Færsluflokkur: Viðtöl

Breiðdalssetur - vaxandi menningar- og vísindastofnun

Erla Dóra Vogler er verkefnastjóri á Breiðdalssetri.

Á Breiðdalsvík er starfrækt Breiðdalssetur. Setrið er til húsa í Gamla kaupfélaginu, en það var byggt árið 1906. Húsið hefur nýlega verið endurnýjað og gert aðgengilegt. Þar er m.a. lyfta á milli hæða svo að flestir sem fara þar um eiga að geta notið þeirra sýninga sem eru í setrinu.

 

Á setrinu eru um þessar mundir sýningar um tvo merka vísindamenn, sem hvor um sig markaði djúp spor í vísindasögu Austfjarða. Á jarðhæð er sýning um Dr. George Walker, breskan jarðfræðing, sem rannsakaði m.a. berglög á Austurlandi og skrifaði um þau merkar vísindagreinar.

 

Á efri hæð hússins er sýning um Dr. Stefán Einarsson frá Höskuldsstöðum í Breiðdal, prófessor, en hann var einn af fremstu málvísindamönnum Íslendinga á síðustu öld. Hann vann mestan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum, en hafði óbilandi áhuga á varðveislu þjóðlegra fræða og varð fyrstur íslenskra fræðimanna til þess að hljóðrita á segulbönd þjóðlegan fróðleik, svo sem frásagnir, vísur og kvæðalög, sem tengdust Breiðdalnum. Þá var hann einn af hvatamönnum útgáfu safnritsins Breiðdælu, sem enn kemur út. Á hluta þessa merka hljóðritasafns má hlusta í Breiðdalssetri ásamt ýmsu öðru sem tengist ævi Stefáns og störfum, s.s. bréfaskriftum þeirra Halldórs Laxness.

 

 

Erla Vogler, verkefnastjóri Breiðdalsseturs, sagði mér frá starfi þess, er ég átti þar leið um ásamt Hrafni Baldurssyni. Þess má geta að á fimmtudagskvöldum er gengið um þorpið á Breiðdalsvík og saga þorpsins rakin.

 

Á heimasíðu setursins eru einnig fleiri upplýsingar, en stöðugt bætist nýtt efni á síðuna.

http://breiddalssetur.is/


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ljósmyndað með 130 ára gamalli vél

Hörður Geirsson tekur ljósmyndir með vél frá árinu 1880, en linsan er frá 1864.

Hörður Geirsson, ljósmyndari og starfsmaður Minjasafnsins á Akureyri, hefur á undanförnum árum tileinkað sér þær aðferðir sem notaðar voru í árdaga ljósmyndunar. Hann ferðast nú um landið og tekur myndir af stöðum sem myndaðir voru eftir 1860. Meðferðis hefur hann bandaríska ljósmyndavél sem smíðuð var árið 1880. Linsan er frá árinu 1864. Hörður er nú að láta smíða svipaða vél og verður hún tilbúin eftir nokkra mánuði.

Myndirnar eru geymdar á glerpötum og við framköllun þeirra þarf ýmiss konar efni sem löngu er hætt að nota við ljósmyndaframköllun. Hörður varð á vegi okkar Elínar við bæinn Teigarhorn í Berufirði í dag, 13. júlí 2011. Í næðingnum tók ég hann tali.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Sennheiser ME62 hljóðnema. Skorið var af 100 riðum vegna vindsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af fuglum og sauðfé á Skjaldfönn í Skjaldfannardal

Indriði Aðalsteinsson, bóndi og refaskytta á Skjaldfönn í Skjaldfannardal, heimsótti okkur hjón í gærkvöld ásamt eiginkonu sinni, Kristbjörgu Lóu Árnadóttur og fleiri gestum. Eftir rösklega spilamennsku innti ég Indriða eftir tíðarfarinu að undanförnu og áhrifum þess á kvikfé og fugla.

Við sátum úti á svölum. Klukkan var nærri miðnætti. Notaður var Nagra Ares BB+ og Sennheiser MD-21U hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Shanghai Steps - Shanghaispor

 

Ágúst Shi Jin, sem gengur undir nafninu Ágúst Hallgrímsson, fæddist nærri borginni shanghai árið 1982. Hann hefur búið á Íslandi í nokkur ár og náð ótrúlega góðu valdi á íslenskri tungu. Í fyrra haust var hann kjörinn í stjórn Kínversk-íslenska menningarfélagsins.

Um daginn barst okkur slóð á myndband sem hann hafði sett á youtube.com

http://www.youtube.com/watch?v=44oCshVbfFw

Í kjölfar þess mæltum við okkur mót. Sagði hann mér þá dálítið af högum sínum.

Ágúst hefur fengist við að semja tónlist og notar m.a. tölvuútgáfu hefðbundinna kínverskra hljóðfæra, eins og heyra má í laginu sem leikið er á myndbandinu og fylgir einnig viðtalinu. Slóðin á heimasíðu framleiðanda hljóðfæranna er

http://www.kongaudio.com/

Ágúst er á Facebook:

http://www.facebook.com/agust.hallgrimsson

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áhrifamikið viðtal

 

Valdar greinar úr dagblöðum og tímaritum, hljóðtímarit Blindrafélagsins, hafa komið út frá árinu 1976. Upphafsmenn þeirra voru Gísli Helgason og Sveinn Ásgeirsson, hagfræðingur. Um þessar mundir er Gísli ritstjóri hljóðtímaritsins.

Í síðasta tölublaði birtist athyglisvert viðtal við Ásrúnu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðing. Hún er með svokallaðan RP-augnsjúkdóm og missti nær alveg sjón um fertugt. Ásrún gekk til liðs við Blindrafélagið árið 1971, þá 27 ára gömul og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir það. Í viðtalinu segir hún sögu sína. Hér fyrir neðan er krækja í viðtalið

http://www.blind.is/valdar_greinar/nr/1238


Refurinn og sambúð hans við manninn

Í vetur greindi Morgunblaðið frá því að sést hefði til refs innan borgarmarka Reykjavíkur. Í sömu grein var einnig greint frá því að æ oftar sæist nú til refa á höfuðborgarsvæðinu.

Vorið 2007 útvarpaði ég þremur pistlum um refinn í þættinum Vítt og breitt.

Í fyrsta þættinum fjallaði Indriði Aðalsteinsson, fjárbóndi á Skjaldfönn í Skjaldfannardal um afleiðingar stofnunar friðlandsins á Ströndum.

Viku síðar greindi Páll Hersteinsson, prófessor, frá rannsóknum sínum á íslenska refnum og gat um sitthvað sem snertir lífsafkomu refsins.

Þriðji pistillinn fjallaði um tilraunir manna til þess að útrýma refnum, þar á meðal með eftirhermum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Birgir Þór 6 ára

Birgir Þór 6 ára

Þriðjudaginn 15. febrúar verður Birgir Þór Árnason 6 ára. Þótt aldurinn sé ekki hár verða ýmis tímamót þegar menn komast á 7. ár. Þeir byrja í skóla, verða grunnskólanemar í stað leikskólanema, mi ssa tennur og sitthvað fleira, sem markar spor í vitund þeirra.

Á þessum tímamótum þótti rétt að taka kappann tali og forvitnast um framtíðaráætlanir hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Atburðirnir í Ísafjarðardjúpi 4. febrúar 1968

Veturinn 1968 var fádæma illviðrasamur og urðu miklir mannskaðar á sjó hér við land.

Fárviðri gekk yfir Vestfirði fyrstu dagana í febrúar og var verst á Ísafjarðardjúpi. Heiðrún II frá Bolungarvík fórst með sex mönnum. Varðskipið Óðinn bjargaði átján manna áhöfn breska togarans Notts County sem strandaði við Snæfjallaströnd. Annar breskur togari, Ross Cleveland, sökk og fórust nítján manns en einn, Harry Eddom, fannst á lífi eftir hrakninga í hálfan annan sólarhring.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvænt hetjusaga

Í gær brá ég mér út á Eiðistorg að sinna ýmsum erindum. Þegar ég kom út úr apótekinu tók ég eftir því að farið var að rigna. Dró ég þá upp Olympus LS-11 hljóðrita og brá honum á loft. Ég var ekki með nein heyrnartól en vissi nokkurn veginn hversu mikinn styrk væri óhætt að setja inn á tækið.

Í miðri hljóðritun heilsaði mér Eiríkur Einarsson, þýðandi, en hann býr einnig á Seltjarnarnesi. við höfðum ekki hist áður og tókum tal saman um hagi okkar. Ekki hafði ég slökkt á hljóðrituninni og kom því samtalið allt inn á tækið. Með leyfi Eiríks er það nú birt hér á blogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hringhendu hjónin á Akranesi

Hringhendu hjónin á Akranesi á Bragaþingi 2010.

Lýsingarorðið "hringhendur" er notað innan Kvæðamannafélagsins Iðunnar um þann sem létt er um að yrkja hringhendur. Heiðurshjónin og snilldarhagyrðingarnir, Anna Heiðrún Jónsdóttir og Sigmundur Benediktsson, fylla þann flokk með sæmd.

Ég útvarpaði viðtölum við þau í janúar 2008 og fylgja þau bæði með þessari færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband