Færsluflokkur: Sjórinn

Unaðsstund við Miðgarðaurð

Allt iðar af lífi við Miðgarðaurðina. Ljósmynd: Elín Árnadóttir.

Við sigldum norður undir eyjaroddann, en þá var kominn suðvestan kaldi og taldi Sæmundur ekki vert að sigla norður fyrir og suður með vesturströndinni. Því var snúið við. Elín bað Sæmund að nema staðar við Miðgarðaurðina og samferðafólkið samþykkti að hlusta með mér á yndisleik þess sem fyrir augu og eyru bar, sjávarhljóðið, langvíuna og önnur kvik flygildi.

Síðan flautaði Þórir Sæmundsson til heimferðar og vélin var sett í gang.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sigling með vélbátnum Steina í Höfða

Sæmundur Ólafsson um borð  í Steina í Höfða

Við Elín vorum í Grímsey 21.-23. júlí og nutum hins besta atlætis. Samvistum við okkur voru frænkurnar Þorbjörg Jónsdóttir og Höskuldsdóttir. Sú fyrri á frænku sem ætttuð er úr Grímsey og hafði hún ámálgað við Sæmund Ólafsson að hann færi með þr frænkur í siglingu. Við Elín höfðum einnig hug á að komast í siglingu og svo var einnig um fleiri. Varð úr að ég hringdi til Sæmundar og tók hann málaleitan minni afar vel, en frænka Þorbjargar hafði þá þegar haft samband við hann.

Við héldum úr höfn um kl. 12:30 fimmtudaginn 22. júlí. Með Sæmundi voru sonur hans, Þórir ásamt smásveininum Karli, syni Þóris.

Siglt var meðfram austurströnd Grímseyjar, en við norðanverða eyna rísa björgin í um 100 metra hæð. Öðru hverju var stansað og Sæmundur lýsti því sem fyrir augu og eyru bar. Einu launin sem hann vildi fyrir þessa unaðsstund var koss á kinn frá kvenfólkinu.

Þessari færslu fylgir hljóðrit. Fuglamergð er mikil við Miðgarðaurð eins og sæmundur lýsti fyrir okkur. Sem þaulreyndur veiðimaður vissi hann hvernig fæla skyldi fuglinn úr bjarginu. Þeim, sem hlusta með heyrnartólum, er ráðlagt að vera við öllu búnir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grímseyjarferjan Sæfari

Það er gaman á Grímseyjarsundi. Ljósmynd: Elín Árnadóttir

Við Elín sigldum á milli Dalvíkur og Grímseyjar dagana 21. og 23. júlí. Veður var blítt í bæði skiptin og ládauður sjór. Héldu margir sig á afturþiljum skipsin sem var kallað á Gullfossi Prómenaðedekk.

Fyrra hljóðritið var gert þegar Sæfari lagði úr höfn í Grímsey. Ég stóð aftur við rekkverkið og beindi hljóðnemunum útyfir bílaþilfarið.

Seinna hljóðritið lýsir siglingu skipsins. Þá stóð ég á bakborða miðskips og beindi hljóðnemunum út fyrir borðstokkinn til þess að nema boðaföllin.

Þessi hljóðrit eru einkum ætluð þeim sem hafa yndi af vélahljóði skipa. Því miður tókst mér ekki að afla mér upplýsinga um vélbúnað skipsins, stærð o.fl þar sem Skipaskrá Íslands er læst. Hafi einhver þær upplýsingar verða þær vel þegnar í athugasemdum.

Myndina tók Elín Árnadóttir þegar siglt var út í Grímsey 21. júlí 2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig hljóma togvíraklippur?

Togvíraklippurnar reyndust vel í baráttunni við landhelgisbrjóta (ljósmynd Elínar Árnadóttur)Þann 29. júní 2009 skoðuðum við hjónin okkur um á Ísafirði. Við eyddum allnokkrum tíma á Sjóminjasafninu sem er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og mættu Vestmannaeyingar margt af Ísfirðingum læra í þeim efnum. Helst þótti mér á skorta að hljóð heyrðust úr horni. Einhver af gömlu bátunum með glóðarhausvél hefði mátt vera í gangi og minna á gamla daga.

Þegar við héldum áleiðis frá safninu sáum við hvar þrír piltar börðu einhver tól, en að sögn þeirra var verið að undirbúa þau undir málningu. Í ljós kom að þetta voru hinar frægu togvíraklippur sem ollu breskum togarasjómönnum sem mestu tjóni í síðustu þorskastríðunum. Féllust piltarnir á að leika listir sínar en ég hét þeim að útvarpa listaverkinu við fyrstu hentugleika. Því er hvaða útvarpsstöð sem er heimilt að senda þessa hljóðmynd út á öldur ljósvakans.

Vakin er athygli á heiti hljóðritsins. Áréttað skal að piltarnir voru þrír enda sannar myndin það svo að ekki verður um villst. Gaman væri að fá nöfn piltanna í athugasemd við þessa færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Forvitinn svartbakur

Þegar ég hafði komið mér fyrir í flæðarmálinu neðan við Lambhaga á Álftanesi bar þar að svartbak sem gaumgæfði mig og hljóðnemana. Takið eftir hreyfingum fuglsins en þær koma vel fram í víðómsheyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Loftbólurnar í öldugjálfrinu o.fl.

Í dag fórum við Elín út á Álftanes að hljóðrita margæsir. Háfjara var um kl. 12:30 og vorum við komin um það leyti.

Við settum upp bækistöð neðan við Lambhaga og stilltum hljóðnemunum u.þ.b. 2-3 m frá fjöruborðinu. Síðan settist ég og hlustaði dáleiddur á öldugjálfrið.

Um kl. 13:35 varð ég var við að farið var að gutla einkennilega í bárunni og viti menn. Hljóðnemastandurinn var að fara í kaf og því góð ráð dýr. Náði ég honum og vöknaði í annan fótinn. Það var notalegt.

Í fyrra hljóðritinu heyrist greinilega hvernig loftbólurnar springa þegar ægir gælir við grundina. Þá heyrist í fyrstu kríunum sem sést hafa á Álftanesinu í ár og sitthvað fleira.

Í seinna hljóðritinu heldur ægir áfram að gæla við landið og einhverjir skotglaðir Íslenndingar afla sér í soðið fyrir utan. Ekki veit ég hvaðan vélardynurinn kemur en hugsanlega frá einhverju skipi.

Hljóðritað var með tveimur Sennheiser ME62 í 24 bita og 44,1 kílóriða upplausn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bæjarlækur og öldugjálfur vestur í Skálavík

Vestur í Skálavík, sem er vestasta byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu vestan Ísafjarðarkaupstaðar, er nú engin byggð, en landið nýtt á sumrin. Nokkrir sumarbústaðir eru þar.

Víkin er fyrir opnu hafi og hefur því lendingin verið óhæg þar. Við hjónin vorum þar á ferð ásamt Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, 2. Júlí 2009 og nutum veðurblíðunnar.

Fyrir okkur varð lítill bæjarlækur sem hnepptur hafði verið í bunustokk og gert var úr járntunnu. Tónleikur lækjjarins vakti upp gamlar minningar um brunnlokið úti í Vestmannaeyjum sem söng í rigningu.

Í grýttri fjörunni settist ég á stein og hljóðritaði skvaldur Ægis þar sem hann mynntist við lábarið fjörugrjótið. Hlustendur þessara hljóðrita hafa heyrt hluta öldugjálfursins í færslunni um síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur sem er birt undir þessum flokki. Takið eftir tónbrigðum sjávarins.

Nánari upplýsingar um Skálavík eru á síðunni http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_skalavik.htm


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Öldugjálfrið við Seltjarnarströnd

Ég verð aldrei leiður á að hljóðrita öldugjálfur og brim. Hljóðið verður svo misjafnt eftir veðri og afstöðu hljóðnemans.

Þriðjudaginn 7. apríl 2009 var einkargott veður og greinilegt að vorið var í nánd. Við hjónin fórum síðdegis þann dag í fjöruna við Seltjörn og þar var hljóðritið gert. Ég beindi hljóðnemunum niður á við til móts við fjöruborðið og þannig náðist leikur sjávarins að mölinni í flæðarmálinu.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlíbrimið við Breiðamerkursand

Brimið við Breiðamerkursand 9. júlí 2009Það er magnþrungið að skreppa niður á Breiðamerkursand að njóta brimsins. Öldurnar gjálfra í flæðarmálinu en úti fyrir brotnar hafaldan óheft og af því verður mikill gnýr. Stöðugt gengur á landið og fer sjórinn sínu fram hvað sem líður bjástri og brölti mannanna.

Brimið hefur margvísleg hljóð og vafalaust nemur mannseyrað einungis hluta þeirra. Hér verður birt hljóðrit sem gert var 9. júlí 2009. Hljóðritið er birt í fullum gæðum, 16 bita hljóðritum. Hver og einn getur stillt hljóðið sem hann vill en ekkert hefur verið átt við hljóðritið.

Mælt er með því að fólk noti góð heyrnartól, vilji það njóta brimsins til hlítar.

Myndina tók Elín Árnadóttir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leikur að vatni

Haustið 1999 gerði ég vinkilsþáttinn „Leikur að vatni“, en þar lék ég mér að vatni með ýmsu móti.

Leikurinn hófst í sundlaug Seltjarnarness einn lygnan laugardagsmorgun í október. Við vorum tveir í sturtunni og bað ég félaga minn, hver sem hann var, að veita mér viðtal en hann kvaðst of feiminn til þess. Ég var á leiðinni út og vildi fá hljóðmyndina af gönguferðinni. Því setti ég tækið á hljóðritun. Og viti menn. Maðurinn byrjaði að tala og úr varð þetta ágæta samtal sem hann vissi ekki að hefði verið hljóðritað.

Leikurinn barst svo austur að Geysi, Hringur Árnason, sem þá var 5 ára, sagði mér frá því til hvers hann notaði vatnið, litið var við á kínverska ballettinum Rauðu kvennaherdeildinni, haldið vestur í Skjaldfannardal og lækir látnir dansa saman, hverasvæði í Krísuvík skoðuð og loksins staðnæmst úti við Gróttu. Þar naut ég liðsinnis vinar míns, Magnúsar Bergssonar, hljóðlistarmanns, en hann hljóðritaði öldugjálfrið eina sumarnótt árið 1994. Vek ég sérstaka athygli á þeim hluta þáttarins.

Móðursystir mín, Guðfinna Stefánsdóttir, sagði mér einnig í þættinum hvernig fólk í Vestmannaeyjum hefði margnýtt vatnið á æskuárum sínum. Einnig greindi einn bræðra minna frá víngerð, en málrómi hans var breytt svo að hann yrði ekki lögsóttur. Nú er óhætt að upplýsa að hann heitir Páll Helgason, enda er málið fyrnt.

Heil mikið tilstand var vegna þessa þáttar. Ég hélt að ég gæti rumpað honum af eins og ég var vanur enda kom ég með allt efnið klippt og vandlega undirbúið. En tæknimaður Ríkisútvarpsins, Björn Eysteinsson, var mér ekki sammála og taldi handritið bjóða upp á flest annað en hroðvirkni. Eina ráðið væri að tölvuvinna þáttinn. Endirinn varð um 10 klst. vinna í hljóðveri.

Mælt er með því að fólk hlusti með góðum heyrnartólum. Dans lækjanna skilaði sér ekki nægilega vel í útsendingu útvarpsins, en hann fór þannig fram að ég stóð á mótum tveggja lækja og sneri mér nokkra hringi. Hlusti menn grannt geta þeir heyrt að tvö systkini, börn Lóu á Skjaldfönn, spyrja furðulostinn hvað ég sé eiginlega að gera.

Einn af dagskrárgerðarmönnum BBC, sem hélt námskeið fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, tók þennan þátt sem dæmi um það sem hægt væri að gera með einu md-tæki og víðómshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband