Færsluflokkur: Minningar

Afbrýðisamur köttur - a green-eyed cat

Hjónin Anna María Sveinsdóttir og Hrafn Baldursson í Rjóðri á Stöðvarfirði hafa haldið heimilisketti áratugum saman. Sá, sem nú nýtur atlætis hjá þeim, kallast Moli.

Að kvöldi skírdags, sem bar upp á 17. Apríl í ár sátum við Hrafn í eldhúsinu og las Hrafn fyrir mig upp úr blaðagrein. Mola virtist ekki alls kostar falla við að einhver annar en hann nyti athygli húsbóndans. Kom hann aftur og aftur og mjálmaði. Við reyndum hvor í sínu lagi að hleypa honum út. Hann fór út í dyr, hnusaði að illviðrinu og sneri síðan inn aftur. Sami leikurinn endurtók sig þar til að lokum að honum þóknaðist að hverfa á braut.

Ég gerði nokkrar tilraunir til að hljóðrita hann, en Moli þagnaði yfirleitt ef hljóðritanum var beint að honum. Í eitt skipti hóf hann umkvartanir sínar frammi á gangi og kom nöldrandi inn í eldhúsið. Það hljóðrit heppnaðist og er hér birt án leyfi kattarins.

Hljóðritað var með Olympus LS-11.

 

In English.

Anna María Sveinsdóttir and Hrafn Baldursson in Rjóður at Stöðvarfjörður, Iceland, usually have a cat. The current one, Moli, didn‘t seem to like when Hrafn was reading some article for me in the kitchen of Rjóður in the evening of April 17 this year. He kept on complaining until at last he decided to leave the house.

Recorded with an Olympus LS-11.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæðið Vestmannaeyjar eftir Kristin Bjarnason (1892-1968)

Á þessum síðum hef ég aldrei birt kvæðið um Vestmannaeyjar sem Kristinn Bjarnason, sem var vörubílstjóri í Vestmannaeyjum á 4. Áratug síðustu aldar, orti og átti að flytja á þjóðhátíð árið 1936 eða 1937, en ekkert varð af. Við þetta kvæði setti ég lag árið 1966 og var því útvarpað í fremur frumstæðri útsetningu. Seinna söng Guðmundur Jónsson það í Eyjapistli en þremur árum áður var það útsett fyrir blandaðan kór. Samkór Vestmannaeyja mun hafa sungið lagið á söngferð í Færeyjum, en í Vestmannaeyjum veit ég ekki til að lagið hafi nokkru sinni verið sungið.

Kristinn Bjarnason heimsótti okkur þriðjudaginn 9. Ágúst það sama sumar og gaf mér ljóðabók sína. Þá hljóðrituðum við tvíburarnir lestur hans á kvæðinu.

Hér fyrir neðan er kvæðið birt.

Ég hef í hyggju að láta hljóðrita útsetningu fyrir blandaðan kór á næsta vetri ef efni og ástæður leyfa.

Heimaey, þú hafsins gyðja,

hrikaleg en fögur þó,

þér er helguð öll vor iðja,

athöfn jafnt á landi og sjó.

Storkur elds skal rjúfa og ryðja,

rækta flöt úr hrauni og mó.

Framtíð þeirra og farsæld styðja fortíðin sem erfðir bjó.

Allt í kring um Eyja hringinn Ægisdætur bylta sér,

við austanrok og útsynninginn

um þær vígamóður fer,

léttast brýr við landnyrðinginn

löðra þá við klett og sker,

hæglátar við hányrðinginn

hjala milt um strönd og ver.

Heimaklettur, hafnarvörður,

hæzta tignarsvipinn ber,

eins og hann væri af guði gjörður,

gamla ey, að skýla þér.

Brimi varin Vík sem fjörður,

vatnar yfir Básasker.

„Óðinn“, Baldur“, „Bragi“, Njörður“,

Bóls á festum vagga sér.

Athyglina að sér dregur

Eyjartangi, höfði stór,

þar upp liggur vagna vegur,

víðast kringum fellur sjór.

Fuglabjörg á báðar hendur,

brekka grösug ofan við.

Efst þar vitavirkið stendur vermdarstöð um mannlífið.

Fuglamæður fanga vitja

fjölbreytt eru þeirra störf,

aðrar uppi á syllum sitja.

söngva hefja af innri þörf. Undirleikinn annast sjórinn,

yrkir stormur lag og brag.

Þúsund radda klettakórinn

kyrjar þarna nótt og dag.

Hömrum krýndi Herjólfsdalur,

hátíðanna meginstöð,

skín nú eins og skemmtisalur,

skreytt er fánum tjalda röð.

Njótum dagsins, hrund og halur,

hresst og yngd við sólarböð.

Truflar enginn súgur svalur

söngva hefjum frjáls og glöð.

Hundruð fólks á staðinn streymir,

stundin sú er mörgum kær.

Saga engum gögnum gleymir

þótt gamli tíminn liggi fjær,

skyggnan anda örlög dreymir, atburðirnir færast nær:

Stærstu rökin staðreynd geymir,

stóð hér forðum Herjólfs bær.

Rústir hans úr rökkri alda

risið hafa í nýja tíð,

þar sem skriðan kletta kalda

kviksett hafði fé og lýð.

Sögn er krummi kænn og vitur

konu einni lífið gaf,

meðan urðarbyljan bitur

bóndans setur hlóð í kaf.

Hamragarðsins hæsti tindur,

hjúpaður fjarskans bláa lit,

um þig leikur vatn og vindur,

vanur súg og fjaðraþyt.

Veit ég margan grípur geigur

gægjast fram af hárri brún,

þar sem aðeins fuglinn fleygur

flögrar yfir strandbergs hún.

Yfir þessu undralandi

einhver töfraljómi skín,

sem perludjásn á bylgjubandi

blómgar eyjar njóta sín.

Sær og vindur síherjandi

sverfa fuglabjörgin þín.

Þó er sem vaki vermdarandi,

veiði svo hér aldrei dvín.

Njóttu allra góðra gjafa,

glæsilega eyjan vor,

meðan röðulrúnir stafa

Ránar-flöt og klettaskor.

F'öður, móður, ömmu og afa

enn þá greinast mörkuð spor.

Æskan má ei vera í vafa

að vernda drengskap, kraft og þor.

Sit ég hér á sumarkveldi,

silfrar jörðu döggin tær,

vestrið líkt og upp af eldi

aftanroða á fjöllin slær.

Nóttin vefur dökka dúka,

dularfull og rökkurhljóð.

Blítt í sumarblænum mjúka

báran kveður vögguljóð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tónsnældan - kassettan - fimmtug

Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að Philips í Hollandi setti tónsnælduna eða kassettuna á markað. Óhætt er að segja að snældan hafi valdið byltingu í lífi margra og hún varð eitt helsta hjálpartæki blindra námsmanna. Ekki má gleyma hlut hennar í hljóðbókaútgáfu um þriggja áratuga skeið.
Við tvíburarnir eignuðumst kassettutæki í maí árið 1965, en það reyndist gallað og skiptum við því út fyrir spólutæki.
Sumarið 1967, nánar tiltekið 21. júní, keyptum við kassettutæki hjá Elís Guðnasyni á Eskifirði, en hann flutti þau inn frá Hollandi. Hljóðrituðum við ýmislegt á snælduna sem fylgdi með tækinu. Hún er enn til og hafa tóngæðin haldist allvel.
Fimmtudaginn 24. janúar 2007 minntist ég þess í þættinum "Vítt og breitt" að 40 ár voru liðin frá árinu 1967. Þá dró ég fram snælduna og útvarpaði nokkrum brotum af því sem við hljóðrituðum um sumarið. Einnig slæddist frumútgáfa lagsins Fréttaauka af gamalli útvarpssspólu.
Hljóðritað var með hljóðnemanum sem fylgdi tækinu.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eplaskipið - aðventusaga

Sigtryggur Helgason, sagnameistari og jólabarn

Um þetta leyti árs leitar hugurinn til liðinna stunda. Að morgni aðfangadags söfnuðust ættingjar saman á heimili móður minnar og fengu hjá henni triffli. Þá voru sagðar sögur. Sigtryggur Helgason, sem var næstelstur okkar bræðra, sagði þá gjarnan söguna af því þegar Helgi Helgason VE 343 fór með á 7. tug farþega til Vestmannaeyja á Þorláksmessukvöld. Veðrið var afleitt og tók siglingin 22 tíma.

Sigtryggur birti þessa sögu í jólablaði Fylkis fyrir nokkrum árum. Gunnþóra Gunnarsdóttir las frásögnina í útvarpsþætti árið 2000.

Ég óska hlustendum Hljóðbloggsins gleðilegrar hátíðar og þakka viðtökurnar á undanförnum árum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjörutíu ára farsæld - um sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra Seltjarnarness

 

Sigurgeir Sigurðsson var í hreppsnefnd og síðar bæjarstjórn Seltjarnarness í 40 ár og þar af sveitar- og bæjarstjóri í 37 ár (1965-2002. Það var því heil kynslóð Seltirninga sem ólst upp á tímabili hans.

Veturinn 2006, fjórum árum eftir að hann lét af starfi bæjarstjóra og hætti í bæjarstjórninni, varð að ráði að hann segði mér af ævi sinni. Ríkisútvarpið hafði áhuga á að útvarpa þætti um hann daginn eftir bæjarstjórnakosningarnar þá um vorið og taldi það sæma „þessum nestor íslenskra sveitarstjórnarmanna", eins og það var orðað í tölvuskeyti frá Ríkisútvarpinu.

Sigurgeir tók það skýrt fram að hann vildi gjarnan að samherjar sínir og andstæðingar segðu kost og löst á sér, enda ætti þátturinn ekki að verða nein lofræða. Eftir að ég hafði unnið þáttinn þótti mér frásögnin svo heilsteypt og góð, að ég hvarf frá þessu ráði og féllst hann á það.

Það hefur lengi verið ætlunin að setja þáttinn fjörutíu ára farsæld á hljóðbloggið og veitti Sigurgeir mér heimild til þess veturinn 2010, skömmu eftir að þessi síða var stofnuð. en af ýmsum ástæðum dróst það.

Myndir af Sigurgeiri er að finna m.a. í Ljósmyndasafni Seltjarnarnesss og er mönnum m vísað á þessa tengingu:

Úr fórum ljósmyndasafns Seltjarnarness

 

Tæknilegar upplýsingar

 

Samtölin voru hljóðrituð í febrúar og mars 2006 að heimili Sigurgeirs. Notaðu var Nagra Ares-M hljóðriti og Senheiser ME-62 hljóðnemi. Sigurgeir hélt sjálfur á hljóðnemanum, enda hefur sú aðferð gefist einkar vel, þegar um samfellda frásögn er að ræða. Vi kynningar var notaður Senheiser ME-65 hljóðnemi.

Þátturinn var unnin með Soundforge-hugbúnaði frá Sony.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrjátíu ára gamalt viðtal frá Vestmannaeyjum birt á Völdum greinum

 

Blindrafélagið hefur gefið út hljóðtímaritið Valdar greinar frá árinu 1976. Gísli Helgason stofnaði tímaritið og fékk í lið með sér hinn kunna útvarpsmann, Svein Ásgeirsson, hagfræðing, og las hann ásamt Lions-félögum efni blaðsins fyrstu árin. Tímaritinu var dreift til félagsmanna Blindrafélagsins á snældum og síðar á geisladiskum. Nú er tímaritið einnig á Netinu.

Gísli hefur lengstum verið ritstjóri tímaritsins og rifjar stundum upp gamalt efni úr segulbandasafni Blindrafélagsins. Í síðasta tölublaði er frásögn af ferð Blindrafélagsins til Vestmannaeyja, sem farin var helgina 3.-5. september 1982. Þar átti ég samtal við Ásu Friðriksdóttur, Páll Helgason lýsti því sem fyrir augu bar í skoðunarferð og Jón Eyjólfsson, skipstjóri á Herjólfi, heiðraði hópinn með því að þeyta skipsflautiuna þegar Herjólfur sigldi til Hafnar laugardaginn 4. september, en hópurinn var þá staddur á nýja hrauninu. Gísli kynnir efnið í upphafi og endar pistilinn.

Notaður var Electrovoice RE-50 hljóðnemi og sony TCD-5 segulbandstæki.

Tengil á pistilinn má finna hér fyrir neðan.

Haustferð Blindrafélagsins til Vestmannaeyja 1982

 

Nokkur fleiri viðtöl voru tekin í þessari ferð og birt í þættinum Snerting, sem við Gísli höfðum umsjón með í Ríkisútvarpinu og fjallaði um málefni fatlaðra. Vonandi eru þessi viðtöl enn til.

 


Af baráttu fyrri tíðar - viðtal úr Eyjapistli við Helgu Rafnsdóttur

 

Þriðjudaginn 1. maí árið 1973 útvarpaði Gísli Helgason, annar umsjónarmaður Eyjapistils, viðtali við Helgu Rafnsdóttur, hina ódeigu baráttukonu, sem bjó ásamt eiginmanni sínum, Ísleifi Högnasyni og börnum þeirra hjóna, í Vestmannaeyjum um langt árabil.

Viðtalið er birt hér að ábendingu umsjónarmanns.

Helga Rafnsdóttir

 


Tiggy, fyrsti leiðsöguhundurinn á Íslandi

Veturinn 2006-7 birtust athyglisverðir pistlar á Morgunblaðsblogginu, þar sem Helena Björnsdóttir lýsti þjálfun sinni með leiðsöguhundinum Fönix, en hún býr í Noregi. Urðu þeir til þess að efla mjög áhuga fólks hér á landi á leiðsöguhundum og hrundið var af stað átaki til þess að þessi þörfu hjálpartæki yrðu fengin hingað til lands.

Árið 1957 fékk Gunnar Kr. Guðmundsson leiðsööguhund. Ég útvarpaði frásögn hans um hundinn Tiggy í þættinum "Vítt og breitt" sumarið 2006. Fylgir þátturinn hér með þessari færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Bláa dísin heimsækir útvarpið annað kvöld"

Föstudaginn 5. janúar árið 1962 barst mér eftirfarandi símskeyti:

„Bláa dísin heimsækir útvarpið annað kvöld. Svavar.“

Sumarið áður lék Hljómsveit Svavars Gests fyrir dansi á þjóðhátíð Vestmannaeyja. Mig bar þar að, sem hljóðfæraleikari í hljómsveitinni var að spjalla við einhvern Vestmannaeying og þegar hlé varð á samræðunum, spurði ég: „Afsakið, eruð þér í Hljómsveit Svavars Gests?“

Hljóðfæraleikarinn, sem var reyndar gítarleikari og hét Örn Ármannsson, spurði, hver væri svona kurteis og vakti athygli Svavars á þessum 9 ára gamla snáða, sem kunni að þéra. Þar með hófust kynni okkar Svavars, sem stóðu á meðan báðir lifðu.

Svavar komst að því að ég hefði gaman af að búa til lög og fékk mig til þess að leika nokkur þeirra fyrir sig inn á segulband. Þeim hef ég nú flestum gleymt. Þar á meðal var rúmban „Bláa dísin“, sem ég setti saman norður á Laugarbakka í Miðfirði mánudaginn 28. ágúst sumarið 1961, en þar vorum við tvíburarnir og móðir okkar í heimsókn hjá heiðurshjónunum Skúla Guðmundssyni og Jósefínu Helgadóttur. Svavar ákvað að taka Bláu dísina til flutnings í þætti, sem var á vegum Félags íslenskra dægurlagahöfunda, en þeim þáttum var útvarpað um árabil á þrettándanum. Hann fékk Jón Sigurðsson, trompetleikara, til þess að leika lagið með hljómsveitinni.

Frumritþáttarins hefur ekki varðveist hjá Ríkisútvarpinu. Veturinn 1990-91 sá Svavar um þætti sem hann nefndi „Sungið og dansað í 60 ár“, þar sem rakin var saga íslenskrar dægurlagatónlistar. Í þættinum, sem fjallaði um dægurlagahöfunda frá Vestmannaeyjum, lék hann hljóðrit af Bláu dísinni. Einhver hefur hljóðritað þáttinn úr langbylgjuútvarpi, eins og heyra má á meðfylgjandi hljóðriti.

Hér birtist nú Bláa dísin enn á ný í tilefni þess að þann 6. janúar verða liðin 50 ár frá frumflutningi hennar. Svavar og hljómsveit hans léku lagið á tónleikaferðum sínum um landið þá um sumarið og lék þá Finnur Eydal laglínuna á klarínett. Þá útgáfu heyrði ég í Vestmannaeyjum og fannst hún jafnvel hljóma betur en trompet-útgáfan.

Ekki man ég nú, hvers vegna ég skírði lagið Bláu dísina. Sennilega er fyrirbærið komið úr sögunni um spýtustrákinn Gosa, en þar varð Bláa dísin honum bjargvættur.

Því miður eru hvorki varðveitt frumrit á Ríkisútvarpinu af þáttum Svavars á vegum Félags íslenskra dægurlagahöfunda. Veturinn 1964-65 sá Svavar um þáttinn „Á svörtu nótunum“, þar sem hann kynnti íslensk og erlend dægurlög. Þar á meðal flutti hann lag Oddgeirs Kristjánssonar „Þar sem fyrrum“ við texta Ása í Bæ og miðvikudaginn 24. mars árið 1965 voru á dagskrá þáttarins lög eftir okkar tvíburana. Mitt lag hét Heimþrá og var í fremur Shadows-legri útsetningu. Sennilega finnst það lag nú hvergi nema í minni höfundarins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þýsk æskujól

Martina Brogmus (ljósmynd).

Martina Brogmus fluttist hingað til lands frá Þýskalandi árið 1981 ásamt Sigurjóni Eyjólfssyni, manni sínum. Hún rifjaði upp fyrir mér æskujólin. Pistlinum var útvarpað í þættinum Vítt og breitt 27. desember 2007, en frásögnin er sígild. Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Sennheiser MD-21U hljóðnema, en hann var hannaður um svipað leyti og hún fæddist.

i


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband