Hljóðheimur æskunnar - Kaplagjóta

Kaplagjóta á Heimaey (ljósmynd)

Föstudaginn 13. ágúst 2010 fórum við Elín ásamt Hring Árnasyni til Vestmannaeyja. Notaði ég þá tækifærið og hljóðritaði. Elín var sem fyrr hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.

Hljóðritin eru tvö sem fylgja þessari færslu. Hið fyrra er tekið skammt utan við göngustíginn meðfram Kaplagjótu. Vakin er sérstök athygli á djúpum tónum sem heyrast þegar öldurnar skella á klettunum.

Seinna hljóðritið er tekið litlu sunnar. Þar ber meira á hljóðinu sem myndast þegar vatn seytlar niður bergið, en úrhellingsrigning hafði verið fyrr um daginn.

Notaðir voru 2 Sennheiser ME62 hljóðnemar sem stillt var upp í 90° horn. Enginn afskurður er á hljóðritinu sem var gert í 24 bita upplausn. Fólki er eindregið ráðlagt að hlusta annaðhvort í góðum hátölurum eða heyrnartólum. Þannig njóta litbrigði hljóðsins sín best.

Á Heimaslóð segir svo um Kaplagjótu:

Kaplagjóta er löng gjóta sunnan við

Dalfjall sem gengur til austurs, samhliða Herjólfsdal. Gjótan dregur nafn

sitt af því að hestum var varpað þar niður til þess að farga þeim, þar sem ekki mátti eta hrossakjöt lengi á Íslandi. Dæmt um það á

Vilborgarstaðaþingi árið 1528 að ekki skyldu vera fleiri en 16 hross í

Heimaey, og viðtekin var sú venja að konungsumboðsmaður mætti láta drepa, slá eign sinni á, eða ráðstafa með öðrum hætti þeim hrossum sem fundust fram yfir regluna, en eigendur höfðu þó 14 daga til þess að koma aukateknum hrossum sínum annars staðar fyrir. Óskilafærleikum var þá gjarnan hrint ofan í sjóinn, þeim sem fundust fram yfir regluna, eða voru orðnir of gamlir til þess að koma að gagni.

Annar staður á Heimaey var notaður til sama brúks að talið er, en það voru

Kaplapyttir í Stórhöfða.

Tíkartóa-draugurinn

Í suðaustanverðu Dalfjalli, ofan við Kaplagjótu, eru grösugar hillur, sem nefndar hafa verið

Tíkartær . Um langt skeið hafðist þar við afturganga sem menn urðu oft varir við. Tildrög að afturgöngu þessari voru þau, að

einhverju sinni hafði burðalítill piltur verið sendur út á Fjall til lundaveiða. Fór hann nauðugur í þessa ferð en hart hafði verið að honum gengið. Hrapaði hann í Tíkartónum og gekk síðan aftur. Sást hann oft vera aðsteypa sér kollhnís fram af Tíkartónum ofan í Kaplagjótu en aldrei gerði hann neinum manni mein, að því er kunnugt sé.

Nánar má forvitnast um örnefni í Vestmannaeyjum á síðunni

http://www.heimaslod.is


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband