthorhelgason.blog.is. Hlaut ég á stundum ótæpilegar skammir frá stjórnleysingjum sem sökuðu mig um stofubaráttu.

Við Elín sóttum fundinn sem haldinn var á Austurvelli 8. nóvember 2008. Þar var andrúmsloftið lævi blandið. Ræðumenn voru þau Ragnheiður Gestsdóttir, Arndís Björnsdóttir, Sigurbjörg Árnadóttir og Einar Már Guðmundsson. Hörður Torfason stýrði fundinum af sínu alkunna æðruleysi og þeirri fágun sem einkennir alla framkomu hans.

Á öxlinni hékk Nagra Ares BB+ og meðferðis hafði ég Sennheiser MD21U hljóðnema sem nam það sem fyrir eyru bar. Hljóðritið er rúmlega klst langt og er komið hér fyrir sem sagnfræðilegri heimild.

Frumritið er gert með 16 bita upplausn og 44,1 kílóriða tíðni. Vegna lengdar varð að þjappa því í 96 kb/sek.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Alþjóðasöngur verkalýðsins og draumur þýðandans

Að kvöldi 15. júní 2009 héldu félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni fund við Grunnuvötn í Heiðmörk, en þar hefur félagið helgað sér reit. Ýmislegt var þar til skemmtunar eins og við mátti búast.

Þorvaldur Þorvaldsson, sem er hagur á tré og íslenskt mál, kynnti þar þýðingu sína á Baráttusöng verkalyðsins sem ortur var árið 1871 og rakti sögu hans. Einnig sagði hann frá tildrögum þess að hann réðst í að ljúka þýðingu Jakobs Smára Jóhannessonar, skálds, en höfundur ljóðsins, sem var franskur, birtist Þorvaldi í draumi og talaði prýðilega íslensku.

Frásögn Þorvalds hljóðritaði ég og frumflutning söngsins úti í náttúrunni. Notaður var Nagra Ares BB+ og AKG DM-230 víður hljóðnemi.

Efni þetta er birt með leyfi Þorvalds. Tekið skal fram að þýðingin hefur verið endurbætt og birtist væntanlega innan skamms.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vigur og skagfirskar, söngelskar húsmæður í orlofi

sumarið 2009 nutum við hjónin þess að ferðast um Vestfirði. Gerðum við út frá Súðavík og hljóðrituðum margt.

Laugardaginn 27. júlí sigldum við út í Vigur en þangað ættu allir að fara sem nema staðar við Ísafjarðardjúp. Þar hljóðritaði ég viðtal við Salvar Baldursson, sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég notaði tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema, rétti honum annan og hélt sjálfur á hinum. Í hljóðvinnslunni færði ég rásirnar saman svo að viðtalið yrði ögn áheyrilegra. Á leiðinni í land sungu nokkrar skagfirskar húsmæður við raust, hressar eftir kaffið og bakkelsið í vigur.

Ég hljóðritaði andrúmsloftið í gönguförinni um vigur, hélt á hljóðnema í annarri hendi og vísaði honum niður. Þannig fékkst þyturinn af grasinu. Áður en ég útvarpaði samtalinu notaði ég tækifærið austur á Þingvöllum og talaði kynninguna þar. Engin umferð var og því hljóðumhverfið æskilegt í logninu. Þá notaði ég Sennheiser MD-21U sem var fyrst framleiddur árið 1954. Þann hljóðnema keypti ég hjá PFAFF árið 1983.

Söng skagfirsku kvennanna hljóðritaði ég á afturþilfari farþegabátsins. Hélt ég á tveimur ME-62 hljóðnemum, hafði um hálfan metra á milli þeirra og lét þá mynda u.þ.b. 100°. Þannig fæst skemmtileg hljóðdreifing. Nagra Ares BB+ var með í för.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hundsmorðið - örleikur í einum þætti

Í janúar 2006 fór ég að senda Pétri Halldórssyni pistla í þáttinn Vítt og breitt. Voru sumir þeirra eins konar hljóðmyndir. Um þetta leyti var tíminn einatt lengi að liða. Ég leitaði án árangurs að atvinnu og hafði ofan af fyrir mér með ýmiss konar grúski.

Ég hafði þá fyrir nokkru fengið lánaðan Sony SM-57 víðómshljóðnema og datt í hug að sjóða saman dálítinn leikþátt. Hófst ég handa við að búa til grunninn, sem gerður var úr hljóðm sem ég hafði hljóðritað sjálfur auk hljóðrits frá danska ríkisútvarpinu.

Einn góðan veðurdag, þegar tíminn silaðist áfram, hrinti ég framkvæmdum af stað og lauk við þáttinn samdægurs eða daginn eftir. Hér gefur á að hlýða. Fordómar sögumanns ríða vart við einteyming.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lýðræði með raðvali og sjóðvali

Í öllum samfélögum koma öðru hverju upp álitamál sem fólk þarf að taka afstöðu til. Má þar nefna kjör í stjórnir, prófkjör á vegum stjórnmálaflokka, tillögur um skipulagsmál, afstöðu til hvers kyns áætlana o.s.frv.

Dr. Björn S Stefánsson starfar á Lýðræðissetrinu sem er innan vébanda Reykjavíkurakademíunnar. Hann setti fyrir nokkru fram í riti sínu Lýðræði með raðvali og sjóðvali athyglisverðar kenningar um tvær aðferðir sem hægt er a beita við lausn ýmissa álitamála.

Samtalið var hljóðritað í mars 2007 um svipað leyti og Hafnfirðingar gengu til kosninga um stækkun álversins í Straumsvík.Nánari upplýsingar má finna áheimasíðu Lýðræðissetursins

http://www.abcd.is


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband