Færsluflokkur: Trúmál

Aðventuljóð eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson - hinn sanni boðskapur jólanna

Á jólafundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar
9. desember síðastliðinn flutti Ragnar Ingi Aðalsteinsson kvæði sitt Aðventuljóð.
Þar minnist hann á ýmis gildi sem fólk ætti að hafa í heiðri um jólin og mættu menn taka boðskap hans til rækilegrar umhugsunar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gleðiboðskapur aðventunnar - predikun dr. Gunnlaugs A. Jónssonar, prófessors, á 4. sunnudegi í aðventu 18. desember 2016

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, predikaði í Seltjarnarneskirkju um gleðiboðskap aðventunnar. Í þessari predikun fléttaði hann saman ýmsa þræði sem greina inntak og eðli kristinnar trúar. Ræðan var flutt af miklum lærdómi og einlægni sem höfundi er í blóð borin.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áður en jarðarför hefst - Before the funeral

Um stundarfjórðungi áður en jarðarför hefst í Fossvogskirkju er klukkunni hringt á nokkurra sekúndna fresti. Andrúmsloftið ber þá vitni um söknuð og íhugun.

Þetta hljóðrit er frá útför tengdamóður minnar, Sólveigar Eggerz Pétursdóttur, 1. apríl 2016.

Hljóðritað var með Samsung S6 farsíma og Amazing Recorder forriti.Hljóðritið er 16 bitar og 44,1 kílórið.

Mælt er með góðum heyrnartólu.

Hlustið á fremur lágum styrk.

 

In English

 

The passina bell starts at Fossvogs Church in Reykjavik, Iceland, around 15 minutes before the funeral ceremony starts. The ambience is marked with reflection and regret.

This recording was made on April 1, 2016.

Recorded with a Samsung S6 and Amazing MP3 recorder.

The recording is in 16 bits, 44,1 kHz.

Godd headphones recomended with the volume set to low.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Barbörukvæði - The Poem of St. Barbara

Í haustferð Kvæðamannafélagsins Iðunnar 6. september var fyrst áð við kapellu heilagrar Barböru í Kapelluhrauni við Reykjanesbraut, en Barbara var dýrlingur ferðamanna. Þar var sungið úr Barbörukvæði, sem varðveittist á Austurlandi ásamt þjóðlagi í lydískri tóntegund. Bára Grímsdóttir söng fyrir og tóku ferðafélagar undir í viðlaginu. Undirleik annaðist fjöldi bifreiða.

Þau erindi sem sungin voru eru birt hér fyrir neðan.


In English

St. Barbara is the saind of travellers. In a small chapel, on the way to Keflavik airport, an old poet about Barbara was chanted by Bára Grímsdóttir, a known composer and specialist on Icelandic Folk music. Members of Kvæðamannafélagið Iðunn chanted with her in the refrain.

The poem and melody come from Eastern Iceland.


Barbörukvæði.

 

Dyspoteus hét drengurinn heiðinn

af djöflinum var hans maktar seiðinn

í huganum var hann harla reiðinn

hans var dóttir dýr að sjá

blessuð meyjan Barbará

 

Ólst þar upp hinn unga svanni

lof hún bar af hverjum manni

lausnara himna dyggð með sanni

lá hún jafnan bænum á. Blessuð .....

 

Hennar biðja höldar teitir

hæversk brúðurin þessum neitir

og þeim öllum afsvör veitir

engan þeirra vill hún sjá. Blessuð.....

 

Heiðin maður lét höllu smíða

hugði sjálfur í burt að ríða

fullgjörð innan fárra tíða

formanns hús hún vildi sjá. Blessuð.....

 

Glugga tvo á glæstum ranni

gjörði’ að líta’ hin unga svanni

mælti’ hún þá með miklum sanni

að minni skipan gjörið þér þrjá. Blessuð...

 

Smiðirnir játa því sæta beiðist

en svara þú fyrir ef faðir þinn reiðist

svo merkilega mál vor greiðist

muntu verða fram að stá. Blessuð.....

 

Allt var gjört að ungfrúr ráði

engin annað hugsa náði

heim á torg kom hilmir bráði

hallar smíðið lítur á. Blessuð.....

 

Garpurinn lítur glugga þrenna

gjörði heift í brjóst að renna

eftir spurði um atburð þennan

allt hið sanna greindu frá. Blessuð.....

 

Kölluð var þangað kæran fína

keisarinn talar við dóttur sína

formáð hefur þú fyrirsögn mína

fylltist upp með forsi og þrá. Blessuð.....

 

Auðgrund svarar og hlær á móti

hlýddu faðir með engu hóti

gef ég mig ekki að goðanna blóti

því guð hefur valdið himnum á. Blessuð.....

 

Hyggur hann þá með heiftar lundu

höggva víf á samri stundu

borgarmúrinn brast á grundu

brúðurin fékk í burt að gá. Blessuð.....

 

Himna guð sem hér skal greina

hóf hana upp í fjallshlíð eina

þar verandi vífið hreina

hirðar tveir að þetta sjá. Blessuð.....

 

Eftir spyr hinn armi herra

ekki lét sér skorta verra

grimmdar maður með giftina þverra

greindi hinn sem hana sá. Blessuð.....

 

Annar var sem ei vildi greina

þó hann vissi um vífið hreina

honum varð ekki margt til meina

mildin guðs er mikið að sjá. Blessuð.....

 

Ótrúr var sá til hennar sagði

Snarlega fékk hann hefnd að bragði

og svo strax í hugsótt lagðist

hjörð hans varð að flugum smá. Blessuð.....

 

Milding eftir meynni leitar

margfaldlega siðunum neitar

hans mun spyrjast heiftin heita

í helli einum hún lét sér ná. Blessuð.....

 

Vendir hann heim með vífið bjarta

sárlega bjó honum grimmd í hjarta

hann bauð henni til heims að skarta

en hverfa Jesú siðunum frá. Blessuð.....

 

Hún kvaðst ekki þjóna fjanda

þó hún kæmist í nokkurn vanda

eilífur mun þeim eldurinn granda

öllum er goðin trúa á. Blessuð.....

 

Brjóstin skar hann af blíðum svanna

bragna var þar enginn manna

helst mun þetta hróðurinn sanna

sem haldið gátu vatni þá. Blessuð.....

 

Hún kvaðst ekki heldur blóta

þó hún yrði pínu að hljóta

hún kvað sér það helst til bóta

að sviptast skyldi heiminum frá. Blessuð.....

 

Hilmir biður að höggva mengi

halurinn vafin glæpa gengi

vildi til þess verða enginn

varð hann sjálfur fram að gá . Blessuð.....

 

Heggur hann þá með hjaltaskóði

höfuðið burt af sínu jóði

sætu léttir sorg og móði

sálin fór til himna há. Blessuð.....

 

Dárinn varð fyrir drottins reiði

dró þá myrkur yfir sól í heiði

eldurinn grandaði örfa meiðir

enginn mátti fyrir ösku sjá. Blessuð.....

 

Eilífur guð og englar blíðir

annast fljóð sem engu kvíðir

seggir hver henni signa tíðir

sál þeirra láttu friðnum ná

heilög meyjan Barbará



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjögurra ára snót syngur um eldinn

´Gréta Petrína Zimsen

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 11. janúar síðastliðinn flutti Gréta Petrína, dóttir þeirra Rósu Jóhannesdóttur og Helga Zimsen, lag Tryggva M. Baldvinssonar við ljóð Sveinbjarnar Baldvinssonar úr Þúsaldarljóðum. Hlutar kvæðisins eru Jörð, Vatn, Loft og Eldur. Gréta Petrína, sem er aðeins fjögurra ára, flutti síðasta hluta kvæðisins á myndrænan hátt. Söngur hennar og framkoma heilluðu alla sem á hlýddu.

Ljóðið í heild er á slóðinni

http://www.solborg.is/index.php?option=com_content&view=article&id=450:tusaldarljoe&catid=90:soengbok

ELDUR

Eldurinn logar

langt niðri í jörðu

leitar að opinni slóð.

Æðir um ganga,

grefur sér leiðir,

glóandi, ólgandi blóð.

Spýtist úr gígum

með geigvænu öskri,

grásvörtum bólstrum af reyk.

Leiftrandi steinar,

logandi hraunið,

lifandi kraftur að leik.

En handan við sortann,

háskann og mökkinn,

sem heldimmur leggst yfir ból,

dansar á himni,

dátt yfir landi,

dirfskunnar leiftrandi sól.

Vísurnar voru fluttar árið tvöþúsund af tvöþúsund börnum á Arnarhóli. Frétt um þann viðburð má lesa á mbl.is á eftirfarandi slóð:

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/538168/

Hljóðritað var með Nagra Ares BB- og tveimur Røde NT2-A í MS-uppsetningu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvennamessan í prýðilegu veðri

Fjölmenni naut ágætrar guðsþjónustu á vegum kvenna á kvenréttindadaginn. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir stýrði athöfninni ásamt hópi systra sinna úr guðfræðingastétt. Jafnan hef ég hrifist af einurð og skeleggri framsetningu Auðar. Hún er einn af einlægustu prestum landsins og flytur boðskap sinn svo að eftir verður tekið. Ekki urðu áheyrendur varir við mikla rigningu, en nokkrir dropar féllu öðru hverju.

 

Séra Agnes M. Sigurðardóttir, nýkjörinn biskup, flutti prédikun. fylgir hún þessari færslu sem hljóðrit.

 

 


mbl.is Kvennamessa við Þvottalaugarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smári Ólason flytur gamlan jólasálm og fjallar um uppruna orðsins hátíð

Smári Ólason er manna fróðastur um sálmasöng hér á landi og ýmislegt sem snertir helgisiði.

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, 8. desember 2006 fræddi hann fundargesti um uppruna orðanna hátíð og tíð. Þá söng hann gamlan sálm sem fluttur var að kvöldi aðfangadags jóla.

Þessu efni var útvarpað í þættinum Vítt og breitt 21. desember 2006. Smári veitti góðfúslega leyfi sitt til birtingar efnisins á Hljóðblogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Um stofnun Kínversk-íslenska menningarfélagsins

Haustið 1993 var haldin hátíðarsamkoma til að minnast 40 ára afmælis Kínvnersk-íslenska menningarfélagsins, sem stofnað var 20. október árið 1993. Þar flutti dr. Jakob Benediktsson, fyrsti formaður þess og þáverandi varaformaður, erindi um aðdragandann að stofnun félagsins og fyrstu ár þess.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krafan um arðsemi landsins

Séra Skírnir Garðarsson

Séra Skírnir Garðarsson flutti athyglisverða prédíkun í Lágafellskirkju í gær, 15. maí. Þar gerði hann að umræðu umgengnina við landið, þar sem maðurinn skilur einatt eftir sig auðn á einum stað um leið og náttúrugæðum er veitt annað.

Prédíkunin er birt hér óstytt með leyfi séra Skírnis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fimmtugasti passíusálmur kveðinn - heimsfrumflutningur

Á föstudaginn langa, 22. apríl 2011, fluttu 10 leikmenn 30 Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Selfosskirkju. Þá kvað sigurður sigurðarson, dýralæknir, 6 sálma við fornar, íslenskar stemmur og er það í fyrsta sinn sem það er gert, svo að vitað sé.

Í viðtali við ritstjóra síðunnar greinir Sigurður frá ýmsu sem tengist flutningnum. Síðan er fluttur 50. sálmur.

Viðtalið var hljóðritað með Olympus LS-11 en sálmurinn með Nagra Ares BB+ og shure VP88. Upprunalegu hljóðritin eru á 24 bitum.

Hjálparhella mín var sem endra nær eiginkona mín, Elín Árnadóttir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband