Kaffihús á vefnum

Bláberjaísterta á CafeSigrunSigrúnu Þorsteinsdóttur, aðgengissérfræðingi, er margt til lista lagt og lysta.

Fyrir nokkrum árum stofnaði hún kaffihús á vefnum

www.cafesigrun.com

Þar eru í boði ókeypis uppskriftir af ýmsu tagi. Flestar eru þær í hollara lagi og því full ástæða til að fara á þetta kaffihús. Ókeypis veitingar að öðru leyti en því að menn þurfa að útvega hráefnið sjálfir og búa þær til.

Ég útvarpaði viðtali við Sigrúnu í þættinum Vítt og breitt þann 6. september árið 2007 og læt það hér óstytt ásamt kynningu minni í upphafi.

Viðtalið var hljóðritað á HP-fartölvu með Digigram hljóðkorti og Shure VP88 hljóðnema.

Verði ykkur að góðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Forvitinn svartbakur

Þegar ég hafði komið mér fyrir í flæðarmálinu neðan við Lambhaga á Álftanesi bar þar að svartbak sem gaumgæfði mig og hljóðnemana. Takið eftir hreyfingum fuglsins en þær koma vel fram í víðómsheyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Loftbólurnar í öldugjálfrinu o.fl.

Í dag fórum við Elín út á Álftanes að hljóðrita margæsir. Háfjara var um kl. 12:30 og vorum við komin um það leyti.

Við settum upp bækistöð neðan við Lambhaga og stilltum hljóðnemunum u.þ.b. 2-3 m frá fjöruborðinu. Síðan settist ég og hlustaði dáleiddur á öldugjálfrið.

Um kl. 13:35 varð ég var við að farið var að gutla einkennilega í bárunni og viti menn. Hljóðnemastandurinn var að fara í kaf og því góð ráð dýr. Náði ég honum og vöknaði í annan fótinn. Það var notalegt.

Í fyrra hljóðritinu heyrist greinilega hvernig loftbólurnar springa þegar ægir gælir við grundina. Þá heyrist í fyrstu kríunum sem sést hafa á Álftanesinu í ár og sitthvað fleira.

Í seinna hljóðritinu heldur ægir áfram að gæla við landið og einhverjir skotglaðir Íslenndingar afla sér í soðið fyrir utan. Ekki veit ég hvaðan vélardynurinn kemur en hugsanlega frá einhverju skipi.

Hljóðritað var með tveimur Sennheiser ME62 í 24 bita og 44,1 kílóriða upplausn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krían er komin á Seltjarnarnes

Í kvöld renndum við hjónin aðeins út á Nes og sáum okkur til mikillar gleði að nokkrar kríur voru þar á sveimi. Við námum staðar við Bakkatjörnina og reyndi ég að fanga hljóð nokkurra þeirra. Þeir sem glöggir eru heyra að hljóðmyndin er mikið klippt. Vonandi gefst betra tækifæri síðar til að birta annað hljóðrit frá þessu dásamlega umhverfi.

Vegna þess hve mögninin er mikil heyrist þyturinn í grasinu og sitthvað sem mannseyrað tekur vart eftir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hjólað austur á Fáskrúðsfjörð

Árið 2005 hjólaði Guðbjörn Margeirsson ásamt þremur félögum sínum austur á Fáskrúðsfjörð. Voru þeir fjórmenningarnir viku á leiðinni.

Þessi frásögn, sem hljóðrituð var árið eftir ferðalagið, kveikir vonandi hugmyndir hjá einhverjum um hjólreiðar í sumar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

fyrsti maí á Austurvelli 2010

Fyrsti maí var haldinn hátíðlegur á Austurvelli. Áður en fundur hófst varð fljótt ljóst að Alþingi götunnar undir forsæti Þorvalds Þorvaldssonar léti talsvert til sín takaog setti það sérstæðan svip á samkomuna. Slóg lið hans upp skjaldborg með táknrænum áletrunum og lét allófriðlega, jarmaði, baulaði og hafði í frammi önnur götulæti.

Hér verður birt hljóðrit af nokkrum hluta fundarins. Varaformaður Eflingar flutti ávarp og í lokin flutti formaður Landsambands framhaldsskólanema ræðu. Fundinum lauk síðan með Nallaum sem Lúðrasveit verkalýðsins og Svanur fluttu. fór þá sæluhrollur um hljóðritarann og hugsaði hann um gömul og góð lög eins og Syngjum um hinn mikla, réttláta og óskeikula, kínverska kommúnistaflokk.:)

Auglýst hafði verið að hljómsveitin Hjaltalín flytti baráttutónlist. Í staðinn framdi hún hávært popp með enskum textum og lagði þannig lið þeirri viðleitni að ganga á milli bols og höfuðs á íslenskri tungu. Kunnu hennir ýmsir litla þökk fyrir.

Ég var með 2 örsmáa hljóðnema frá Sennheiser sem ég festi á gleraugnaspangir. Héldu sumir að ég væri með nýtt hjálpartæki sem hjálpaði mér að skynja umhverfi mitt.

Hljóðritað var á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðhræringur - ekki skyrhræringur

Meðfylgjandi hljóðmynd var útvarpað í maí 2006 í þættinum Vítt og breitt. Þar er leikið sér að umhverfinu sem börn þurfa að æfa sig í og fléttað saman ýmsum hljóðum úr umhverfi, heimili auk tónlistar. Kynningin er alllöng. fólki er ráðlagt að hlusta annaðhvort með góðum heyrnartólum eða njóta myndarinnar í góðum hátölurum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austurríska grænmetishljómsveitin

fyrir 6 árum hlustaði ég á frétt í kínverska sjónvarpinu um austurríska hljómsveit sem hélt tónleika í Beijing og lék á hljóðfæri úr grænmeti. Að tónleikum loknum var soðin súpa úr hljóðfærunum og tónleikagestum gætt á góðgætinu. Ég var í Beijing um þetta leyti og hefði viljað gefa talsvert til að sækja þessa tónleika.

Njótið þess sem heimasíða hljómsveitarinnar hefur að geyma.

http://www.gemueseorchester.org/


Aldraður heimilisvinur gengur í endurnýjun lífdaga

Sumir fyllast fortíðarþrá.Hjónin Sigurbjörg Ólafsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur og Grétar Markússon, arkitekt, eiga unaðsreit við Lambhaga 9 á Álftanesi. Sunnan við húsið er sjávarbakkinn og þar fyrir utan miklar leirur. Margæsir og aðrir vaðfuglar eiga þar griðland og í móunum í kring verpir fjöldi fugla. Lóur voru á vappi hjá þeim hjónum framundir jólin í fyrra.

Sigurbjörg hafði margboðið mér að heimsækja sig og hljóðrita fugla. Við Elín fórum því út á Álftanes sunnudaginn 18. Apríl og heimsóttum þau góðu hjón. Ekki var ætlunin að hljóðrita í ferðinni heldur skoða aðstæður. Nagra Ares BB+ hljóðritinn og tveir Sennheiser ME62 voru þó með í för.

Þegar okkur bar að garði var verið að sinna gömlum heimilisvini, Deutz D30-S dráttarvél frá árinu 1961. Steinn, bróðir Sigurbjargar, sinnti um gripinn, og þar var einnig Markús Sigurðsson, sem hafði gert vélina upp.

Eftir að hafa þegir veitingar – rjómapönnukökur, jólaköku o. Fl., fór Steinn einn hring á vélinni. Síðan bauð Sigurbjörg mér í ökuferð og á eftir fór Elín með henni. Eins og sést á myndinni er eins konar söðull á vinstri aurhlíf vélarinnar. Þess vegna er vélarhljóðið meira til vinstri en hljóðið af hjólabúnaðinum og fjöðrunum heyrist vel í hægri hátalaranum. Sé hljóðritið sett í mónó verður hljóðið ekki síðra.

Í spjallinu hér á eftir segja þau Sigurbjörg, Steinn og Markús frá dráttarvélinni. Hljóðritið er örlítið snyrt en ekki klippt í sama mæli og menn neyðast til í útvarpi þar sem tíminn er oft naumt skammtaður.

Einnig fylgja þessari færslu tvö hljóðrit þar sem dráttarvélin kemur í hlað undir stjórn Steins og hann setur hana í gang fyrir mig að nýju. Hið seinna er ökuferðin með Sigurbjörgu. Aðdáendur vélahljóða fá þar nokkuð til að njóta.

Eftir að bloggið var birt sendi Sigurbjörg mér tölvupóst með ítarlegri lýsingu á notkun dráttarvélarinnar. Þar segir m.a.:

„Ég hafði mjög gaman af að heyra í gamla "Diggadigg" á upptökunni. Gott að geta látið spila þetta fyrir sig á elliheimilinu ! Ég var hálf gleymin í viðtalinu, þó ég segði að traktorinn hefði verið notaður í allt þá skýrði ég það ekki nánar. Hann var auðvitað notaður við allan heyskap, slá, snúa heyi/ tætla, raka saman , binda og flytja heim. Til allra flutninga var hann ómetanlegur, því vor og haust var gott að geta flutt sauðfé á heyvagni bæði í tengslum við sauðburð, rúningu og svo slátrun á haustin.

Það var skipst á að fara með mjólkurbrúsana niður á brúsapall frá Kirkjulækjarbæjunum sem voru þrír. Við krakkarnir sáum um það þegar við stálpuðumst. Það voru risa stórir mjólkurbrúsar í kælingu í vatnsþrónum sem við þurftum að lyfta uppá vagninn. Þeir voru allt upp í 50 lítra, en flestir voru 40 lítra.

Eins og ég nefndi var farið með fjósaskít á tún í kerru jafnóðum og þannig lærði ég að keyra á milli hlassa á túninu með pabba gangandi á eftir af því hann mokaði af. Nú svo var hann notaður í ferðalög ! Pabbi smíðaði pall aftaná og við fórum öll í langt ferðalag til berja um haustið. Mamma sat auðvitað í virðingarsætinu og við systkinin vorum svo á pallinum allavega sex fædd þá. Við fórum svona upp í Öldu sem er gott berjaland norðvestan við Þríhyrning. Ég man líka eftir að fara með pabba í kaupstaðinn, út í Hvolsvöll, það voru 11-12 km. Ég man að mér var ansi kalt, lítið um hlífðarföt og engin er yfirbyggingin á traktornum. En það var svo gaman að fá að fara með í Kaupfélagið að mér datt ekki í hug að kvarta.

Jæja eins og þú heyrir vekja þessi vélahljóð upp minningar, ég minnist pabba mjög mikið þegar ég heyri í gamla Deutz, bara góðar minningar. Ég get alveg sagt þér að mörgum árum áður en við tókum uppá því að gera upp traktorinn með Markúsar góðu vinnu, þá vorum við hjónin eitt sinn sem oftar á notalegri göngu í góðviðri á Álftanesinu. Þá heyri ég allt í einu Deutz traktor startað í gang, það var mjög hljóðbært ,og ég fékk bara kökk í halsinn og hugsaði bara "pabbi"! Hljóð geta hrifið mann með beint aftur í tímann eins og þú þekkir eflaust manna best. Jæja ég fór þarna alveg á flug, þú fyrirgefur það. Ég gleymdi að útskýra af hverju við kölluðum traktorinn Diggadigg. Þannig var að eldri traktorinn frá 1948 John Deere var með tveggja cylindra bensínvél og hljóðið í honum var svo hart og hvellt , hann var kallaður "Trakti gamli" en hinn malaði góðlega" diggadiggadiggadigg" í samanburðinum.“


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dynjandi í Dynjandisvogi

Unaður hljóðs og myndaSumarið 2009 fórum við hjónin um Vestfirði og nutum þess að skoða það sem fyrir augu og eyru bar.

Föstudaginn 26. Júní héldum við Elín áleiðis úr Reykhólasveitinni norður til Súðavíkur. Námum við staðar við fossinn Dynjandi og nutum þar umhverfisins. Hljóðritaði ég fossinn og reyndi að fanga hin margbreytilegu hljómbrigði. Notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema sem vísuðu u.þ.b 45° hvor frá öðrum. Um 120 cm voru á milli hljóðnemanna.

Myndirnar tók Elín, eiginkona mín, félagi og vinur.

Fyrsta hljóðritið er tekið við neðstu fossana.

Þá kemur Hundafoss.

Síðan var staðnæmst við göngumannafoss.

Nokkru ofar fundum við heppilegan stað þar sem ég settist. Elín hélt áfram upp að Fjallfossi. Þar tóku þýskir ferðamenn af henni myndina sem tengd er þessari færslu ásamt mynda- og hljóðskrám. Þar sem ég beið Elínar og naut nálægðarinnar við fossinn beindi ég hljóðnemunum frá dynjandi hávaðanum. Takið eftir dýpt hljóðsins.

Hljóðritin eru birt í fullum gæðum.

„Dynjandisvogur fyrir botni Arnarfjarðar er einstök náttúruperla. Þar er einn fegursti foss landsins og mesti foss Vestfjarða - Dynjandi. Fossinn og umhverfi hans er friðlýstur sem náttúruvætti. Áin Dynjandi rennur ofan af Dynjandisheiði sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu.

Dynjandi er ótrúlegur á allan hátt og er ein af fegurstu djásnum Íslands. Áin fellur fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg með smástöllum. Fossinn breiðir úr sér yfir klappirnar sem eru í reglulegum stöllum og fellur þrep af þrepi.

Bergið er myndað af hörðum hraunlögum og millilögum úr sendnum leir sem eru mun mýkri. Mjúku millilögin hafa gefið eftir undan ágangi jökuls og síðar vatns og fossastigi hefur myndast.

Fossarnir í Dynjandi eru sex. Efst er tilkomumesti fossinn, Fjallfoss, 30 metra breiður efst og um 60 metra breiður neðst. Hann er um 100 metra hár. Neðar í ánni eru Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss. Minnir fossaröðin helst á brúðarslör. Hægt er að ganga á bak við Göngumannafoss. Hvergi á landinu ber fyrir augu fegurra fossasvæði í einni sjónhending.

Dynjandi var aldrei nefndur annað en Dynjandi fyrr en einstaka menn fóru að kalla hann Fjallfoss á fyrri hluta 19. aldar. Fossinn ber nafn með rentu því drunurnar frá honum berast langar leiðir.“

http://www.breidavik.is/Is/Naesta_nagrenni/Dynjandi_-_Fjallfoss/


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband