Morgunstund við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi

Veðurspáin var góð í gærkvöld og því ákvað ég að vakna snemma í morgun.

Ég pantaði mér leigubíl út að Bakkatjörn um kl. 05:40 og var komin þangað upp úr kl. 6. Ég setti upp hljóðnema á lágum standi og voru þeir u.þ.b. 40 cm frá jörðu. Kyrrð var á og, dúnalogn og breyskjuhiti. Sólin skein í heiði og allt lék í lyndi.

Ég hófst handa nokkuð norðan við svanslaupinn en færði mig svo um set því að mig langaði að komast nær spjalli þeirra. Þá þögnuðu þeir.

Í þessum hljóðritum ber mest á kríunni. Einnig koma við sögu nokkrar andartegundir, lóa, þúfutittlingur, mávar , flugur o.s.frv. Ef grannt er hlustað heyrist í seinna hljóðritinu ördauft í hávellu en hún greinist betur í fyrra hljóðritinu. Sennilega hefur vinstri framlengingarleiðslan bilað hjá mér og því er dálítið suð á vinstri rás þegar líður á hljóðritið.

Ekkert er skorið af hátíðninni í þessu hljóðriti en ráðist að 80 riðum til þess að draga úr ofurþungum undirtóni.

Þegar ég ákvað að halda heim á leið vandaðist málið. Símastúlkan á Hreyfli sagði að gatan Bakkatjörn væri ekki á skrá hjá sér og ekki dugði að biðja hana að segja bílstjóranum að halda áleiðis út á golfvöll Seltjarnarness. Málið leystist farsællega þegar konan spurði mig við hvaða götu Bakkatjörn væri. Ætli ég sé orðinn svo mikill Seltirningur að ég haldi að nesið sé nafli alheimsins? Hvar er hann þá ef ekki á Seltjarnarnesi?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband