"Viltu ekki spila fyrir þá nýja þjóðhátíðarlagið?"

Í dag er þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu Oddgeirs Kristjánssonar, þess manns sem einn getur kallast þjóðartónskád Vestmannaeyinga.

Oddgeir setti sterkan svip á bæjarlífið í Vestmannaeyjum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja í tæpa þrjá áratugi, lék í hljómsveitum, samdi þjóðhátíðarlög áratugum saman, kenndi söng í Barnaskóla Vestmanneyja, þjálfaði hljóðfæraleikara og var hvarvetna hrókur alls fagnaðar þar sem hann átti leið um. Oddgeir var, auk þess að vera tónskáld, orðhagur maður og setti einatt saman kviðlinga sem flugu víða.

Oddgeir Kristjánsson hafði áhrif á alla sem kynntust honum og þegar hann lést, 18. febrúar árið 1966, varð almenn sorg í Vestmannaeyjum. Allir vissu að skaparinn hafði hrifið til sín einn af eyjanna bestu sonum.

Í morgun rifjaðist upp fyrir mér dálítið atvik frá sumrinu 1962. Ég sótti þá píanótíma hjá Hrefnu, dóttur Oddgeirs. Einhvern tíma miðsumars, þegar við tvíburarnir vorum stadir hjá Hrefnu, kom Oddgeir inn í stofuna og spurði hvort hún vildi ekki spila fyrir okkur nýja þjóðhátíðarlagið. Það hét þá ekkert annað, því að textinn var ekki tilbúinn, en hlaut svo nafnið "Ég veit þú kemur".

Í minningu minni hafði Hrefna stutt forspil að laginu. Okkur ber ekki saman um upphafið, en í huga mínum mótaðist minningin með þeim hætti sem meðfylgjandi hljóðrit ber með sér.

Lag þetta varð síðan eitt af fyrstu lögunum sem Gísli Helgason, blokkflautuskáld úr Vestmannaeyjum, lærði og olli tímamótum í lífi hans.

Í kvöld verður efnt til tónleika í eldborgarsal Hörpu, þar sem flutt verða lög Oddgeirs Kristjánssonar. Er það tilhlökkunarefni hverjum þeim, sem ann tónlist þessa merka manns og tónlistarfrömuðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband