Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Látinn maður forðar sonarsyni sínum frá bráðum bana

Bryndís Bjarnadóttir frá Húsavík

Bryndís Bjarnadóttir fæddist á Húsavík árið 1923, dóttir hjónanna Bjarna Benediktssonar og Þórdísar Ásgeirsdóttur, merkra heiðurshjóna. Ég heimsótti hana fyrir skömmu og sagði hún mér sitthvað af ættingjum okkar, foreldrum sínum og sjálfri sér. Bryndís er eins og systkini hennar, mikil sagnakona og minnug. Þess má geta að undir flokknum vinir og fjölskylda á þessum síðum, eru tvær frásagnir bróður hennar, Vernharðs Bjarnasonar, af samstarfi og kynnum sínum af Helga Benediktssyni og vélskipinu Helga VE 33, en Vernharður vann hjá frænda sínum í nokkur ár í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.

Mánudaginn 16. ágúst síðastliðinn heimsótti ég Bryndísi og sagði hún mér þá frá því er faðir mannsins hennar, Þórhallur Sigtryggsson, bjargaði lífi Sigtryggs Sigtryggssonar, sonar Bryndísar og Sigtryggs Þórhallssonar haustið 1960, en Sigtryggur var þá 10 ára gamall. Lesendur Morgunblaðsins kannast flestir við Sigtrygg, en hann hefur unnið á blaðinu árum saman.

Frásögn Bryndísar ber ljósan vott um skyggnigáfu þá eða ófreski sem er algeng í ættinni. Þess skal getið að farðir Bryndísar og afi minn, Benediktt Kristjánsson, voru bræðrasynir og erum við Sigtryggur Sigtryggsson, sem greinir frá í frásögn móður hans, því fjórmenningar.

fyrir þá sem hafa gaman af tæknimálum skal þess getið að notaður var AKG DM-230 hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Birgir Þór er býsnastór

Birgir Þór nýtur lífsins í afmælinu sínu.

Birgir Þór Árnason er mið-barnabarn okkar Elínanr, fæddur 15. febrúar 2005. Bræður hans eru Hringur og Kolbeinn Tumi.

Þegar Birgir Þór byrjaði að tala varð fljótlega ljóst að hann væri kverkmæltur. Með aðstoð foreldra sinna og ömmu tókst honum að vinna bug á kverkmælginni og naut ekki síst til þess aðstoðar Ásthildar Snorradóttur, talmeinafræðings. Í vetur fór svo að kverkmælta r-ið hvarf.

Á hljóðsíðum þessum hefur verið birt hljóðrit frá 2008 þar sem heyrist að pilturinn sagði vel frá, söng og r-ið kom greinilega fram. Í dag, 29. júní 2010, tók ég hann tali og fékk hann til að kveða vísu sem hann kann um sjálfan sig.

Ljósmyndina tók Elín amma á 5 ára afmælisdegi hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Búðaráp í Beijing 9. ágúst 1986

Við Emil Bóasson dvöldumst í Beijing um nokkurra vikna skeið sumarið 1986. Helst höfðum við það fyrir stafni að hitta forystumenn í kínversku mennta- og menningarlífi ásamt hagfræðingum, ferðamálafrömuðum og Íslandsvinum. Öfluðum við efnis í þætti handa ríkisútvarpinu sem tengdust flestir með einum eða öðrum hætti Beijing. Við sóttum einnig heim ýmsa trúarsöfnuði og sumt af þessu efni rataði inn í þætti okkar sem urðu 8 ef ég man rétt. Okkur var hvarvetna vel tekið. Kann skýringin að hafa verið sú meðal annars að Steingrímur Hermannsson var þá væntanlegur í heimsókn um haustið. Kínversku viáttusamtökinn áttu einnig drúgan hlut að málum.

Við fórum á stúfana að morgni laugardaginn 9. ágúst 1986 og gengum á milli verslana í hverfinu Jiaodakou þar sem við bjuggum. Emil, sem er afbragðs sögumaður og vel máli farinn, lýsti varningnum sem á boðstólum var og sagði frá verði hlutanna. Rétt er að taka fram að þá voru 12 íslenskar krónur í einu Rnminbi og umreiknuðum við verðið jafnóðum til íslensks verðgildis. Þá voru meðalaun embættismanna 100 Renminbi og höfðu þá hækkað um tæp 90% frá árinu 1975.

Gríðarlegar breytingar harfa orðið á kjörum almennings á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan þetta hljóðrit var gert. Auk Emils ber ýmislegt fyrir eyru. Hlustendur taka væntanlega eftir því hvað reiðhjól voru áberandi í umferðinni á þessum tíma. Samt þótti okkur nóg um bílaumferðina í miðborg Beijing árið 1986.

Hljóðritað var með Sony TCD5 snældutæki og Shure 63L hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svipirnir í hrauninu - málverkasýning

Sólveig Eggerz Pétursdóttir, listmálari.Þriðjudaginn 25. maí verður opnuð á Hrafnistu í Hafnarfirði sýning Sólveigar Eggerz Pétursdóttur. Allar myndirnar eru málaðar á þessu og síðasta ári.

Sólveig Eggerz er landskunn fyrir list sína. Hún varð fyrst manna hér á landi til að mála á rekaviðarspýtur og báru þau verk hróður hennar víða um lönd.

Að undanförnu hefur Sólveig orðið að leggja olíulitina á hilluna og hefur tekið að mála með akríl-litum í staðinn. Í meðfylgjandi viðtali lýsir hún listsköpun sinni og því hvernig hún hefur tekist á við breyttar aðstæður.

Sólveig fæddist 29. maí árið 1925 og verður því 85 ára á kosningadaginn. Sjálf hefur hún það eftir einum dóttursonarsyni sínum að hún sé 29 ára og ætlar að vera það svo lengi sem henni endist aldur.

Viðtalið var hljóðritað í samkomusal Hrafnistu í Hafnarfirði 23. maí 2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leikur að vatni

Haustið 1999 gerði ég vinkilsþáttinn „Leikur að vatni“, en þar lék ég mér að vatni með ýmsu móti.

Leikurinn hófst í sundlaug Seltjarnarness einn lygnan laugardagsmorgun í október. Við vorum tveir í sturtunni og bað ég félaga minn, hver sem hann var, að veita mér viðtal en hann kvaðst of feiminn til þess. Ég var á leiðinni út og vildi fá hljóðmyndina af gönguferðinni. Því setti ég tækið á hljóðritun. Og viti menn. Maðurinn byrjaði að tala og úr varð þetta ágæta samtal sem hann vissi ekki að hefði verið hljóðritað.

Leikurinn barst svo austur að Geysi, Hringur Árnason, sem þá var 5 ára, sagði mér frá því til hvers hann notaði vatnið, litið var við á kínverska ballettinum Rauðu kvennaherdeildinni, haldið vestur í Skjaldfannardal og lækir látnir dansa saman, hverasvæði í Krísuvík skoðuð og loksins staðnæmst úti við Gróttu. Þar naut ég liðsinnis vinar míns, Magnúsar Bergssonar, hljóðlistarmanns, en hann hljóðritaði öldugjálfrið eina sumarnótt árið 1994. Vek ég sérstaka athygli á þeim hluta þáttarins.

Móðursystir mín, Guðfinna Stefánsdóttir, sagði mér einnig í þættinum hvernig fólk í Vestmannaeyjum hefði margnýtt vatnið á æskuárum sínum. Einnig greindi einn bræðra minna frá víngerð, en málrómi hans var breytt svo að hann yrði ekki lögsóttur. Nú er óhætt að upplýsa að hann heitir Páll Helgason, enda er málið fyrnt.

Heil mikið tilstand var vegna þessa þáttar. Ég hélt að ég gæti rumpað honum af eins og ég var vanur enda kom ég með allt efnið klippt og vandlega undirbúið. En tæknimaður Ríkisútvarpsins, Björn Eysteinsson, var mér ekki sammála og taldi handritið bjóða upp á flest annað en hroðvirkni. Eina ráðið væri að tölvuvinna þáttinn. Endirinn varð um 10 klst. vinna í hljóðveri.

Mælt er með því að fólk hlusti með góðum heyrnartólum. Dans lækjanna skilaði sér ekki nægilega vel í útsendingu útvarpsins, en hann fór þannig fram að ég stóð á mótum tveggja lækja og sneri mér nokkra hringi. Hlusti menn grannt geta þeir heyrt að tvö systkini, börn Lóu á Skjaldfönn, spyrja furðulostinn hvað ég sé eiginlega að gera.

Einn af dagskrárgerðarmönnum BBC, sem hélt námskeið fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, tók þennan þátt sem dæmi um það sem hægt væri að gera með einu md-tæki og víðómshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krummi krunkar úti

Um þetta leyti ber mikið á hrafni á höfuðborgarsvæðinu. Hann skemmtir mörgum með krunki sínu og athæfi.

Þann 10. febrúar árið 2009 hitti ég að máli Ólaf Nielsen og fékk hann til að segja mér frá hrafninum. Var samtalinu útvarpað tveimur dögum síðar.

Í upphafi syngur Elín Árnadóttir, eiginkona mín, hjálparhella og vinurinn besti, lagið Krummi krunkar úti sem ég gerði handa Birgi Finnssyni, systursyni mínum árið 1967, en þá var hann á þriðja ári. Lagið er samið eftir 5 tóna skalanum og ar einhver baráttusöngur rauðu varðliðanna fyrirmyndin, en ég var þá orðinn Maoisti sem ég hef verið síðan.

Hrafnana, sem koma fram í þættinum, hljóðrituðum við Pétur Halldórsson. Notaði hann Shure VP88 en ég beitti tveimur Sennheiser ME62 sem mynduðu um 100° horn og vísuðu hvor frá öðrum. Samtalið var hljóðritað með Sennheiser ME-65, en hljóðrýmið var þess eðlis að nota varð stefnuvirkan hljóðnema.

´Serstök athygli er vakin á lokum þáttarins. Þá kemur hrafn aðvífandi, sest á handriðið, gaumgærir hljóðnemana og flýgur svo á brott í skyndi. Setjið því á ykkur góð heyrnartól og njótið hreyfingarinnar í hljóðritinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950

Hinn 7. janúar 1950 fórst vélskipið Helgi VE 333 er það lenti á Skelli, boða sem er skammt austan við Faxasker.

Um svipað leyti brast á mikið ofviðri í Vestmannaeyjum sem enn er í minnum haft.

Með Helga fórust 10 menn. Tveir skipverjar komust upp í Faxasker en lík þeirra náðust ekki þaðan fyrr en um 40 stundum eftir að Helgi fórst.

Fyrri þátturinn, sem fylgir þessari færslu, fjallar um sögu Helga allt frá því að kjölur var lagður og þar til yfir lauk. Listi yfir sögumenn og aðra, sem komu að gerð þáttarins, er birtur í lok þáttarins.

Sigtryggur Helgason styrkti gerð þessa þáttar og var höfundi ómetanleg stoð og stytta. Einnig var Sigrún Björnsdóttir, fjölmiðlafræðingur, mér innan handar og gerðist sögumaður þáttarins.

Seinni þátturinn fjallar um þau þrjú skip sem fórust við Faxasker á 20. öld, en þau voru Esther, dönsk skúta, Helgi og Eyjaberg.

Þar segir m.a. frá mikilli svaðilför er Helgi fór til Bretlands í febrúar árið 1943. gunnþóra Gunnarsdóttir var lesari í þættinum ásamt höfundi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vernharður Bjarnason - Venni frændi

Vernharður Bjarnason fæddist 16. júní 1917 og lést 1. mars árið 2001. Hann var einhver mesti frænd æsku minnar í föðurætt, en Benedikt, föðurfaðir minn og Bjarni, faðir Venna, voru bræðrasynir. Bjarni mun m.a. hafa átt hlut að því að fá föður mínum hið góða fóstur hjá þeim hjónum, Sigtryggi Péturssyni og Hólmfríði Magnúsdóttur á Húsavík nokkru eftir að móðir hans dó frá honum rúmlega árs gömlum.

Árið 1992 bað ég Venna að rifja upp kynni sín af föður mínum, Helga Benediktssyni, athafnamanni í Vestmannaeyjum. Venni kunni einhver reiðinnar býsn af sögum og sagði betur frá en flestir sem ég hef þekkt. Varð hann vel við bón minni.

Sjö árum síðar tók ég hann enn tali og bað hann að segja mér frá kynnum sínum af vélskipinu Helga VE 333 sem fórst við Faxasker 7. janúar árið 1950. Notaði ég brot úr þeirri frásögn í útvarpsþætti sem ég gerði um slysið.

Frásagnir Venna frænda hafa aldrei verið birtar í heild. Birti ég þær nú algerlega óklipptar í minningu þeirra frændanna, föður míns og hans. Þeir áttu margt saman að sælda og þótti vænt hvorum um annan. Og móðir mín sagði um Venna að hann væri ráðabesti maður sem hún hefði þekkt og oft óskaði hún þess að Venni réði öllu hér á landi.

Njótið heil.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband