Færsluflokkur: Kveðskapur og stemmur

Litla hagyrðingamótið

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, 8. október, var haldið lítið hagyrðingamót eins og jafnan í upphafi dagskrár. Skráðir voru til leiks þeir Arnþór Helgason, Jón Ingvar Jónsson og Ragnar Böðvarsson. Einungis komu til mótsins þeir Arnþór og Ragnar og eru vísurnar, sem þeir kváðu, birtar hér í tveimur hljóðskjölum. Yrkisefnin voru vetur, sumar, vor og haust.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Steindór andersen kveður vísur um minnismerki eftir Agnar J. Levy

Laugardaginn 5. september síðastliðinn var afhjúpaður minnisvarði um Guðmund skáld Bergþórsson. Flestir telja að Guðmundur hafi verið fæddur að Stöpum á Vatnsnesi og þar var minnisvarðinn reistur. Páll Guðmundsson frá Húsafelli gerði minnisvarðann, en Steindór Andersen, formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar, hafð öðrum fremur veg og vanda af því að minnismerkið var reist. Næsta haust er í bígerð að reisa guðmundi Bergþórssyni annan minnisvarða á Arnarstapa, en þar eyddi hann drjúgum hluta ævi sinnar.

Guðmundur var eitt merkasta rímnaskáld 17. aldar, hafsjór af fróðleik og kennari víðfrægur. Hann var mjög fatlaður.

Vatnsnesingar studdu þá Steindór með ráðum og dáð og bóndinn á Stöpum léði land undir minnismerkið. Eitthvað þótti honum 8 manna flokkur letilegur við framkvæmdirnar þegar minnismerkinu var komið fyrir. Um þann atburð orti Agnar J. Levy, bóndi í Hrísakoti, vísur sem kveðnar voru þegar minnisvarðinn var afhjúpaður. Á fundi Iðunnar 8. október kvað Steindór Andersen vísurnar og skaut inn nokkrum skýringum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Birgir Þór er býsnastór

Birgir Þór nýtur lífsins í afmælinu sínu.

Birgir Þór Árnason er mið-barnabarn okkar Elínanr, fæddur 15. febrúar 2005. Bræður hans eru Hringur og Kolbeinn Tumi.

Þegar Birgir Þór byrjaði að tala varð fljótlega ljóst að hann væri kverkmæltur. Með aðstoð foreldra sinna og ömmu tókst honum að vinna bug á kverkmælginni og naut ekki síst til þess aðstoðar Ásthildar Snorradóttur, talmeinafræðings. Í vetur fór svo að kverkmælta r-ið hvarf.

Á hljóðsíðum þessum hefur verið birt hljóðrit frá 2008 þar sem heyrist að pilturinn sagði vel frá, söng og r-ið kom greinilega fram. Í dag, 29. júní 2010, tók ég hann tali og fékk hann til að kveða vísu sem hann kann um sjálfan sig.

Ljósmyndina tók Elín amma á 5 ára afmælisdegi hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæðamaðurinn Ingimar Halldórsson

Ingimar Halldórsson fæddist á Akranesi árið 1945. Hann gekk í Kvæðamannafélagið Iðunni árið 1970 og hefur lengi verið einhver besti kvæðamaður þess.

Á aðalfundi Iðunnar 6. mars 2009 kvað hann nokkrar frumortar vísur. Notaður var Shure VP88 við þá hljóðritun.

Enn var Ingimar á dagskrá Iðunnarfundar föstudaginn 9. mars árið 2010. Í það skipti kvað hann vísur eftir Kristján Samsonarson og gerði í upphafi grein fyrir ævi þessa listfenga hagyrðings.

Notaðir voru tveir Sennheiser Me64 hljóðnemar.

Hljóðritin eru birt með leyfi Ingimars.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýtt hljóðrit með Steindóri Andersen

Það er á engan hallað þótt fullyrt sé að Steindór Andersen, formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sé nú mestur kvæðamaður hér á landi. Hann hefur öðrum fremur hafið stemmuna til þeirrar virðingar sem henni ber innan íslenskrar menningar.

Á fundi Iðunnar, 5. Febrúar síðastliðinn, kvað hann úr kosningarímum séra Guðlaugs Guðmundssonar, prests á Stað í Steingrímsfirði, sem hann orti vegna kosningar sýslunefndarmanns, sem fram fór að Hrófbergi á Jónsmessunni 1912. Guðlaugur orti þessa rími í riddarasagnastíl til þess að spauga með þá sem að þessari kosningu stóðu.

Hljóðrit þetta er birt með samþykki Steindórs.

Notaður var Shure VP88 víðómshljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband