Færsluflokkur: Bílar og akstur

Rafbíl reynsluekið á Akureyri

Í þættinum Tilraunaglasinu í dag útvarpaði Pétur Halldórsson ökuferð með rafbíl sem Orkusetrið á Akureyri hefur fengið til prófunar.

Bíllinn heitir Mitsubishi MIEV og nú er hann væntanlegur frá franska bílarisanum PSA líka undir heitunum Citroën C-Zéro og Peugeot IOn, nánast óbreyttir. Sjá vefsíðu Orkuseturs,

www.orkusetur.is.

Í bílnum er 47 kílóvatta rafmótor sem samsvarar 64 hefðbundnum hestöflum. Litíum-rafhlaða er í bílnum, 330 volt, og hún á að jafnaði að endast til um 130 km. aksturs. Innan bæjar á vetrum endist hún þó væntanlega mun skemur því kuldinn hefur áhrif og í kuldanum notar fólk miðstöðina meira o.s.frv. Bíllinn er 15 sekúntur að ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu og kemst hraðast 130 km. á klukkustund. Hann tekur fjóra í sæti að bílstjóra meðtöldum og farangursrýmið er 166 lítrar. Þessar tölur eru allar sambærilegar við minnstu bensín- og díselbíla nema hvað hámarkshraði þeirra er yfirleitt nokkru meiri. Rafbíllinn er stilltur þannig að hann komist ekki hraðar en þetta.

Pétur notaði Nagra ARES+ hljóðpela og Shure VP88 víðómshljóðnema. Hlustendur eru hvattir til þess að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum og skynja um leið það sem gerist innan dyra og utan bílsins.

Slóðin á vef Tilraunaglassins er

http://ruv.is/tilraunaglasid


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reiðhjól og flutningabíll fara yfir brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi

Í ágústbyrjun 1998 vorum við Elín á leið austur á Stöðvarfjörð. Áðum við hjá lóninu á Breiðamerkursandi og nutum veðurblíunnar. fórum við undir eystri sporð brúarinnar og hófumst handa við hljóðritun. Ég var með Sony minidisk-tæki og Sennheiser MD21U hljóðnema. Skömmu eftir að við hófumst handa fór reiðhjól vestur yfir brúna og rétt á eftir stór og þung vörubifreið. Hvílíkur munur! Brúin eins og skall niður og stundi lengi á eftir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðgrunnur Reykjavíkursvæðisins

Veturinn 1999 brá ég mér á tækniráðstefnu sem haldin var í borginni Schwerte í Þýskalandi. Að ráðstefnunni lokinni bjó ég á gistihúsi í dortmund. Ég var með stafrænt segulbandstæki og hljóðritaði umferðina. Hljóðsýni verða birt síðar. Það vakti athygli mína hvað umferðarhljóðin í Dortmund voru miklu mýkri en í Reykjavík. Að sjálfsögðu stafaði það af því að Þjóðverjar nota ekki neglda hljóbarða a.m.k. ekki svo sunarlega sem Dortmund er.

Ég hef nokkrum sinnum hljóðritað umferð á Íslandi en ekki séð ástæðu til að birta afraksturinn. Einnig hef ég nokkrum sinnum hljóðritað umhverifið við tjarnarból 14 á Seltjarnarnesi. Svalirnar snúa í suðvestur og á bakvið er Nesvegurinn með sinni umferð.

Mér finnst ég búa í tiltölulega hljóðlátu umhverfi en veit þó að það yrði enn hljóðlátara ef ég byggi annars staðar á nesinu. Hljóðneminn getur blekkt álíka mikið og ljósmyndavélin og er afrakstur hljóðrits oftast nær í réttu samhengi við áhugamál þess sem hljóðritar. Þó getur það gerst að ýmislegt óvænt slæðist inn á minniskort tækisins.

Mánudaginn 7. júní á því herrans ári 2010 var stafalogn á Seltjarnarnesi framundir hádegi. Upp úr kl. 11 setti ég Shure VP88 hljóðnema út á svalir og nam hann um stund það sem gerðist í kring. Lítil umferð var um Tjarnarbólið en þó má greina ýmis merki þess að sumar hafi ríkt. Enginn ók um á negldum hjólbörðum. Það heyrist í nokkrum störrum, greina má ördaufan þrastasöng í fjarska, einhver notar slípirokk o.s.frv. Að baki er umferðin sem myndar þennan sífellda en breytilega hljóðgrunn höfuðborgarsvæðisins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Maður kemur heim til sín í leigubíl á rigningarmorgni

Það heyrist allt öðruvísi í umferðinni í rigningu en þurrviðri. Skvampið veldur talsverðum hávaða eins og flestir vita. Þeir sem búa við umferðargötur þurfa ekki að líta út um gluggann til þess að gá til veðurs. Þeir heyra það á umferðarniðnum að komin er rigning.

Meðfylgjandi hljóðrit greinir frá því er maður kom heim til sín í leigubíl á rigningarmorgni í nóvember 2007. Flest hljóð benda til þess að talsvert hafi rignt.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Shure VP88 víðomshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aldraður heimilisvinur gengur í endurnýjun lífdaga

Sumir fyllast fortíðarþrá.Hjónin Sigurbjörg Ólafsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur og Grétar Markússon, arkitekt, eiga unaðsreit við Lambhaga 9 á Álftanesi. Sunnan við húsið er sjávarbakkinn og þar fyrir utan miklar leirur. Margæsir og aðrir vaðfuglar eiga þar griðland og í móunum í kring verpir fjöldi fugla. Lóur voru á vappi hjá þeim hjónum framundir jólin í fyrra.

Sigurbjörg hafði margboðið mér að heimsækja sig og hljóðrita fugla. Við Elín fórum því út á Álftanes sunnudaginn 18. Apríl og heimsóttum þau góðu hjón. Ekki var ætlunin að hljóðrita í ferðinni heldur skoða aðstæður. Nagra Ares BB+ hljóðritinn og tveir Sennheiser ME62 voru þó með í för.

Þegar okkur bar að garði var verið að sinna gömlum heimilisvini, Deutz D30-S dráttarvél frá árinu 1961. Steinn, bróðir Sigurbjargar, sinnti um gripinn, og þar var einnig Markús Sigurðsson, sem hafði gert vélina upp.

Eftir að hafa þegir veitingar – rjómapönnukökur, jólaköku o. Fl., fór Steinn einn hring á vélinni. Síðan bauð Sigurbjörg mér í ökuferð og á eftir fór Elín með henni. Eins og sést á myndinni er eins konar söðull á vinstri aurhlíf vélarinnar. Þess vegna er vélarhljóðið meira til vinstri en hljóðið af hjólabúnaðinum og fjöðrunum heyrist vel í hægri hátalaranum. Sé hljóðritið sett í mónó verður hljóðið ekki síðra.

Í spjallinu hér á eftir segja þau Sigurbjörg, Steinn og Markús frá dráttarvélinni. Hljóðritið er örlítið snyrt en ekki klippt í sama mæli og menn neyðast til í útvarpi þar sem tíminn er oft naumt skammtaður.

Einnig fylgja þessari færslu tvö hljóðrit þar sem dráttarvélin kemur í hlað undir stjórn Steins og hann setur hana í gang fyrir mig að nýju. Hið seinna er ökuferðin með Sigurbjörgu. Aðdáendur vélahljóða fá þar nokkuð til að njóta.

Eftir að bloggið var birt sendi Sigurbjörg mér tölvupóst með ítarlegri lýsingu á notkun dráttarvélarinnar. Þar segir m.a.:

„Ég hafði mjög gaman af að heyra í gamla "Diggadigg" á upptökunni. Gott að geta látið spila þetta fyrir sig á elliheimilinu ! Ég var hálf gleymin í viðtalinu, þó ég segði að traktorinn hefði verið notaður í allt þá skýrði ég það ekki nánar. Hann var auðvitað notaður við allan heyskap, slá, snúa heyi/ tætla, raka saman , binda og flytja heim. Til allra flutninga var hann ómetanlegur, því vor og haust var gott að geta flutt sauðfé á heyvagni bæði í tengslum við sauðburð, rúningu og svo slátrun á haustin.

Það var skipst á að fara með mjólkurbrúsana niður á brúsapall frá Kirkjulækjarbæjunum sem voru þrír. Við krakkarnir sáum um það þegar við stálpuðumst. Það voru risa stórir mjólkurbrúsar í kælingu í vatnsþrónum sem við þurftum að lyfta uppá vagninn. Þeir voru allt upp í 50 lítra, en flestir voru 40 lítra.

Eins og ég nefndi var farið með fjósaskít á tún í kerru jafnóðum og þannig lærði ég að keyra á milli hlassa á túninu með pabba gangandi á eftir af því hann mokaði af. Nú svo var hann notaður í ferðalög ! Pabbi smíðaði pall aftaná og við fórum öll í langt ferðalag til berja um haustið. Mamma sat auðvitað í virðingarsætinu og við systkinin vorum svo á pallinum allavega sex fædd þá. Við fórum svona upp í Öldu sem er gott berjaland norðvestan við Þríhyrning. Ég man líka eftir að fara með pabba í kaupstaðinn, út í Hvolsvöll, það voru 11-12 km. Ég man að mér var ansi kalt, lítið um hlífðarföt og engin er yfirbyggingin á traktornum. En það var svo gaman að fá að fara með í Kaupfélagið að mér datt ekki í hug að kvarta.

Jæja eins og þú heyrir vekja þessi vélahljóð upp minningar, ég minnist pabba mjög mikið þegar ég heyri í gamla Deutz, bara góðar minningar. Ég get alveg sagt þér að mörgum árum áður en við tókum uppá því að gera upp traktorinn með Markúsar góðu vinnu, þá vorum við hjónin eitt sinn sem oftar á notalegri göngu í góðviðri á Álftanesinu. Þá heyri ég allt í einu Deutz traktor startað í gang, það var mjög hljóðbært ,og ég fékk bara kökk í halsinn og hugsaði bara "pabbi"! Hljóð geta hrifið mann með beint aftur í tímann eins og þú þekkir eflaust manna best. Jæja ég fór þarna alveg á flug, þú fyrirgefur það. Ég gleymdi að útskýra af hverju við kölluðum traktorinn Diggadigg. Þannig var að eldri traktorinn frá 1948 John Deere var með tveggja cylindra bensínvél og hljóðið í honum var svo hart og hvellt , hann var kallaður "Trakti gamli" en hinn malaði góðlega" diggadiggadiggadigg" í samanburðinum.“


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nokkur vorhljóð

Flestir hlakka til sumarsins.

Í fyrra tók ég saman nokkur hljóð sem tengjast vori og sumri.

Við hefjumst handa í fjörunni við Gróttu, höldum þaðan út í eyjuna og skjálfum dálítið í næðingnum. Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 og Nagra Ares BB+.

Þaðan er haldið út á göngustíginn meðfram Ægisíðu. Þar verður fyrir okkur pirraður hundur, fuglar syngja, fólk hleypur og hjólar. Þetta var hljóðritað með Nagra Ares-M og Shure VP88 hljóðnema vorið 2006.

Þá greinir frá samskiptum hrafns og sauðkindar. Það hljóðrit fékk ég að láni hjá aðstandendum sýningarinnar Reykjavík 871 +-2, sem allir ættu að sjá.

Næsta hljóðskot er úr öldruðum GMC fjallatrukki sem skrönglaðist upp brattan slóða laugardaginn fyrir páska 2006. Þar notaði ég áfestan hljóðnema við Nagra Ares-M.

Þá er það lítill lækur og að lokum fjaran við Gróttu um miðjan apríl 2009. Þar var notaður Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tilraun

Í dag setti ég tvo örsmáa Sennheiser-hljóðnema á gleraugnaspangir. Þótt þeir séu víðir (omnidirectional) gáfu þeir allskemmtilega hljóðmynd.

Heyra má mismunandi umhverfishljóð á heimilinu, líkamshljóð og kaffidrykkju, umhverfishljóð frá svölunum og síðast en ekki síst margbreytileg hljóð í hröfnum.

Hljómurinn í talinu er ekki mjög skemmtilegur. Sjálfsagt valda loðsvampar því auk þess sem hljóðnemarnir vísuðu fram á við og voru fremst á spöngunum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband