Færsluflokkur: Tónlist

Þjóðrembusyrpa á sautjándanum og fleira gott

Við Elín tókum þátt í sautjándanum af lífi og sá, hún á upphlut og bóndi hennar á íslenska þjóðbúningnuml. Í Dómkirkjunni nutum við þess að hlusta m.a. á eftirspil Arnar Magnússonar sem lék stef úr Rímnadönsum Jóns Leifs, og um kvöldið nutum við þess sem á boðstólnum var í miðborg Reykjavíkur. Er þá öllu sleppt sem gerðist millum messu og aftans og hvorki minnst á menningu né allt fólkið sem við hittum.

Hljóðsýnin eru að þessu sinni 3. Staldrað við á Ingólfstorgi og hlustað á Varsjárbandalagið flytja íslensk-balkneska þjóðrembusyrpu, rölt eftir Lækjargötu í átt að Arnarhóli að hlusta á Hjaltalín og að lokum gengið eftir Aðalstræti. Notaðir voru örsmáir Sennheiser hljóðnemar sem festir voru á gleraugnaspangir og fór enn sem fyrr að fólk hélt að þetta væri nýjasta hjálpartækið mitt. Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti og tekið upp í 24 bitum og 44,1 kílóriðum.

Fólki er eindregið bent á heimasíðu Varsjárbandalagsins á Fésbókinni, en þar getur það gerst aðdáendur þessarar skemmtilegu hljómsveitar, horft á myndbönd o.s.frv.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útidansleikur í Maastricht

Ég hef tvisvar komið til Maastricht í Hollandi, árið 1992 og 2005. Elín var með mér í bæði skiptin og árið 2005 slóst Hringur Árnason, þá á 11. ári, í för með afa og ömmu.

Ég eyddi tímanum að mestu á námskeiði um löggjöf Evrópusambandsins um málefni fatlaðra. Námskeiðinu lauk laugardaginn 25. júní. Veðrið var yndislegt og ákváðum við að skoða borgina. Á rölti okkar rákumst við á hóp fólks sem skemmtil sér konunglega við dans á litlu torgi. Á palli stóðu tveir tónlistarmenn, trumbuslagari og harmonikuleikari. Annar þeirra söng af hjartans list.

Leikur þeirra félaganna minnti mig á jólaböllin í Vestmannaeyjum í árdaga en þar léku menn alls kyns lög á trumbur og harmoniku, jafnvel bítlalög. Ég var með Nagra Ares BB hljóðpela meðferðis og dreypti ég á hann einu lagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Uppþvottavélin

Árið 2004 var skipt um eldhúsinnréttingu hjá okkur. Við áttum forláta AEG-uppþvottavél sem var ekki nema 15 ára gömul og hafði einungis bilað einu sinni. Pípulagningarmeistarinn taldi óráð að veðja á hana og fór hún því forgörðum. Í staðinn keyptum við Siemens-vél.

Báðar eru þessar vélar afar hljóðlátar. Á meðan ég var atvinnulaus hlustaði ég stundum eftir hljóðum vélarinnar á meðan hún þvoði og ég lét hugann reika. Tók ég þá eftir því að hljóðin voru margvísleg og ólík eftir því hvað þvegið var. Til dæmis þykir vélinni gaman að þvo stóra potta og önnur ílát sem hljóma vél.

Þriðjudaginn 9. október 2007 fannst mér liggja óvenjuvel á vélinni og var greinilegt að eitthvað skemmtilegt sýslaði hún við. Ég sótti því hljóðrita og hljóðnema og stillti upp framan við hana. Þá heyrðust enn fleiri hljóð en ég hafði áður greint, en hljóðneminn var í u.þ.b. 30 cm hæð frá gólfi.

Vélin er svo taktföst að hæfileikaríkur tónlistarmaður getur auðveldlega notað undirleik hennar sem viðbót eða undirstöðu í eitthvert ofurskemmtilegt lag eða tónverk. Skyldi ég geta sótt um styrk frá siemens til að semja næsta Evróvisjónlag? Hver veit nema það ryki upp í fyrsta sæti og Íslendingar fengju efnahagsaðstoð frá Þjóðverjum til að halda keppnina.

Fái einhver annar þessa hugmynd eftir lestur þessa pistils og verði fyrri til en ég óska ég honum góðs gengis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

fyrsti maí á Austurvelli 2010

Fyrsti maí var haldinn hátíðlegur á Austurvelli. Áður en fundur hófst varð fljótt ljóst að Alþingi götunnar undir forsæti Þorvalds Þorvaldssonar léti talsvert til sín takaog setti það sérstæðan svip á samkomuna. Slóg lið hans upp skjaldborg með táknrænum áletrunum og lét allófriðlega, jarmaði, baulaði og hafði í frammi önnur götulæti.

Hér verður birt hljóðrit af nokkrum hluta fundarins. Varaformaður Eflingar flutti ávarp og í lokin flutti formaður Landsambands framhaldsskólanema ræðu. Fundinum lauk síðan með Nallaum sem Lúðrasveit verkalýðsins og Svanur fluttu. fór þá sæluhrollur um hljóðritarann og hugsaði hann um gömul og góð lög eins og Syngjum um hinn mikla, réttláta og óskeikula, kínverska kommúnistaflokk.:)

Auglýst hafði verið að hljómsveitin Hjaltalín flytti baráttutónlist. Í staðinn framdi hún hávært popp með enskum textum og lagði þannig lið þeirri viðleitni að ganga á milli bols og höfuðs á íslenskri tungu. Kunnu hennir ýmsir litla þökk fyrir.

Ég var með 2 örsmáa hljóðnema frá Sennheiser sem ég festi á gleraugnaspangir. Héldu sumir að ég væri með nýtt hjálpartæki sem hjálpaði mér að skynja umhverfi mitt.

Hljóðritað var á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðhræringur - ekki skyrhræringur

Meðfylgjandi hljóðmynd var útvarpað í maí 2006 í þættinum Vítt og breitt. Þar er leikið sér að umhverfinu sem börn þurfa að æfa sig í og fléttað saman ýmsum hljóðum úr umhverfi, heimili auk tónlistar. Kynningin er alllöng. fólki er ráðlagt að hlusta annaðhvort með góðum heyrnartólum eða njóta myndarinnar í góðum hátölurum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæðamaðurinn Ingimar Halldórsson

Ingimar Halldórsson fæddist á Akranesi árið 1945. Hann gekk í Kvæðamannafélagið Iðunni árið 1970 og hefur lengi verið einhver besti kvæðamaður þess.

Á aðalfundi Iðunnar 6. mars 2009 kvað hann nokkrar frumortar vísur. Notaður var Shure VP88 við þá hljóðritun.

Enn var Ingimar á dagskrá Iðunnarfundar föstudaginn 9. mars árið 2010. Í það skipti kvað hann vísur eftir Kristján Samsonarson og gerði í upphafi grein fyrir ævi þessa listfenga hagyrðings.

Notaðir voru tveir Sennheiser Me64 hljóðnemar.

Hljóðritin eru birt með leyfi Ingimars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

vindbelgirnir í Ráðhúsi Reykjavíkur 24. nóv. 2007

Harmonikan hefur verið vinsælt alþýðuhljóðfæri á Íslandi áratugum saman. Á síðustu árum hafa vinsældir hennar vaxið á ný og leika menn á hana hin fjölbreytilegustu tónverk.

Hljómsveitin Vindbelgirnir hefur fengist við að leika norræn danslög og fyrir nokkru gáfu þeir félagar út disk. Hinn 24. nóvember árið 2007 efndi Félag harmonikuunnenda til tónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar stigu þeir Vindbelgirnir á svið og léku nokkur lög. Harmonikur þöndu Friðjón Hallgrímsson og Hilmar Hjartarson. Magnús Rúnar Jónsson lék undir á gítar.

Ég hljóðritaði utan úr sal, var með Nagra Ares BB+ og Shure VP88 hljóðnema.

Hér er ekki um harðsoðna hljóðvershljóðritun að ræða heldur skemmtilegt hljómleikahljóðrit.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Frá kirkju mótmælenda í Beijing 3. ágúst 1986

Trúarbrögð hafa átt misjöfnu gengi að fagna í Kína. Á dögum Tang-keisaraættarinnar, sem ríkti frá 618-907 eftir krist er sagt að í XI'AN, höfðuborg Kínaveldis, hafi verið ýmsir trúarsöfnuðir af ólíkum toga. Þar á meðal voru kristnir söfnuðir, múslimar og gyðingar svo að fátt eitt sé nefnt. Kristni leið undir lok en muslimar héldu velli og er enn starfandi trúarsamfélag þeirra í borginni sem byggir á gömlum grunni.

Hér verður ekki rakin saga kristni í Kína en þess þó getið að kristin trú hefur eflst mjög undanfarna áratugi og er nú talið að allt að 15-20 milljónum manna iðki kristna trú í landinu (sumir nefna að vísu lægri tölur).

Sumarið 1986 fórum við Emil Bóasson, samstarfsmaður minn, vildarvinur og velgjörðamaður til margra ára, til Kína ásamt hópi esperantista. Opinber tilgangur okkar var að gera 8 þætti fyrir íslenska ríkisútvarpið um samskipti Kínverja og Íslendinga og stóðum við félagarnir við þann þátt ferðarinnar.

Sunnudaginn 3. Ágúst fórum við ásamt tveimur vinkonum okkar í kirkju mótmælenda í Beijing. Það vakti aðdáun okkar og gleði hvað safnaðarsöngur var almennur. Leikið var undir á slaghörpu og orgel-harmonium. Hljóðrituðum við það sem fram fór og síðan viðtöl við nokkra kirkjugesti á eftir messu. Hér verður birtur síðasti sálmurinn sem sunginn var ásamt messusvörum. Í lokin heyrist hluti útgönguspilsins. Ekki hefur mér tekist að bera kennsl á sálmalagið en finnst sem ég hafi heyrt það áður. Er það ekki ólíklegt því að flest ef ekki öll sálmalögin, sem sungin voru við guðsþjónustuna, voru vestræn.

Notað var Sony TCD5 segulbandstæki, Sony metalsnælda og Shure SM-63-L hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bæjarlækur og öldugjálfur vestur í Skálavík

Vestur í Skálavík, sem er vestasta byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu vestan Ísafjarðarkaupstaðar, er nú engin byggð, en landið nýtt á sumrin. Nokkrir sumarbústaðir eru þar.

Víkin er fyrir opnu hafi og hefur því lendingin verið óhæg þar. Við hjónin vorum þar á ferð ásamt Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, 2. Júlí 2009 og nutum veðurblíðunnar.

Fyrir okkur varð lítill bæjarlækur sem hnepptur hafði verið í bunustokk og gert var úr járntunnu. Tónleikur lækjjarins vakti upp gamlar minningar um brunnlokið úti í Vestmannaeyjum sem söng í rigningu.

Í grýttri fjörunni settist ég á stein og hljóðritaði skvaldur Ægis þar sem hann mynntist við lábarið fjörugrjótið. Hlustendur þessara hljóðrita hafa heyrt hluta öldugjálfursins í færslunni um síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur sem er birt undir þessum flokki. Takið eftir tónbrigðum sjávarins.

Nánari upplýsingar um Skálavík eru á síðunni http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_skalavik.htm


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verðandi harmonikusnillingar

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 8. janúar 2010, komu m.a. fram þeir flemming Viðar Valmundsson, 14 ára og Jónas Ásgeir Ásgeirsson, 16 ára, en þeir stunda báðir nám í harmonikuleik. Léku þeir bæði sígild tónverk og alþýðlegri tónlist. Hljóðfæraleikur þeirra var hljóðritaður eins og allt efni funda Iðunnar.

Góðfúslegt leyfi hefur fengist til að birta sýnishorn af flutningi þeirra hér á síðunni. Hér er fyrst og fremst um tónleikahljóðrit að ræða. Þau eru oft skemmtilegri og meira lifandi en hljóðrit úr hljóðverum þar sem allt er dauðhreinsað.

Notaðir voru tveir Sennheiser ME-64 hljóðnemar. Þeir vísuðu hvor að öðrum og mynduðu um 100° horn. Þeir voru um 2 m frá tónlistarmönnunum í u.þ.b. 1,6 m hæð. Elín Árnadóttir sá um að stilla þeim upp en hún hefur einkargott auga fyrir réttri uppsetningu hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband