Færsluflokkur: Minningar

Áhrif vindsins og nýting hans

Um verslunarmannahelgina 2007 vorum við Elín í Skálholti og gerðum þaðan út um suðurland. Norðan hvassviðri var allan tímann og setti það svip sinn á það sem var hljóðritað. Ég hafði meðferðis Nagra Ares-m hljóðrita, víðómshljóðnema sem smellt er á tækið og einn ME62 hljóðnema frá Sennheiser. Ég útvarpaði örstuttum pistli um ferðina og verða hlustendur að sætta sig við kynningar mínar því að frumgögnin eru mér ekki tiltæk af einhverjum ástæðum. Atriðin eru þessi:

Vindurinn leikur sér að fánaborginni í Skálholti, pólskir ferðalangar berjast á móti vindinum í Þjórsárdal, Lars Eek leikur á harmoniku í Árnesi og lúpínan sprengir fræbelgina.

Til þess að ná hljóðinu í fánaborginni varð ég að leggjast á jörðina. Hið sama var upp á teniningnum með lúpínuna. Þá notaði ég ME62 og lét hann eiginlega liggja á jörðinni. Annars hefði vindurinn náð yfirhöndinni, en gnauðið heyrist eigi að síður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bílskúrshljómsveitir - legið á hleri

Veturna 2005 og 2006 æfði sig ungur trommuleikari í bílskúr andspænis Tjarnarbóli 14 og bárust slög hans um nágrennið á kyrrum vetrarkvöldum. Fylgdist ég með því hvernig honum fór stöðugt fram.

Veturinn 2006 hvarf hann um skeið úr bílskúrnum. Um vorið kom hann síðan aftur og þá hálfu öflugri en fyrr. Nú hafði hann með sér heila hljómsveit sem æfði fyrir unglingahátíð á Seltjarnarnesi. Eftir hádegi einn föstudag í maí 2006 var mild vestangola eins og oft um þetta leyti árs og piltarnir í bílskúrnum voru í ham. Heilmikið var um að vera, talsverð umferð bíla og flugvéla og hljóðumhverfið hið ákjósanlegasta. Stalst ég til að hljóðrita og stillti shure VP88 upp á borði úti á svölum. Notaður var Nagr Ares-M hljóðriti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig hljóma togvíraklippur?

Togvíraklippurnar reyndust vel í baráttunni við landhelgisbrjóta (ljósmynd Elínar Árnadóttur)Þann 29. júní 2009 skoðuðum við hjónin okkur um á Ísafirði. Við eyddum allnokkrum tíma á Sjóminjasafninu sem er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og mættu Vestmannaeyingar margt af Ísfirðingum læra í þeim efnum. Helst þótti mér á skorta að hljóð heyrðust úr horni. Einhver af gömlu bátunum með glóðarhausvél hefði mátt vera í gangi og minna á gamla daga.

Þegar við héldum áleiðis frá safninu sáum við hvar þrír piltar börðu einhver tól, en að sögn þeirra var verið að undirbúa þau undir málningu. Í ljós kom að þetta voru hinar frægu togvíraklippur sem ollu breskum togarasjómönnum sem mestu tjóni í síðustu þorskastríðunum. Féllust piltarnir á að leika listir sínar en ég hét þeim að útvarpa listaverkinu við fyrstu hentugleika. Því er hvaða útvarpsstöð sem er heimilt að senda þessa hljóðmynd út á öldur ljósvakans.

Vakin er athygli á heiti hljóðritsins. Áréttað skal að piltarnir voru þrír enda sannar myndin það svo að ekki verður um villst. Gaman væri að fá nöfn piltanna í athugasemd við þessa færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðrembusyrpa á sautjándanum og fleira gott

Við Elín tókum þátt í sautjándanum af lífi og sá, hún á upphlut og bóndi hennar á íslenska þjóðbúningnuml. Í Dómkirkjunni nutum við þess að hlusta m.a. á eftirspil Arnar Magnússonar sem lék stef úr Rímnadönsum Jóns Leifs, og um kvöldið nutum við þess sem á boðstólnum var í miðborg Reykjavíkur. Er þá öllu sleppt sem gerðist millum messu og aftans og hvorki minnst á menningu né allt fólkið sem við hittum.

Hljóðsýnin eru að þessu sinni 3. Staldrað við á Ingólfstorgi og hlustað á Varsjárbandalagið flytja íslensk-balkneska þjóðrembusyrpu, rölt eftir Lækjargötu í átt að Arnarhóli að hlusta á Hjaltalín og að lokum gengið eftir Aðalstræti. Notaðir voru örsmáir Sennheiser hljóðnemar sem festir voru á gleraugnaspangir og fór enn sem fyrr að fólk hélt að þetta væri nýjasta hjálpartækið mitt. Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti og tekið upp í 24 bitum og 44,1 kílóriðum.

Fólki er eindregið bent á heimasíðu Varsjárbandalagsins á Fésbókinni, en þar getur það gerst aðdáendur þessarar skemmtilegu hljómsveitar, horft á myndbönd o.s.frv.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Búðaráp í Beijing 9. ágúst 1986

Við Emil Bóasson dvöldumst í Beijing um nokkurra vikna skeið sumarið 1986. Helst höfðum við það fyrir stafni að hitta forystumenn í kínversku mennta- og menningarlífi ásamt hagfræðingum, ferðamálafrömuðum og Íslandsvinum. Öfluðum við efnis í þætti handa ríkisútvarpinu sem tengdust flestir með einum eða öðrum hætti Beijing. Við sóttum einnig heim ýmsa trúarsöfnuði og sumt af þessu efni rataði inn í þætti okkar sem urðu 8 ef ég man rétt. Okkur var hvarvetna vel tekið. Kann skýringin að hafa verið sú meðal annars að Steingrímur Hermannsson var þá væntanlegur í heimsókn um haustið. Kínversku viáttusamtökinn áttu einnig drúgan hlut að málum.

Við fórum á stúfana að morgni laugardaginn 9. ágúst 1986 og gengum á milli verslana í hverfinu Jiaodakou þar sem við bjuggum. Emil, sem er afbragðs sögumaður og vel máli farinn, lýsti varningnum sem á boðstólum var og sagði frá verði hlutanna. Rétt er að taka fram að þá voru 12 íslenskar krónur í einu Rnminbi og umreiknuðum við verðið jafnóðum til íslensks verðgildis. Þá voru meðalaun embættismanna 100 Renminbi og höfðu þá hækkað um tæp 90% frá árinu 1975.

Gríðarlegar breytingar harfa orðið á kjörum almennings á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan þetta hljóðrit var gert. Auk Emils ber ýmislegt fyrir eyru. Hlustendur taka væntanlega eftir því hvað reiðhjól voru áberandi í umferðinni á þessum tíma. Samt þótti okkur nóg um bílaumferðina í miðborg Beijing árið 1986.

Hljóðritað var með Sony TCD5 snældutæki og Shure 63L hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rigning í Beijing og á Ísafirði

Vatnið er ótrúleg uppspretta alls kyns hljóða.

Þann 9 ágúst 1986 átti ég mjög athyglisvert viðtal við tvær ungar stúlkur austur í Bejing. Vinurminn og félagi, Emil Bóasson, lagði einnig til spurningar enda vorum við saman við að afla okkur efnis í 8 þætti fyrir Ríkisútvarpið. Eftir að viðtalinu lauk urðu nokkuð ákafar umræður á milli okkar Emils og stúlknanna og hlaust af nokkur hávaði. Við bjuggum þá á gistiheimili Vináttusamtakanna í Beijing sem er í gömlu og rótgrónu hverfi sem nefnist Jiaodakou eða Vegamót. Kom húsvörður til þess að vita hvað gengi á. Honum var sagt að einungis stæðu yfir rökræður og hvarf hann á braut. Stúlkurnar hurfu líka á brott skömmu síðar.

Þegar þær voru nýfarnar skall fyrirvaralítið á ógurlegt úrhelli með þrumum og eldingum. Við Emil ræddum að þetta væri eins og í byltingaróperu, en þegar leikar stæðu þar hæst skylli einatt á þrumuveður, samanber 1. þátt Rauðu kvennaherdeildarinnar. Ég stóðst ekki mátið þrátt fyrir áhyggjur af stúlkunum, opnaði dyrnar og hljóðritaði ósköpin. Einungis þéttriðið flugnanet var á milli mín og rigningarinnar.

Hinn 29. júlí árið 2009 vorum við Elín á Ísafirði. Um 5-leytið síðdegis fór hún að kaupa í matinn en ég beið í bílnum. Þungbúið hafði verið um daginn en þegar Elín fór í innkaupaleiðangurinn gerði hellidembu. Ég stóðst ekki mátið og hljóðritaði það sem fyrir eyru bar.

Heilmikill munur er á þessum rigningum. Fyrra hljóðritið er gert með Sony TCD5. Notuð var Sony metal-snælda. Hljóðneminn var Sennheiser MD21U.

Tuttug og fjórum árum síðar notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema. Rigningin á Ísafirði var ekki eins þétt og í Beijing og hvorki fylgdu þrumur né eldingar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útidansleikur í Maastricht

Ég hef tvisvar komið til Maastricht í Hollandi, árið 1992 og 2005. Elín var með mér í bæði skiptin og árið 2005 slóst Hringur Árnason, þá á 11. ári, í för með afa og ömmu.

Ég eyddi tímanum að mestu á námskeiði um löggjöf Evrópusambandsins um málefni fatlaðra. Námskeiðinu lauk laugardaginn 25. júní. Veðrið var yndislegt og ákváðum við að skoða borgina. Á rölti okkar rákumst við á hóp fólks sem skemmtil sér konunglega við dans á litlu torgi. Á palli stóðu tveir tónlistarmenn, trumbuslagari og harmonikuleikari. Annar þeirra söng af hjartans list.

Leikur þeirra félaganna minnti mig á jólaböllin í Vestmannaeyjum í árdaga en þar léku menn alls kyns lög á trumbur og harmoniku, jafnvel bítlalög. Ég var með Nagra Ares BB hljóðpela meðferðis og dreypti ég á hann einu lagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Svipirnir í hrauninu - málverkasýning

Sólveig Eggerz Pétursdóttir, listmálari.Þriðjudaginn 25. maí verður opnuð á Hrafnistu í Hafnarfirði sýning Sólveigar Eggerz Pétursdóttur. Allar myndirnar eru málaðar á þessu og síðasta ári.

Sólveig Eggerz er landskunn fyrir list sína. Hún varð fyrst manna hér á landi til að mála á rekaviðarspýtur og báru þau verk hróður hennar víða um lönd.

Að undanförnu hefur Sólveig orðið að leggja olíulitina á hilluna og hefur tekið að mála með akríl-litum í staðinn. Í meðfylgjandi viðtali lýsir hún listsköpun sinni og því hvernig hún hefur tekist á við breyttar aðstæður.

Sólveig fæddist 29. maí árið 1925 og verður því 85 ára á kosningadaginn. Sjálf hefur hún það eftir einum dóttursonarsyni sínum að hún sé 29 ára og ætlar að vera það svo lengi sem henni endist aldur.

Viðtalið var hljóðritað í samkomusal Hrafnistu í Hafnarfirði 23. maí 2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vorkvöld í Skerjafirði

Stundum er algert logn við Skerjafjörðinn á kvöldin. Vorkvöld eitt í maí árið 2006 hljóðritaði ég umhverfið við göngustíginn framan við Skildingatanga. Viðstaddur var fullorðinn hundur sem nú er allur. Hann var stundum pirraður vegna þess að vegfarendur fóru í leyfisleysi um stíginn án þess að virða meintan rétt hans til yfirráða og gæslu.

Veðrið var svo gott að ég gat notað Shure VP88 hljóðnema án þess að verja hann með vindhlíf. Hljóðritað var með Nagra Ares-M á 44,1 kílóriðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

fyrsti maí á Austurvelli 2010

Fyrsti maí var haldinn hátíðlegur á Austurvelli. Áður en fundur hófst varð fljótt ljóst að Alþingi götunnar undir forsæti Þorvalds Þorvaldssonar léti talsvert til sín takaog setti það sérstæðan svip á samkomuna. Slóg lið hans upp skjaldborg með táknrænum áletrunum og lét allófriðlega, jarmaði, baulaði og hafði í frammi önnur götulæti.

Hér verður birt hljóðrit af nokkrum hluta fundarins. Varaformaður Eflingar flutti ávarp og í lokin flutti formaður Landsambands framhaldsskólanema ræðu. Fundinum lauk síðan með Nallaum sem Lúðrasveit verkalýðsins og Svanur fluttu. fór þá sæluhrollur um hljóðritarann og hugsaði hann um gömul og góð lög eins og Syngjum um hinn mikla, réttláta og óskeikula, kínverska kommúnistaflokk.:)

Auglýst hafði verið að hljómsveitin Hjaltalín flytti baráttutónlist. Í staðinn framdi hún hávært popp með enskum textum og lagði þannig lið þeirri viðleitni að ganga á milli bols og höfuðs á íslenskri tungu. Kunnu hennir ýmsir litla þökk fyrir.

Ég var með 2 örsmáa hljóðnema frá Sennheiser sem ég festi á gleraugnaspangir. Héldu sumir að ég væri með nýtt hjálpartæki sem hjálpaði mér að skynja umhverfi mitt.

Hljóðritað var á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband