Færsluflokkur: Umhverfishljóð

Hestagerði eða hestaskjól

Hestaskjól í Reykhólasveit

Fyrir nokkru ræddi ég við merkisklerk á Norðurlandi, mikinn dýravin. Sagðist hann þá skömmu áður hafa farið sunnan úr landi norður yfir Holtavörðuheiði og þvælst síðan yfir nær ófærar heiðar allt til þess að hann náði háttum á prestsetri sínu. Í Húnavatnssýslum, sem hann lýsti sem miklum órofasléttum, sá hann fjölda hrossa sem reyndu að hama sig en gátu hvergi leitað skjóls fyrir ofviðrinu. Blöskraði honum mjög sinnuleysi eigandanna sem ekki hefðu erft alúð Ásmundar, bónda á Bjargi, föður Grettis hins sterka. Sagðist klerkur ætla að rita um þetta grein þegar sér rynni reiðin. Var honum þá bent á gamla latneska orðtækið, "Ira furor brevis est" (Reiðin er eitt stutt æði).

 

Þessi reiðilestur klerksins minnti mig á að við Elín sáum mannvirki nokkur á leið okkar um Reykhólasveit 25. júní árið 2009. Voru þau gerð úr bárujárni og augsýnilega hestagerði eða skjól. Reyndar fór það vart á mili mála því að nóg var af hrossataði við gerðið sem við skoðuðum og fjöldi flugna.

 

Hljóðumhverfið var sérstakt. Innlögnin var hvöss og það hvein í bárujárninu. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort suðið sem heyrist í hljóðritinu, stafaði frá gróðrinum eða hvort um bilun í leiðslu var að ræða.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunn á svölunum í mars

 

 

Á kyrrum vetrarmorgni í úthverfi stórborgar gera sé fáir grein fyrir þeim fjölda hljóða sem berst að eyrum fólks og rýfur kyrrðina. Þetta gerist jafnvel þótt úthverfið sé sjálfstætt sveitarfélag.

Í morgun var ttalsverður atgangur hrafna. Greip ég lítinn hljóðrita, skellti á hann vindhlíf og setti út á svalir. Eftir það flugu einungis tveir hrafnar framhjá og krunkuðu. Ýmislegt annað barst að eyrum.

Látið ykkur dreyma með góð heyrnartól á höfðinu. Lygnið aftur augunum og ímyndið ykkur hhvað þi sjáið og hvernig veðrið var.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ókeypis flugeldaskothríð

Um síðustu áramót hljóðritaði ég rúmlega 8 klst af áramótahljóðum. Tveimur Sennheiser ME62 var komið fyrir á ónefndum svölum. Hófst hljóðritun kl. 17:25 árið 2009 og lauk kl. 02:08 árið 2010.

Ýmsir hafa gaman af áramótahljóðum en geta ekki skotið upp flugeldum. Fylgir því þessari færslu um stundarfjórðungur mikillar skothríðar sem nýtur sín best í heyrnartólum eða góðum hátölurum. Þar sem mikið myndefni er til af ljósaganginum hefur ritstjóri ekki áhyggjur af því að menn verði sér ekki úti um þann hluta sýningarinnar. Hlustendur eru áminntir um að gæta þess að verða hvorki fyrir heyrnarskaða né eyðileggja hljómtækin.

Njótið vel. Einnig eru þakkaðar þær undirtektir sem hljóðbloggið heffur fengið. Haldið verður áfram á sömu braut og eftir áramótin verða birt viðtöl og frásagnir sem ekki hafa birst áður. Fleira er í bígerð og eru tillögur frá hlustendum einnig vel þegnar.

Ritstjóri óskar hlustendum árs og friðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjölbreytni brimsins

Fjölmargir hafa spreytt sig á að ljósmynda síbreytilegt brimið. Það er engu fábreytilegra viðfangsefni að hljóðrita hinar margvíslegu hljóðmyndir þess.

Umhverfis golfvöllinn á Seltjarnarnesi liggur stígur. Í dag milli kl. 16 og 17 fóru fáir um hann. Brimgnýrinn var talsverður. Lágsjávað var og því hljóðin ögn fjarlægari en á flóði, en áhrifin engu síðri og það var líkast því sem við værum víðsfjærri vélaskarkala höfuðborgarinnar, umvafin dulúð rökkursinns sem smám saman varð myrkur. En lengi sást bjarma fyrir roða í vestri.

Skammt sunnan við gamla varðskýlið er dálítið útskot. Þar námum við Elín staðar. Í fyrstu tilraun skar ég ekkert af lágtíðninni en óttaðist að vindurinn truflaði hljóðritið og því skar ég af 100 riðum í seinni hljóðritunum.

Fyrstu tvö hljóðritin eru gerð þannig að ég horfði nær til suðurs og var með Sennheiser ME62 í u.þ.b. 90° uppsetningu. Hljóðrit 2 er gert á sama stað en skorið neðan af 100 riðunum.

Hljóðrit 3 er gert nokkrum metrum norðar og horfði ég þá til vesturs. Ótrúlegt er hvað hljóðið er gjörólíkt.

Að lokum var staðnæmst við Daltjörnina. Þá var sjávarniðurinn orðinn lágur, en þó greindust nokkrar bárur sem skáru sig úr gnýnum.

Þessi hljóðrit njóta sín best í góðum hátölurum eða heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vindur blæs um vetrarnátt

Um niðnættið herti vindinn talsvert á Seltjarnarnesi. Kl. 12 á miðnætti mældust 12 sekúndumetrar á mæli Veðurstofunnar í Öskjuhlíðarhálendinu eins og Jón Múli kallaði það, en ég er viss um að í hvössustu hviðunum var mun hvassara.

Á tjarnarbóli 14 eru stálkantar til þess að hlífa þak-kantinum, en hann var farinn að skemmast fyrir um tveimur áratugum. Í stálinu heyrist dálítið í hvassviðri og loftnet, sem er á suðvesturhorni hússins, tekur undir. Úr þessu verður hinn fróðlegasta hljómkviða eins og hlustendur geta heyrt. Þeir sem hafa góða heyrn greina einnig tifið í vekjaraklukku.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andardráttur fjöleignarhúss í óveðri

Þann 17. desember 2010 gekk hvassviðri yfir landið. Þegar ég átti leið um Tjarnarból 14 bárust mér ýmis hljóð sem urðu til þegar vindurinn réðst á húsið. Það hvein í hverri gátt og loftræstingin lét í sér heyra. Hurðir glömruðu í falsinum o.s.frv. Vegna eðlislægrar feimni og þess að málarar voru að störfum, frestaði ég hljóðritun þar til kvöldaði, en þá fór ég á kreik.

Áður en þið farið að hlusta skuluð þið slökkva öll ljós eða loka augunum. Hljóðritað var í myrkri. Ljósglæta barst að utan frá götuljósunum.

Við hefjumst handa á ganginum á 3. hæð, stöldrum svo við á jarðhæðinni og ljúkum síðan ferðinni þar sem hún hófst.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og tveimur Sennhyeiser ME62 hljóðnemum

Hljóðritið nýtur sín best í góðum hátölurum eða heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reiðhjól og flutningabíll fara yfir brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi

Í ágústbyrjun 1998 vorum við Elín á leið austur á Stöðvarfjörð. Áðum við hjá lóninu á Breiðamerkursandi og nutum veðurblíunnar. fórum við undir eystri sporð brúarinnar og hófumst handa við hljóðritun. Ég var með Sony minidisk-tæki og Sennheiser MD21U hljóðnema. Skömmu eftir að við hófumst handa fór reiðhjól vestur yfir brúna og rétt á eftir stór og þung vörubifreið. Hvílíkur munur! Brúin eins og skall niður og stundi lengi á eftir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavíkurhlaupið 1998

Árið 1997 fylgdumst við Elín með hlaupurum skeiða framhjá Tjarnarbóli 14 í aðdraganda menningarnætur. Þegar ég hófst handa við þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið árið 1998 eftir nokkurt hlé ákvað ég að hljóðrita hlaupið. Ég hljóðritaði ýmislegt fleira þá um sumarið sem mér þótti tilvalið að útvarpa.

 

Notaður var lítill Audiotechnica víðómshljóðnemi. Ég stóð hjá hljóðnemanum og heilsuðu mér því ýmsir eins og heyra má. Þar má meðal annara heyra í Boga Ágústssyni og Eygló Eiðsdóttur sem vann þá á Blindrabókasafni Íslands.

Ef grannt er hlustað heyrist íþróttagarpurinn Jón Sigurðsson frá Úthlíð fara framhjá á hjólastóli.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavíkurhlaupið 2010

Andrúmsloftið í Reykjavíkurhlaupinu er þrungið gleði og baráttuanda.

Tengdadóttir okkar Elínar, Elfa Hrönn Friðriksdóttir, tók þátt í 10 km Reykjavíkurhlaupi í ár. Horfðu synir hennar o eiginmaður ásamt fleira fólki á hana streyma framhjá Tjarnarbóli 14. Elín kvikmyndaði aturðinn og ég hljóðreit. Ég hef hljóðritið Reykjavíkurhlaup áður, gerði það árið 1998 og útvarpaði. Verður það hljóðrit birt hér á vefum innan skamms ásamt ýmsu öðru.

Í gær voru aðstæður til hljóðritunar ekki alls kostar góðar. Allhvass norðaustan-vindur var á. Ég hugðist byrja fyrr, en um morguninn, skömmu áður en Maraþon-hlaupararnir voru ræstir, var mun hvassara og þótti mér ekki fýsilegt að reyna hljóðritun.

Notaðir voru 2 Sennheiser ME-62 hljóðnemar sem vísuðu í 90° til austurs. Nauðsynlegt reyndist að skera af 100 riðum og síðar af 80 riðum til þess að fjarlægjasem mest af vindgnauðinu. Mér virðist þó sem hljóðið sé tiltölulega eðlilegt. Að ásettu ráði er meðalstyrkur hljóðritsins látinn ráða.

Hljóðritu hófst um kl. 09:45 laugardagsmorguninn 21. ágúst 2010. Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðheimur æskunnar - Herjólfsdalur

Ágústsíðdegi í Herjólfsdal (ljósmynd).

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.

Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband