Færsluflokkur: Minningar

Atburðirnir í Ísafjarðardjúpi 4. febrúar 1968

Veturinn 1968 var fádæma illviðrasamur og urðu miklir mannskaðar á sjó hér við land.

Fárviðri gekk yfir Vestfirði fyrstu dagana í febrúar og var verst á Ísafjarðardjúpi. Heiðrún II frá Bolungarvík fórst með sex mönnum. Varðskipið Óðinn bjargaði átján manna áhöfn breska togarans Notts County sem strandaði við Snæfjallaströnd. Annar breskur togari, Ross Cleveland, sökk og fórust nítján manns en einn, Harry Eddom, fannst á lífi eftir hrakninga í hálfan annan sólarhring.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sýnir Sólveigar Eggerz á Bessastöðum

Sólveig Eggerz, listmálari, er næm kona og hefur orðið vör við ýmislegt sem fæstir skynja, enda er skyggnigáfa ekki óþekkt í ættum hennar.

Haustið 1998 sagði hún mér frá sýnum sem henni birtust þegar hún vann við að mála vatnslitamyndir á Bessastöðum í boði Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta. Myndir sólveigar voru gefnar út á póstkortum sem nú eru orðin næsta fágæt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í minningu Hauks Lárusar Haukssonar

Þriðjudaginn 23. þessa mánaðar greindi Morgunblaðið frá því að Haukur Lárus Hauksson, blaðamaður og ráðgjafi, hefði látist á Landspítalanum við Hringbraut 21. nóvember síðastliðinn eftir áralanga baráttu við krabbamein.

Haukur var fæddur í Reykjavík 28. júní 1957 og voru foreldrar hans hjónin Edith Olga Clausen húsfreyja og Haukur Bragi Lárusson vélstjóri. Hann var yngstur í hópi þriggja systkina, en systkini hans eru Elísabet Hauksdóttir og Karl Pétur Hauksson.

Haukur ólst upp í Langholtshverfinu í Reykjavík. Hann bjó í Danmörku á árunum 1980-1987 en þar stundaði hann nám í sálfræði. Haukur starfaði lengst af sem blaðamaður á DV. Á síðustu árum starfaði hann sem ráðgjafi í almannatengslum hjá fyrirtækinu AP almannatengsl.

Haukur var virkur í baráttu sinni við krabbamein. Hann ferðaðist meðal annars um landið með fyrirlestur um glímu sína við sjúkdóminn. Haukur var einn stofnenda félagsins Framför en það stendur fyrir átakinu Karlar og krabbamein.

Haukur giftist Heru Sveinsdóttur, fótaaðgerðafræðingi, 30. desember 1982. Börn þeirra eru Arinbjörn, ferðamálafræðingur, í sambúð með Láru Sigríði Lýðsdóttur og Edda Þöll, sjúkraliðanemi og starfsmaður á hjúkrunarheimilinu við Sóltún.

Leiðir okkar Hauks lágu saman sumarið 2007. Þá fékk ég það verkefni á vegum Morgunblaðsins að ræða við Þráin Þorvaldsson og fleiri um nýjungar í meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli. Skömmu eftir að greinin birtist hringdi Haukur og vakti athygli mína á ýmsum staðreyndum sem snerta krabbamein og fæðuval. Varð að ráði að hann kæmi til mín og ræddi þessi mál í útvarpsviðtali.

Um þetta leyti var ég með fasta pistla í Ríkisútvarpinu á fimmtudögum og hugðist útvarpa viðtölunum þar. Öðru þeirra var útvarpað að hluta, en öðrum umsjónarmanni þáttarins hugnaðist það ekki og rauf útsendinguna áður en því lauk. Seinna viðtalinu var því aldrei útarpað. Hins vegar var það birt á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.

Ég ræddi við Hauk stuttlega í síma í fyrravetur vegna starfa minna á vegum Viðskiptablaðsins. Hann var þá farinn að vinna heima. Þrekið fór þverrandi enda sótti sjúkdómurinn á. Hann sagðist láta hverjum degi nægja sínar þjáningar en hlakkaði jafnan til þess að fá að lifa einn dag enn.

Til minningar um þennan æðrulausa og hugdjarfa baráttumann eru viðtölin birt sem hljóðskrár með þessari færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jón Ragnar Haraldsson í Gautsdal segir frá rjúpna- og refaveiðum, Jónasi frá Hriflu, Sveini frá Elivogum og fleira

Jón í Gautsdal talar enga tæpitungu (ljósmynd).

Eins og áður segir á þessum síðum sóttum við Ingi Heiðmar Jónsson heim öldunginn Jón Ragnar Haraldsson, bónda í Gautsdal í Austur-Húnavatnssýslu þegar við vorum á ferð um Húnaþing 17. september síðastliðinn. Hér er birtur drjúgur hluti samtals þeirra Jóns og Inga Heiðmars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svaðilfarir við mjólkurflutninga 12. janúar 1975

Jón Ragnar Haraldsson, bóndi í Gautsdal

Föstudaginn 17. september síðastliðinn vorum við Ingi Heiðmar Jónsson á ferð um æskuslóðir hans í Austur-Húnavatnssýslu. Þá heimsóttum við Jón Ragnar Haraldsson, bónda í Gautsdal. Hann flutti þangað með foreldrum sínum árið 1929 þegar hann var 5 ára gamall og hefur búið þar alla tíð síðan.

Jón tók okkur afar vel og féllst á að við hljóðrituðum frásagnir hans. Hann talaði tæpitungulaust og þannig að frásagnir hans njóta sín fyrst og fremst sé hlustað á þær.

Jón er óneitanlega mikið hreystimenni og hefur lítt hlíft sé þótt skrokkurinn sé fremur veikbyggður og reyndar handónýtur eins og hann orðaði það. Hann fæddist árið 1924 og er enn ótrúlega hraustur. Þegar við héldum úr hlaði voru gangnamenn að koma með tugi hrossa til hans sem hann ætlaði að geyma þá um nóttina.

Við sátum hjá Jóni í eldhúsinu. Hann sneri ekki ævinlega að hljóðnemanum og ber hljóðritið þess nokkur merki. en frásögnin var óþvinguð og eðlileg og andrúmsloftið kemst vel til skila. Spyrill auk undirritaðs var Ingi Heiðmar, en þeir Jón þekkjast og Ingi Heiðmar þekkti einnig föður hans.

Þann 12 janúar árið 1975 lenti Jón í ótrúlegum hremmingum þegar hann þurfti að koma frá sér mjólkinni, en færi var þá afleitt vegna snjóa. Áður en sú frásögn hófst vikum við talinu að kveðskap og spurðum hvort hann hefði ekki ort eitthvað eins og margir Húnvetningar. Að lokum leiddist svo talið að dráttarvél sem var lengi á býlinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Elsa á Bítlatónleikum

Veturinn 2007 var haldið skemmtikvöld á vegum starfsmanna Öskjuhlíðarskóla. Þar sagði Birgir Þór Baldursson, kennari, frá ferð á Bítlaslóðir í Liverpool og annar kennari, Elsa Guðmundsdóttir, frá því er hún fór á bítlatónleika í borginni Brighton í Bretlandi sumarið 1964, en hún var þar á sumarskóla. Frásögn Elsu var fyrir ýmsa hluti stórmerkileg og fékk ég hana til að segja mér hana inn á Nagra-hljóðpelann. Ég útvarpaði hluta frásagnarinnar í þættinum Vítt og breitt þá um vorið en varð að stytta hana talsvert. Hér birtist hún óstytt - öllu innihaldi pelans hellt gagnasafn mbl.is.

Elsa tók myndir á tónleikunum og faðir hennar, sem var ljósmyndari, hjálpaði henni við að framkalla þær og lagfæra.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reiðhjól og flutningabíll fara yfir brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi

Í ágústbyrjun 1998 vorum við Elín á leið austur á Stöðvarfjörð. Áðum við hjá lóninu á Breiðamerkursandi og nutum veðurblíunnar. fórum við undir eystri sporð brúarinnar og hófumst handa við hljóðritun. Ég var með Sony minidisk-tæki og Sennheiser MD21U hljóðnema. Skömmu eftir að við hófumst handa fór reiðhjól vestur yfir brúna og rétt á eftir stór og þung vörubifreið. Hvílíkur munur! Brúin eins og skall niður og stundi lengi á eftir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavíkurhlaupið 1998

Árið 1997 fylgdumst við Elín með hlaupurum skeiða framhjá Tjarnarbóli 14 í aðdraganda menningarnætur. Þegar ég hófst handa við þáttagerð fyrir Ríkisútvarpið árið 1998 eftir nokkurt hlé ákvað ég að hljóðrita hlaupið. Ég hljóðritaði ýmislegt fleira þá um sumarið sem mér þótti tilvalið að útvarpa.

 

Notaður var lítill Audiotechnica víðómshljóðnemi. Ég stóð hjá hljóðnemanum og heilsuðu mér því ýmsir eins og heyra má. Þar má meðal annara heyra í Boga Ágústssyni og Eygló Eiðsdóttur sem vann þá á Blindrabókasafni Íslands.

Ef grannt er hlustað heyrist íþróttagarpurinn Jón Sigurðsson frá Úthlíð fara framhjá á hjólastóli.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Látinn maður forðar sonarsyni sínum frá bráðum bana

Bryndís Bjarnadóttir frá Húsavík

Bryndís Bjarnadóttir fæddist á Húsavík árið 1923, dóttir hjónanna Bjarna Benediktssonar og Þórdísar Ásgeirsdóttur, merkra heiðurshjóna. Ég heimsótti hana fyrir skömmu og sagði hún mér sitthvað af ættingjum okkar, foreldrum sínum og sjálfri sér. Bryndís er eins og systkini hennar, mikil sagnakona og minnug. Þess má geta að undir flokknum vinir og fjölskylda á þessum síðum, eru tvær frásagnir bróður hennar, Vernharðs Bjarnasonar, af samstarfi og kynnum sínum af Helga Benediktssyni og vélskipinu Helga VE 33, en Vernharður vann hjá frænda sínum í nokkur ár í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.

Mánudaginn 16. ágúst síðastliðinn heimsótti ég Bryndísi og sagði hún mér þá frá því er faðir mannsins hennar, Þórhallur Sigtryggsson, bjargaði lífi Sigtryggs Sigtryggssonar, sonar Bryndísar og Sigtryggs Þórhallssonar haustið 1960, en Sigtryggur var þá 10 ára gamall. Lesendur Morgunblaðsins kannast flestir við Sigtrygg, en hann hefur unnið á blaðinu árum saman.

Frásögn Bryndísar ber ljósan vott um skyggnigáfu þá eða ófreski sem er algeng í ættinni. Þess skal getið að farðir Bryndísar og afi minn, Benediktt Kristjánsson, voru bræðrasynir og erum við Sigtryggur Sigtryggsson, sem greinir frá í frásögn móður hans, því fjórmenningar.

fyrir þá sem hafa gaman af tæknimálum skal þess getið að notaður var AKG DM-230 hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðheimur æskunnar - Herjólfsdalur

Ágústsíðdegi í Herjólfsdal (ljósmynd).

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.

Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband