Færsluflokkur: Bloggar

Kvöldstund í Suðurnesi og við Reykjavíkurtjörn

Upp úr kl. 9 að kvöldi 21. maí héldum við hjónin í leiðangur út á Nes. Hafði ég með mér hljóðrita og tvo Sennheiser Me62. Fyrst var numið staðar við Bakkatjörn og hljóðritað skvaldur fuglanna. Eins og hlustendur heyra gekk það ekki alveg snurðulaust.

Að því búnu var ákveðið að ganga kringum golfvöllinn. Hófst ég handa við að hljóðrita margæsaflokk sem kom flögrandi. Ég stóð við jaðar golfvallarins og hleypti það kapp í kinn Breta nokkurs sem skaut að mér golfkúlu. Lenti hún skammt frá mér en engin hola var í þá stefnu.

Við gengum áfram meðfram vellinum og námum næst staðar til þess að hljóðrita meira af kríugargi. Í hljóðritinu má greinilega heyra að krían lætur ekki golfspilarana trufla sig.

Næst var hljóðnamunum beint að fjörunni og kríuskvaldrið hljóðritað. Talsvert virðist af kríu úti í Suðurnesi og jafnvel meira en í fyrra. Þó er þetta vart svipur hjá sjón miðað við það sem gerðist fyrir aldamót.

Að lokum ókum við niður að Reykjavíkurtjörn. Ys og þys borgarinnar blandaðist við álfta- og kríugarg á tjörninni.

Stafalogn var á svo að ég freistaðist til að hljóðrita án þess að skera nokkuð af 100 riðunum. Þó varð ég að láta tilleiðast við tjörnina því að undirtónn umferðarinnar reyndist of djúpur.

Hljóðritin eru hér í 16 bita upplausn og 44,1 khz.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krían er komin á Seltjarnarnes

Í kvöld renndum við hjónin aðeins út á Nes og sáum okkur til mikillar gleði að nokkrar kríur voru þar á sveimi. Við námum staðar við Bakkatjörnina og reyndi ég að fanga hljóð nokkurra þeirra. Þeir sem glöggir eru heyra að hljóðmyndin er mikið klippt. Vonandi gefst betra tækifæri síðar til að birta annað hljóðrit frá þessu dásamlega umhverfi.

Vegna þess hve mögninin er mikil heyrist þyturinn í grasinu og sitthvað sem mannseyrað tekur vart eftir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austurríska grænmetishljómsveitin

fyrir 6 árum hlustaði ég á frétt í kínverska sjónvarpinu um austurríska hljómsveit sem hélt tónleika í Beijing og lék á hljóðfæri úr grænmeti. Að tónleikum loknum var soðin súpa úr hljóðfærunum og tónleikagestum gætt á góðgætinu. Ég var í Beijing um þetta leyti og hefði viljað gefa talsvert til að sækja þessa tónleika.

Njótið þess sem heimasíða hljómsveitarinnar hefur að geyma.

http://www.gemueseorchester.org/


Útifundur á Austurvelli 8. nóvember 2008

Mér gafst einungis tækifæri til að sækja einn baráttufund á Austurvelli veturinn 2008-2009. Ég þóttist þó leggja lóð mín á vogarskálarnar með því að upplýsa sitthvað og halda uppi gagnrýni á http://arnthorhelgason.blog.is. Hlaut ég á stundum ótæpilegar skammir frá stjórnleysingjum sem sökuðu mig um stofubaráttu.

Við Elín sóttum fundinn sem haldinn var á Austurvelli 8. nóvember 2008. Þar var andrúmsloftið lævi blandið. Ræðumenn voru þau Ragnheiður Gestsdóttir, Arndís Björnsdóttir, Sigurbjörg Árnadóttir og Einar Már Guðmundsson. Hörður Torfason stýrði fundinum af sínu alkunna æðruleysi og þeirri fágun sem einkennir alla framkomu hans.

Á öxlinni hékk Nagra Ares BB+ og meðferðis hafði ég Sennheiser MD21U hljóðnema sem nam það sem fyrir eyru bar. Hljóðritið er rúmlega klst langt og er komið hér fyrir sem sagnfræðilegri heimild.

Frumritið er gert með 16 bita upplausn og 44,1 kílóriða tíðni. Vegna lengdar varð að þjappa því í 96 kb/sek.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stiklað á stóru um sögu kínverskrar tónlistar

Kl. 12:00 - 13:30 fimmtudaginn 18. mars ætla ég að stikla á stóru um sögu kínverskrar tónlistar. Leikin verða fjölmörg tóndæmi og ofinn dálítill fróðleikur saman við.

Árný Elínborg Ásgeirsdóttir, meistaranemi í frétta- og blaðamennsku, tók við mig útvarpsviðtal fyrir vefinn student.is og læt ég það fljóta hér með.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krummi krunkar úti

Um þetta leyti ber mikið á hrafni á höfuðborgarsvæðinu. Hann skemmtir mörgum með krunki sínu og athæfi.

Þann 10. febrúar árið 2009 hitti ég að máli Ólaf Nielsen og fékk hann til að segja mér frá hrafninum. Var samtalinu útvarpað tveimur dögum síðar.

Í upphafi syngur Elín Árnadóttir, eiginkona mín, hjálparhella og vinurinn besti, lagið Krummi krunkar úti sem ég gerði handa Birgi Finnssyni, systursyni mínum árið 1967, en þá var hann á þriðja ári. Lagið er samið eftir 5 tóna skalanum og ar einhver baráttusöngur rauðu varðliðanna fyrirmyndin, en ég var þá orðinn Maoisti sem ég hef verið síðan.

Hrafnana, sem koma fram í þættinum, hljóðrituðum við Pétur Halldórsson. Notaði hann Shure VP88 en ég beitti tveimur Sennheiser ME62 sem mynduðu um 100° horn og vísuðu hvor frá öðrum. Samtalið var hljóðritað með Sennheiser ME-65, en hljóðrýmið var þess eðlis að nota varð stefnuvirkan hljóðnema.

´Serstök athygli er vakin á lokum þáttarins. Þá kemur hrafn aðvífandi, sest á handriðið, gaumgærir hljóðnemana og flýgur svo á brott í skyndi. Setjið því á ykkur góð heyrnartól og njótið hreyfingarinnar í hljóðritinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Apinn sem keypti grænmeti og aura

Birgir Þór Árnason birgissonar og Elfu Hrannar Friðriksdóttur var borinn í þennan heim 15. febrúar 2005 og hélt upp á 5 ára afmæli sitt í gær. Mikið var um dýrðir eins og vera ber á stórafmælum.

Ekkert vekur mönnum innilegri gleði, þakklæti og djúpa lotningu en þegar barn fæðist. Amma og afi verða ung aftur og þakka fyrir að eiga hlutdeild í þessari dásemd.

Haustið 2008 gerði ég örstuttan útvarpsþátt um Birgi Þór sem þá var á fjórða ári. Auk hans komu nokkur leikskólabörn við sögu í leikskólanum tjarnarási, þar sem Birgir litli stundar nám.

Notaðir voru þrír hljóðnemar. Sennheiser MD-21U við útihljóðritanir, AKG DM-230 í samtölum og Shure VP88 á leikskólanum. Hljóðritinn sjálfur er af tegundinni Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

göngugata í Beijing

Sunnudaginn 23. maí 2004 héldum við í skoðunarferð um Beijing. Tækifærið var notað og verslað. Á meðan félagar mínir styrktu kínverskan efnahag hljóðritaði ég dálítið fyrir utan verslunina. Síðan var haldið í áttina að umferðaræðunum þar sem bíllinn beið okkar. Á leiðinni heyrðist hvernig nútíð og fortíð ófust saman. Leikið var á Guan-hljóðpípu, tilkynningar bárust úr hátölurum, f´ólk fór um á reiðhjólum og að lokum lék maður nokkur Austrið er rautt á erhu-tveggja strengja fiðlu.

Notað var Sony B-100 minidiskatæki.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kínverskur jazz á Höfuðborgargistihúsinu í Beijing

Miðvikudaginn 19. apríl árið 2004 kom sendinefnd frá Íslandi til Beijing í þeim erindagjörðum að taka þátt í 50 ára afmæli Kínversku vináttusamtakanna. Vorum við drifin á undirbúningsfund skömmu eftir komuna og áttu félagar minir býsna bágt vegna svefns sem sótti á þá. Ég var hins vegar í hringiðunni og hélt mér ágætlega vakandi.

Eftir kvöldverð settumst við niður á bar hótelsins. Í salnum léku þrír hljómlistarmenn vestræna tónlist með kínversku ívafi. Sumt var harla gott en annað skemmtilegt. Hljóðrit dagsins er alkunnugt, bandarískt dægurlag frá 7. áratugnum. Notað var Sony b-100 minidisktæki með innbyggðum hljóðnemum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Suð fyrir eyra

Fyrir nokkrum árum gerði ég þátt fyrir Ríkisútvarpið um suð fyrir eyra, en það er kvilli sem þjáir stöðugt meiri fjölda fólks.

Í þættinum er athyglinni einkum beint að súrefnismeðferð sem tíðkuð hefur verið til að draga úr suðinu. Þátturinn er birtur á þessari síðu í þeirri von að hann megi verða einhverjum að gagni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband