Færsluflokkur: Fuglar

Kalsasamt ástarkrunk

Í dag setti ég tvo ME-64 hljóðnema út á svalir með loðhlífum. Ætlunin var að bera þá saman við ME-62. Stynningskaldi var á af suðvestri og rúmlega það. Því var kjörið tækifæri til slíks samanburðar.

Ég hugðist einungis gera skammvinna tilraun, en tveir hrafnar krunkuðust á í næsta nágrenni og voru greinilega hrifnir hvor af öðrum. Virtust þeir hafa allan hugann við ástarleik sinn og létu rokið ekkert á sig fá. Mér þótti hins vegar miður hvað vindurinn var hávaðasamur.Ég hélt því áfram og ákvað að láta afraksturinn flakka.

Skömmu eftir að hrafnarnir höfðu lokið sér af setti ég Sennheiser ME-62 upp með loðhlífum. Sem vænta mátti þoldu þeir betur saggaganginn í Kára. Í báðum hljóðritunum var skorið af 80 riða tíðninni í eftirvinnslu. Frumritið var hljóðritað með Nagra Ares BB+ og þá skorið af 100 riðunum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjölbreytileg hljóð hrafna

Það reyndist meira af krummakrunki frá sunnudeginum 13. mars 2011 á minniskorti Nagrans en ég hugði.

Í fyrra hljóðritinu slettir krummi í góm með ýmsum tónbrigðum og í hinu seinna krunkar hann í eins konar níund.

Umferð ökutækja spillir nokkuð fyrir en þetta er veruleiki þess samfélags sem Íslendingar hafa kjörið sér.

Væri ekki ráð að stofna hagsmunasamtök hljóðritara og banna alla umferð vélknúinna ökutækja svo sem einu sinni á hverjum ársfjórðungi? Af því hlytist mikill sparnaður. Undantekningar yrðu sjúkra- slökkviliðs og lögreglubifreiðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Listfengir hrafnar

Í þrjú ár hef ég gert nokkrar atrunnar að því að hljóðrita hrafna. Margra klukkustunda hljóðrit hafa skilað litlum árangri þar til í morgun að náðist 5-6 mínútna sæmilega heillegt hljóðrit. Þar krunkuðu hrafnar á ýmsa vegu. Þótt umferðarhávaðinn sé nokkur má þó greina að þeir sletta í góm o.s.frv.

Ég þyrfti að komast fjær umferðinni til þess að ná betri hljóðritum af hröfnum og öðru fiðurfé.

Á næstu dögum verða birt nokkur hljóðrit frá 11. og 13. mars þar sem koma við sögu vindurinn og fulgar.

Notður var Shure VP88 á miðstillingu. Hljóðneminn var hafður í Blimp-vindhlí.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunn á svölunum í mars

 

 

Á kyrrum vetrarmorgni í úthverfi stórborgar gera sé fáir grein fyrir þeim fjölda hljóða sem berst að eyrum fólks og rýfur kyrrðina. Þetta gerist jafnvel þótt úthverfið sé sjálfstætt sveitarfélag.

Í morgun var ttalsverður atgangur hrafna. Greip ég lítinn hljóðrita, skellti á hann vindhlíf og setti út á svalir. Eftir það flugu einungis tveir hrafnar framhjá og krunkuðu. Ýmislegt annað barst að eyrum.

Látið ykkur dreyma með góð heyrnartól á höfðinu. Lygnið aftur augunum og ímyndið ykkur hhvað þi sjáið og hvernig veðrið var.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lóukvak í nóvember

Síðustu haust hafa verið með mildasta móti og hefur brottför margra fuglategunda seinkað héðan fyrir vikið. Til dæmis voru lóur á vappi á túninu hjá Sigurbjörgu Ólafsdóttur við Lambhaga á Álftanesi framundir jól í fyrra.

Þann fyrsta nóvember í fyrra vorum við Elín á göngu um Suðurnesið og heyrðum það að mikið var buslað og svamlað í Daltjörninni. Var þar hópur fugla og mikið kvakað. Fuglana bar svo í sólina sem var lágt á lofti að Elín átti erifitt að greina hvaða fuglar voru þar á ferð en taldi sig þekkja að þar væru lóur á ferð. Kvakið þótti okkur torkennilegt. Hljóðritinn var meðferðis og var því brugðið upp tveimur hljóðnemum að fanga kvakið. Síðar staðfesti Jóhann Óli Hilmarsson að hér væri um vetrarkvak lóunnar að ræða, en lóan kvakar öðruvísi þá en á vorin og sumrin.

Það er ekki langt síðan við Elín heyrðum í lóunni á Seltjarnarnesi og ef til vill er hún hér enn. Fróðlegt væri að frétta frá hlustendum hvort þeir hafi séð til lóunnar nýlega. Ef til vill væri rétt að reyna að koma sér austur í Friðlandið í Flóa að forvitnast um hvort enn sé þar kvakað.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðheimur æskunnar - Herjólfsdalur

Ágústsíðdegi í Herjólfsdal (ljósmynd).

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.

Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á sunnanverðri Grímsey

Horft að vitanum úr norðaustri (ljósmynd)

Eftir hádegi 22. júlí blés hann upp með suðvestan kalda í Grímsey. Syðst á eyjunni stendur viti. Í nánasta umhverfi hans er fjölbreytt hljóðumhverfi sem seint verður fangað. Brimið brotnaði þar á klöppunum. Skilyrði til hljóðritunar voru ekki góð vegna vindsins. Ég brá því á það ráð að setja upp blimp-vindhlíf, troða í hana Shure VP88 hljóðnema, stilla á mið-víðóm og klæða síðan allt saman í loðkápu.

Ég hlustaði grannt eftir því sem hljóðritað var, bæði með heyrnartólum og með berum eyrum. Einkenilegt var hvað hljóðdreifingin var lítil. Ef til vill hefur vindurinn valdið þar nokkru um.

Um kvöldið gerði stililogn og fórum við Elín þá í göngu um nágrenni vitans ásamt dönskum hjónum. Þá brá svo við að álkan hafði talsvert til málanna að leggja og irtust fáir hafa áhuga á að muldra í kapp við hana. Hljóðnemarnir voru fjarri og þess vegna á ég erindi út í Grímsey til þess að hljóðrita álkuskvaldrið.

Morguninn eftir héldum við Elín enn á þessar slóðir. Fátt var um fugl í klettunum en þeir héldu sig þó nærri landi. Þá náði ég einstæðri hljóðritun af spjalli nokkurra langvía og greina þær sig vel hver frá annarri. Jafnvel heyrast ein eða tvær athugasemdir frá spakvitrum lundum. Hlustendum er eindregið ráðið að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum eða hátölurum svo að minnstu blæbrigði njóti sín.

Ljósmyndin var tekin vð þetta tækifæri og enn sem fyr var það Elín Árnadóttir, sérlegur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins sem tók myndina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Unaðsstund við Miðgarðaurð

Allt iðar af lífi við Miðgarðaurðina. Ljósmynd: Elín Árnadóttir.

Við sigldum norður undir eyjaroddann, en þá var kominn suðvestan kaldi og taldi Sæmundur ekki vert að sigla norður fyrir og suður með vesturströndinni. Því var snúið við. Elín bað Sæmund að nema staðar við Miðgarðaurðina og samferðafólkið samþykkti að hlusta með mér á yndisleik þess sem fyrir augu og eyru bar, sjávarhljóðið, langvíuna og önnur kvik flygildi.

Síðan flautaði Þórir Sæmundsson til heimferðar og vélin var sett í gang.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sigling með vélbátnum Steina í Höfða

Sæmundur Ólafsson um borð  í Steina í Höfða

Við Elín vorum í Grímsey 21.-23. júlí og nutum hins besta atlætis. Samvistum við okkur voru frænkurnar Þorbjörg Jónsdóttir og Höskuldsdóttir. Sú fyrri á frænku sem ætttuð er úr Grímsey og hafði hún ámálgað við Sæmund Ólafsson að hann færi með þr frænkur í siglingu. Við Elín höfðum einnig hug á að komast í siglingu og svo var einnig um fleiri. Varð úr að ég hringdi til Sæmundar og tók hann málaleitan minni afar vel, en frænka Þorbjargar hafði þá þegar haft samband við hann.

Við héldum úr höfn um kl. 12:30 fimmtudaginn 22. júlí. Með Sæmundi voru sonur hans, Þórir ásamt smásveininum Karli, syni Þóris.

Siglt var meðfram austurströnd Grímseyjar, en við norðanverða eyna rísa björgin í um 100 metra hæð. Öðru hverju var stansað og Sæmundur lýsti því sem fyrir augu og eyru bar. Einu launin sem hann vildi fyrir þessa unaðsstund var koss á kinn frá kvenfólkinu.

Þessari færslu fylgir hljóðrit. Fuglamergð er mikil við Miðgarðaurð eins og sæmundur lýsti fyrir okkur. Sem þaulreyndur veiðimaður vissi hann hvernig fæla skyldi fuglinn úr bjarginu. Þeim, sem hlusta með heyrnartólum, er ráðlagt að vera við öllu búnir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kaldagjá í Grímsey

Þegar við höfðum gengið frá tækjunum hurfum við á braut.

Dagana 21.-23. júlí vorum við Elín úti í Grímsey í góðu yfirlæti og nutum gestrisni eyjaskeggja. Fengum við bíl til umráða og komumst því yfir stærra svæði en ella. Okkur hafði verið tjáð að ekki tæki því að taka Orminn bláa með okkur út í Grímsey því að fjarlægðir væru þar litlar. en eyjan er um 6 km að lengd frá norðri til suðurs og rís í rúmlega 100m hæð þar sem hún er hæst. Hefði Ormurinn því komið að góðum notum.

fyrsta daginn fórum við í leiðangur upp á norðurhluta eyjarinnar. Námum við staðar við Köldugjá sem er á norðanverðri austurhlið Grímseyjar. Þar var hljóðumhverfið skemmtillegt. riturnar kvörtuðu hver við aðra sem mest þær máttu, fýllinn skvaldraði undir og lundarnir horfðu spekingslega í kringum sig. Frá þeim heyrðist fátt. Þótt bjpörgin iðuðu af lífi var það þó einungis svipur hjá sjón hjá því sem verður um varptímann, enda tel ég mig eiga erindi út í Grímsey næsta sumar.

Við komum tveimur Sennheiser ME62 fyrir og hljóðrituðum í fullri 24 bita upplausn á 44,1 kílóriðum. Hljóðritið er hér birt án nokkurrar hljóðsíunar svo að dýptin njóti sín sem best. Þess vegna heyrist örlítið í andblænum.

Hlustendur eru hvattir til að koma sér vel fyrir og hlusta annaðhvort í góðum heyrnartólum eða hátölurum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband