Sýnir Sólveigar Eggerz á Bessastöðum

Sólveig Eggerz, listmálari, er næm kona og hefur orðið vör við ýmislegt sem fæstir skynja, enda er skyggnigáfa ekki óþekkt í ættum hennar.

Haustið 1998 sagði hún mér frá sýnum sem henni birtust þegar hún vann við að mála vatnslitamyndir á Bessastöðum í boði Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta. Myndir sólveigar voru gefnar út á póstkortum sem nú eru orðin næsta fágæt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvænt hetjusaga

Í gær brá ég mér út á Eiðistorg að sinna ýmsum erindum. Þegar ég kom út úr apótekinu tók ég eftir því að farið var að rigna. Dró ég þá upp Olympus LS-11 hljóðrita og brá honum á loft. Ég var ekki með nein heyrnartól en vissi nokkurn veginn hversu mikinn styrk væri óhætt að setja inn á tækið.

Í miðri hljóðritun heilsaði mér Eiríkur Einarsson, þýðandi, en hann býr einnig á Seltjarnarnesi. við höfðum ekki hist áður og tókum tal saman um hagi okkar. Ekki hafði ég slökkt á hljóðrituninni og kom því samtalið allt inn á tækið. Með leyfi Eiríks er það nú birt hér á blogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gestapistill frá Kanaríeyjum

Að þessu sinni er Gísli Helgason gestahljóðritari Hljóðbloggsins, en þau Herdís Hallvarðsdóttir nutu veðurblíðunnar á Kanaríeyjum fyrir skömmu.

Gísli hafði með sér lítið Olympus-tæki og setti saman þennan pistil eftir að heim kom. Hér er glöggt dæmi um hvað hægt er að gera með einföldum tækjum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á heimleið 19. janúar 2011

Viðskiptablaðið er flutt í Nóatún 17 og ég hef haldið áfram að selja áskriftir sem verktaki ásamt ýmsu öðru. Fast starf með þeim réttindum og skyldum se því fylgir, fer að verða fjarlæg minning.

Mig vantaði minnistæki um daginn og ákvað eftir nokkra íhuugun að kaupa Olympus. Leist mér þar einna best á LS11. Ég áttaði mig fljótlega á því að tækið er búið ýmsum kostum og getur framleitt hágæða hljóðrit, jafnvel þótt eingöngu séu notaðir innbyggðir hljóðnemar.

Olympus LS11 er um margt sambærilegt Nagra Ares-M að öðru leyti en því að hægt er að hljóðrita á 96 kílóriðum, en Nagra Ares-M fer hæst í 48 kílórið. Þá er ég ekki frá því að hljóðgæði hljóðnemanna sem hægt er að festa á Nagra séu heldur meiri en Olympus-hljóðnemanna.

En hvað um það. Olympus-tækið gefur ástríðufólki tækifæri til að hljóðrita það sem fyrir augu og eyru ber. Þótt ágætir svampar séu yfir hljóðnemunum truflar vindurinn hljóðritanirnar og verður því einatt að nota afskurð sem hægt er að stilla á tækinu.

Hljóðnynd dagsins er þríþætt.

Fyrst er beðið við biðskýlið skammt austan við mót Laugavegar og Hátúns. Þá er dokað við vestan við miðstöðina á Hlemmi, en þar var fremur dauft yfir mannlífinu um kl. 16:30. Þó er greinilegt að Reykjavík er orðin að fjöltungnaborg.

Ég vek sérstaka athygli á hljóðritinu u.þ.b. þegar 7 mínútur eru liðnar. Þá kemur strætisvagn inn á stæðið vestan við hlemm og menn geta heyrt þegar fólk hraðar sér í báðar áttir. Lokið augunum og sjáið þetta fyrir ykkur. Jafnvel ég sé skuggana af vegfarendunum.

Að lokum er skrölt áleiðis með leið 11 vestur í bæ. Öflugir blásarar voru í gangi og lítið heyrðist í leiðsögninni.

Full ástæða er til að hljóðrita vetrarhljóð höfuðborgarsvæðisins. Ef til vill væri ekki úr vegi að sækja um styrk til slíks verkefnis og nýta þá hágæðabúnað til verksins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvæntur vísnasöngvari á Iðunnarfundi

Eggert Jóhannsson (ljósmynd)

Íslensk alþýðumenning lætur ekki að sér hæða. Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem haldinn var 7. janúar 2011 söng Eggert Ólafur Jóhannsson, vísnasöngvari, nokkrar vísur eftir Cornelis Vreeswijkog lék undir á gítar. Vakti hann verðskuldaða hrifningu fundargesta fyrir skemmtilega túlkun og fágaðan gítarleik. Auk þess að sinna vísnasöng fæst Eggert við feldskurð.

Notaður var Shure VP88 hljóðnemi og Nagra Ares BB+ hljóðriti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áramótaskothríðin 2010-2011

Gleðilegt ár.

fyrsti áratugur aldarinnar endaði vel. Miklu var skotið af flugeldum en púðurreykurinn ekki jafnmikill og stundum áður. Veðurguðirnir sáu fyrir því.

Hamagangurinn var svo mikill að ég stóðst ekki mátið og dró fram tækjabúnaðinn. Hélt ég mig á svölunum á 3. hæð Tjarnarbóls 14 með tvo sennheiser Me62-hljóðnema. Hljóðritað var á Nagra Ares BB+ á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.

Fyrst skar ég neðan af 100 riðunum en ákvað síðan að láta skeika að sköpuðu og afnam afskurðinn. Drunurnar verða því býsna tilkomumiklar og örlítið kann að bera á yfirmótun.

Þeir sem hafa gaman af samanburðarrannsóknum geta borið saman skothríðina um þessi áramót og hin síðustu. Væntanlega verður þessum hljóðritunum haldið áfram næstu ár og fæst þá samanburður á milli staða auk þess sem áætla má magn ólíkra tegunda flugelda af hljóðunum sem rata inn á minniskortið.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum eða hljómtækjum. Höfundur hljóðritsins tekur hvorki ábyrgð á heyrnar- né tækjaskaða.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband