Færsluflokkur: Kveðskapur og stemmur

Njálsrímur

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var í gær, 7. október, kvað Njáll Sigurðsson Njáls rímur eftir Jón Ingvar Jónsson. Rímurnar eru hér birtar með leyfi kvæðamanns og höfuðskáldsins.

 

 

IN ENGLISH

 

Rimur is a special form of Icelandic poetry which can be traced back to the 14th century. In rimur stories are told about heroes mainly from the past.

 

The rimur are performed in a special way, most often with rather simple melodies and with a distinguished way of using the voice. Here Njáll Sigurðsson performs a new rima by Jón Ingvar Jónsson, who gives his own description of the story of Njáll Þorgeirsson, one of the main persons of the world famous Icelandic saga of Njals saga.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gert að afla Skáldu

Skipinu Skáldu hefur verið haldið til veiða í rúmar 40 vetrarvertíðir. Núverandi formaður er Helgi Zimsen.

Skálda er látin ganga um salinn á fundum Kvæðamannafélagsins Iðunnar og veiða vísur. Á fundi félagsins, 6. maí síðastliðinn, gerðu þeir Helgi Zimsen og Sigurður Sigurðarson, yfirdýralæknir Iðunnar, að afla Skáldu.

Hljóðritað var í MS-stereó (miðjuvíðómi) með Røde NT-2A og Sennheiser ME-65. Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti sem stilltur var á 48 kílórið og 24 bita. Mistökin voru sennilega þau að nota ME65 þar sem hann lagðist ekki nægilega vel að Røde-hljóðnemanum. Fólk er því hvatt til ð hlusta á hljóðritið í víðómstækjum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Flöskukveðjur

 

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 6. maí síðastliðinn, kenndi Bára Grímsdóttir, varaformaður félagsins, fundarmönnum gamalt, íslenskt tvísöngslag við kvæðið „Flöskukveðjur" eftir Eggert Ólafsson (1726-1768). Á eftir sagði Njáll Sigurðsson örlítið frá laginu og notkun þess í grunnskólum.

http://www.helgason.nu/?page_id=67

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ á 48 kílóriðum og 24 bitum. Notaðir voru Røde NT2-A og Sennheiser ME-65 í MS-uppsetningu.

 

Ó, mín flaskan fríða!

Flest ég vildi líða,

frostið fár og kvíða

fyrr en þig að missa.

Mundi' ég mega kyssa

munninn þinn, þinn, þinn?

Munninn þinn svo mjúkan finn,

meir en verð ég hissa.

 

Íslands ítra meyja,

engra stelpugreyja,

heldur hefðarfreyja,

sem hvergi sómann flekka,

mun ég minni drekka.

Fái þær, þær, þær,

fái þær æ fjær og nær

frið og heill án ekka.

 

Þú mig gæðum gladdir,

góðu víni saddir,

hóf ég hæstu raddir,

hraut mér stöku vísa,

pytluna mína' að prísa.

Þú ert tóm, tóm, tóm,

þú ert tóm með þurran góm,

þér má ég svona lýsa.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fimmtugasti passíusálmur kveðinn - heimsfrumflutningur

Á föstudaginn langa, 22. apríl 2011, fluttu 10 leikmenn 30 Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Selfosskirkju. Þá kvað sigurður sigurðarson, dýralæknir, 6 sálma við fornar, íslenskar stemmur og er það í fyrsta sinn sem það er gert, svo að vitað sé.

Í viðtali við ritstjóra síðunnar greinir Sigurður frá ýmsu sem tengist flutningnum. Síðan er fluttur 50. sálmur.

Viðtalið var hljóðritað með Olympus LS-11 en sálmurinn með Nagra Ares BB+ og shure VP88. Upprunalegu hljóðritin eru á 24 bitum.

Hjálparhella mín var sem endra nær eiginkona mín, Elín Árnadóttir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæði af Hrómundi Grips syni

Á aðalfundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, 4. mars 2011, kvað Rósa Jóhannesdóttir Kvæði af Hrómundi Grips syni við seltirnska stemmu sem hún sagði kennda við Arnþór Helgason.

Þessari færslu fylgja þrjú skjöl. formáli rósu að kvæðinu, kvæðið sjálft og að lokum texti þess sem færður hefur verið til samræmis við íslenska nútímastafsetningu.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Shure VP88 hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslenskur fimundarsöngur á Iðunnarfundi

 

Bræðurnir Sigursveinn og Örn Magnússynir, sem skipa með öðrum fjölskylduhljómsveitina Spilmenn Ríkínís, komu á fund í Kvæðamannafélaginu Iðunni föstudaginn 8. janúar síðastliðinn og fluttu nokkur þjóðlög, einkum tvísöngva. fyrst á dagskrá þeirra var kvæðið um Bakkabræður eftir Jóhannes úr Kötlum, sem þeir kváðu við þjóðlag, sennilega úr Ólafsfirði. Leyfðu þeir ritstjóra þessarar síðu að birta hljóðritið. Ástæða er til að benda hlustendum á einstaklega fágaðan flutning þeirra, en sjaldgæft er að heyra íslenskan fimmundarsöng jafnvel fluttan.

Í fyrra gáfu Spilmenn Ríkínis út hljómplötu með íslenskum þjóðlögum. Á diskinum er leikið undir á ýmis miðaldahljóðfæri. Vitað er að einhver slík hljóðfæri voru til hér á landi. Efast má um að þjóðlög þessi hafi nokkru sinni verið jafnvel flutt og raun ber vitni um.

Hljómdiskur Spilmanna Ríkínís ætti að vera skyldueign allra unnenda íslenskrar þjóðlagatónlistar.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Birgir Þór 6 ára

Birgir Þór 6 ára

Þriðjudaginn 15. febrúar verður Birgir Þór Árnason 6 ára. Þótt aldurinn sé ekki hár verða ýmis tímamót þegar menn komast á 7. ár. Þeir byrja í skóla, verða grunnskólanemar í stað leikskólanema, mi ssa tennur og sitthvað fleira, sem markar spor í vitund þeirra.

Á þessum tímamótum þótti rétt að taka kappann tali og forvitnast um framtíðaráætlanir hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þorravísur á Iðunnarfundi eftir Helga Zimsen

 

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 4. febrúar 2011, fluttu Iðunnarfélagar tvo vísnabálka eftir Helga Zimsen. Fyrri bálkurinn fjallar um íslenskan mat. En þar sem ekki var snæddur íslenskur matur á fundinum nema þá pönnukökur, fór Rósa Jóhannesdóttir, formaður rímnalaganefndar, þess á leit við Helga að hann orti eina lokavísu. Þær urðu 7 og mátti hún velja eina þeirra. Hún kaus að láta flytja þær allar vegna valkvíða.

 

 

Matargikksbálkur

 

Aftur kominn enn á ný

árs er víst á fresti

ýmsir blóta þorra því

þá er úldnað nesti.

 

Freðinn ref ef finn á grund

fráleitt neita að borð'ann

úldna rollu eða hund

allt má drýgja forðann.

 

Gamalt nesti nörtum í

næring feðra vorra

borðum þetta bara af því

blóta verðum þorra.

 

Hákarl siginn sigla fær

svona oní maga:

brennivín um bitinn rær

bragð má þannig laga.

 

Súrinn virðist sumum best

sviðin aðrir kjósa

háfsins illri ýldupest

ýmsir jafnvel hrósa.

 

Sviðin eru mönnum mæt

metið þau við getum

snoppan er svo ósköp sæt

að við hana étum.

 

Þorra blóta, yrki óð,

önd og búknum hlýnar.

Finnst mér þá sem flæði blóð

fornt um æðar mínar.

 

Kjaftur bítur, lína er lögð

lengst úr fyrri tíma.

Þorrakrása kynleg brögð

kýs ég við að glíma.

 

Gengnir áar gæddu sér

á gömlum mat og þráum,

vegna þessa í veislu hér

vistir góðar fáum.

 

Punga þunga og súran sel

með sviði í kviðinn læði.

Metið get ég magál vel,

mikið spikið snæði.

 

(Helgi Zimsen)

 

Ábótarvísur

 

Kvæðamannafundir fljótt

fylla gesti kæti.

Flæðir rímið fram á nótt

fjörið held það bæti.

 

Iðunn glæðist óðs á stund,

örvast fjör og gaman.

Gamlar hefðir gleðja lund,

glöggt það finnum saman.

 

Hér nú yrkjum hress og slyng.

Hér er skáldafákur.

Hér er ekkert hrafnaþing.

Hér eru engar krákur.

 

Gaman er á gleðistund,

gefst þó fátt að éta.

Kvæðamannakempufund

kann ég vel að meta

 

Enn við kveðum eina stund,

óð í góðum hópi

Heftir ekki hal og sprund

hér þótt Steindór skrópi.

 

Þorrin eru þessi ljóð

þau við kváðum saman

þó að blóti einhver óð

ekki súrnar gaman.

 

Víst hér enda verðum brag

vísnaflóði lýkur.

Nú er fundið lokalag

línan hinsta fýkur.

 

(Helgi Zimsen)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Einvígi Þingeyinga og Húnvetninga á Bragarþingi 2010

Sem kunnugt er var haldið Bragarþing 2010 í landnámi Ingólfs og var það háð 28. ágúst síðastliðinn. Þar tókust þeir á, Friðrik Steingrímsson og Árni Jónsson fyrir hönd Þingeyinga og Pétur Pétursson og Einar Kolbeinsson, Húnvetningar.

Þeir Árni Hjartarson, jarðfræðingur og Pétur Eggerz, leikari, tóku saman versta níðið úr kjöftumþeirra kappanna og fluttu á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 5. nóvember síðastliðinn. Þeir Pétur og Árni eru báðir góðir hagyrðingar, rithöfundar og er sitthvað fleira til lista lagt.

Samantekt þessi er birt m.a. í tilefni þess að um þessar mundir fagnar Pétur Eggerz fimmtugsafmæli sínu, en hann var í heiminn borinn 19. nóvember á því herrans ári 1960.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fljúgandi kýr og fleira

Kvæðakonan góða, Rósa Jóhannesdóttir, leikur einnig á Harðangursfiðlu.>Á fundi í Kvæðamannafélaginu Iðunni kvað kvæðakonan Rósa Jóhannesdóttir vísur eftir Helga Zimsen. Voru það jöfnum höndum öfugmælavísur, vetrarsonnetta og sitthvað annað sem gladdi eyru og hjörtu hlustenda.

Tæknigrúskurum skal sagt að notaður var Nagra BB+ hljóðriti. Hljóðritað var á 44,1 kílóriðum og 24 bitum. Hljóðneminn var shure VP88 sem settur var á þrengstu víðómsstillingu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband