Rigning í Beijing og á Ísafirði

Vatnið er ótrúleg uppspretta alls kyns hljóða.

Þann 9 ágúst 1986 átti ég mjög athyglisvert viðtal við tvær ungar stúlkur austur í Bejing. Vinurminn og félagi, Emil Bóasson, lagði einnig til spurningar enda vorum við saman við að afla okkur efnis í 8 þætti fyrir Ríkisútvarpið. Eftir að viðtalinu lauk urðu nokkuð ákafar umræður á milli okkar Emils og stúlknanna og hlaust af nokkur hávaði. Við bjuggum þá á gistiheimili Vináttusamtakanna í Beijing sem er í gömlu og rótgrónu hverfi sem nefnist Jiaodakou eða Vegamót. Kom húsvörður til þess að vita hvað gengi á. Honum var sagt að einungis stæðu yfir rökræður og hvarf hann á braut. Stúlkurnar hurfu líka á brott skömmu síðar.

Þegar þær voru nýfarnar skall fyrirvaralítið á ógurlegt úrhelli með þrumum og eldingum. Við Emil ræddum að þetta væri eins og í byltingaróperu, en þegar leikar stæðu þar hæst skylli einatt á þrumuveður, samanber 1. þátt Rauðu kvennaherdeildarinnar. Ég stóðst ekki mátið þrátt fyrir áhyggjur af stúlkunum, opnaði dyrnar og hljóðritaði ósköpin. Einungis þéttriðið flugnanet var á milli mín og rigningarinnar.

Hinn 29. júlí árið 2009 vorum við Elín á Ísafirði. Um 5-leytið síðdegis fór hún að kaupa í matinn en ég beið í bílnum. Þungbúið hafði verið um daginn en þegar Elín fór í innkaupaleiðangurinn gerði hellidembu. Ég stóðst ekki mátið og hljóðritaði það sem fyrir eyru bar.

Heilmikill munur er á þessum rigningum. Fyrra hljóðritið er gert með Sony TCD5. Notuð var Sony metal-snælda. Hljóðneminn var Sennheiser MD21U.

Tuttug og fjórum árum síðar notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema. Rigningin á Ísafirði var ekki eins þétt og í Beijing og hvorki fylgdu þrumur né eldingar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 12. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband