Færsluflokkur: Tónlist

Sumarið '67

Fyrir þremur árum útvarpaði ég stuttum pistli með endurminningum frá sumrinu 1967. Þar má heyra frumgerð lags míns Fréttaauka, sem við Gísli lékum inn á band fyrir Ríkisútvarpið árið 1968, Tryggva Ísaksson, bónda í Hóli í Kelduhverfi flytja ljóð og Róbert Nikulásson á vopnafirði þeyta nikkuna ásamt hljómsveitinni Tiglum á dansleik sem haldinn var 30. júní þá um sumarið.

Hljóðritað var með hljóðnema og snældutæki frá Philips.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Söngstund í Gerðubergi

Frá áramótum hafa verið haldnar söngstundir í kaffistofunni í Gerðubergi. Þessar söngstundir skipuleggja þau Chris Foster og Bára Grímsdóttir og er þetta liður í hinu fjölbreytilega starfi Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Stundirnar eru haldnar frá kl. 14:00-16:00 annan sunnudag í mánuði.

Sunnudaginn 14. febrúar komu menn saman og sungu ýmis lög sem tengdust eyjum. Þó bar þar ýmislegt annað fyrir eyru. Þar á meðal sagði Pétur Eggerz þjóðsögu.

Hér verður birt örlítið sýnishorn. Það eru dansar frá Hjaltlandseyjum, búlgarskt þjóðlag sem íslenskum áheyrendum var kennt og tvö lög í lokin sem menn sungu við raust.

Hljóðritað var með Nagra Ares-M hljóðpela. Festur var á hann víðóms-hljóðstútur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tónelskur miðstöðvarofn

Heimilishljóðin eru margvísleg. Í eldhúsinu hjá okkur er miðstöðvarofn. Sá, sem átti íbúðina áður, hafði látið setja ofninn langt frá útivegg. Þegar nýrri eldhúsinnréttingu var komið fyrir var nýr ofn keyptur og hann fluttur að útvegg enda kom í ljós að þar var úttak fyrir ofninn.

Þessi ofn hefur sjaldan verið til friðs og fyllist iðulega af lofti. Við reyndum að auka innstreymið inn á hann og mér skilst að aukinn hafi verið þrýstingur á húskerfinu. En loftið myndast ævinlega.

Ofninn hefur nú tekið að semja sjálfur lágvær tónverk. Hér birtist eitt þeirra. Ef til vill getur einhver pípulagningarmaður greint verkið.

Ofninn krefst engra stefgjalda og þess vegna er hljóðverkið birt á þessari síðu.

Hljóðritað á Nagra Ares BB+ með tveimur Sennheiser ME64.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýtt hljóðrit með Steindóri Andersen

Það er á engan hallað þótt fullyrt sé að Steindór Andersen, formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sé nú mestur kvæðamaður hér á landi. Hann hefur öðrum fremur hafið stemmuna til þeirrar virðingar sem henni ber innan íslenskrar menningar.

Á fundi Iðunnar, 5. Febrúar síðastliðinn, kvað hann úr kosningarímum séra Guðlaugs Guðmundssonar, prests á Stað í Steingrímsfirði, sem hann orti vegna kosningar sýslunefndarmanns, sem fram fór að Hrófbergi á Jónsmessunni 1912. Guðlaugur orti þessa rími í riddarasagnastíl til þess að spauga með þá sem að þessari kosningu stóðu.

Hljóðrit þetta er birt með samþykki Steindórs.

Notaður var Shure VP88 víðómshljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rósa Jóhannesdóttir kveður vísur um áramótin, veðrið o.fl.

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 8. Janúar síðastliðinn, Kvað Rósa Jóhannesdóttir nokkrar vísur sem hún fann á Leir, póstlista meintra hagyrðinga. Fyrst flutti hún þó vísur sem eitt leirskáldanna, Sigmundur Benediktsson, hafði sent henni þá um morguninn.

Hin leirskáldin voru Arnþór Helgason, Hallmundur Kristinsson, Jón Ingvar Jónsson, Pétur Stefánsson, Árni Jónsson, Davíð Hjálmar Haraldsson og Sigrún Haraldsdóttir.

Notaðir voru tveir Sennheiser ME-64 hljóðnemar sem mynduðu u.þ.b. 90°horn og vísuðu hvor að öðrum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kínverskur jazz á Höfuðborgargistihúsinu í Beijing

Miðvikudaginn 19. apríl árið 2004 kom sendinefnd frá Íslandi til Beijing í þeim erindagjörðum að taka þátt í 50 ára afmæli Kínversku vináttusamtakanna. Vorum við drifin á undirbúningsfund skömmu eftir komuna og áttu félagar minir býsna bágt vegna svefns sem sótti á þá. Ég var hins vegar í hringiðunni og hélt mér ágætlega vakandi.

Eftir kvöldverð settumst við niður á bar hótelsins. Í salnum léku þrír hljómlistarmenn vestræna tónlist með kínversku ívafi. Sumt var harla gott en annað skemmtilegt. Hljóðrit dagsins er alkunnugt, bandarískt dægurlag frá 7. áratugnum. Notað var Sony b-100 minidisktæki með innbyggðum hljóðnemum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framtíð ferskeytlunnar

Veturinn 1998 gerði ég stuttan útvarpsþátt um framtíð ferskeytlunnar. Þátturinn var verkefni á vegum hagnýtrar fjölmiðlunar við Háskóla Íslands, en ég stundaði þar nám í tvö misseri. Í þættinum er fjallað um framtíð þessarar fornu listgreinar og rætt m.a. við Steindór Andersen. Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Pétur Blöndal o.fl. koma þar fram.

Flest sem kom fram í þættinum á enn við 12 árum síðar. Kvæðamannafélagið Iðunn hefur nú eignast heimasíðuna

http://rimur.is/

þar sem ýmiss konar fróðleik er að finna um bragfræði og íslenskan kveðskap.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lambhrúturinn Þorkell á Hala

Miðvikudaginn 8. júlí 2009 skoðuðum við hjónin Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Eftir að hafa snætt kvöldverð í húsnæði bændagistingarinnar á Gerði gengum við um nágrennið og nutum kvöldblíðunnar. Veittum við þá athygli lambi sem haft var í stekk ásamt gamalá nokkurri sem virtist láta sér standa á sama um það.

Skýringin reyndist vera sú að lambhrútur, sem nefndist Þorkell, varð móðurlaus og tók heimilisfólkið á Hala hann í fóstur. Gamalær þessi var sett honum til samlætis í stekkinn og er löng saga af því sem ekki verður rakin hér.

Ég hljóðritaði lambsjarminn, tók síðan einn jafminn, teygði og togaði þannig að úr varð að Þorkell jarmaði íslenska þjóðlagið, Gimbillinn mælti og grét við stekkinn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband