Færsluflokkur: Samgöngur

Á heimleið 19. janúar 2011

Viðskiptablaðið er flutt í Nóatún 17 og ég hef haldið áfram að selja áskriftir sem verktaki ásamt ýmsu öðru. Fast starf með þeim réttindum og skyldum se því fylgir, fer að verða fjarlæg minning.

Mig vantaði minnistæki um daginn og ákvað eftir nokkra íhuugun að kaupa Olympus. Leist mér þar einna best á LS11. Ég áttaði mig fljótlega á því að tækið er búið ýmsum kostum og getur framleitt hágæða hljóðrit, jafnvel þótt eingöngu séu notaðir innbyggðir hljóðnemar.

Olympus LS11 er um margt sambærilegt Nagra Ares-M að öðru leyti en því að hægt er að hljóðrita á 96 kílóriðum, en Nagra Ares-M fer hæst í 48 kílórið. Þá er ég ekki frá því að hljóðgæði hljóðnemanna sem hægt er að festa á Nagra séu heldur meiri en Olympus-hljóðnemanna.

En hvað um það. Olympus-tækið gefur ástríðufólki tækifæri til að hljóðrita það sem fyrir augu og eyru ber. Þótt ágætir svampar séu yfir hljóðnemunum truflar vindurinn hljóðritanirnar og verður því einatt að nota afskurð sem hægt er að stilla á tækinu.

Hljóðnynd dagsins er þríþætt.

Fyrst er beðið við biðskýlið skammt austan við mót Laugavegar og Hátúns. Þá er dokað við vestan við miðstöðina á Hlemmi, en þar var fremur dauft yfir mannlífinu um kl. 16:30. Þó er greinilegt að Reykjavík er orðin að fjöltungnaborg.

Ég vek sérstaka athygli á hljóðritinu u.þ.b. þegar 7 mínútur eru liðnar. Þá kemur strætisvagn inn á stæðið vestan við hlemm og menn geta heyrt þegar fólk hraðar sér í báðar áttir. Lokið augunum og sjáið þetta fyrir ykkur. Jafnvel ég sé skuggana af vegfarendunum.

Að lokum er skrölt áleiðis með leið 11 vestur í bæ. Öflugir blásarar voru í gangi og lítið heyrðist í leiðsögninni.

Full ástæða er til að hljóðrita vetrarhljóð höfuðborgarsvæðisins. Ef til vill væri ekki úr vegi að sækja um styrk til slíks verkefnis og nýta þá hágæðabúnað til verksins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rafbíl reynsluekið á Akureyri

Í þættinum Tilraunaglasinu í dag útvarpaði Pétur Halldórsson ökuferð með rafbíl sem Orkusetrið á Akureyri hefur fengið til prófunar.

Bíllinn heitir Mitsubishi MIEV og nú er hann væntanlegur frá franska bílarisanum PSA líka undir heitunum Citroën C-Zéro og Peugeot IOn, nánast óbreyttir. Sjá vefsíðu Orkuseturs,

www.orkusetur.is.

Í bílnum er 47 kílóvatta rafmótor sem samsvarar 64 hefðbundnum hestöflum. Litíum-rafhlaða er í bílnum, 330 volt, og hún á að jafnaði að endast til um 130 km. aksturs. Innan bæjar á vetrum endist hún þó væntanlega mun skemur því kuldinn hefur áhrif og í kuldanum notar fólk miðstöðina meira o.s.frv. Bíllinn er 15 sekúntur að ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu og kemst hraðast 130 km. á klukkustund. Hann tekur fjóra í sæti að bílstjóra meðtöldum og farangursrýmið er 166 lítrar. Þessar tölur eru allar sambærilegar við minnstu bensín- og díselbíla nema hvað hámarkshraði þeirra er yfirleitt nokkru meiri. Rafbíllinn er stilltur þannig að hann komist ekki hraðar en þetta.

Pétur notaði Nagra ARES+ hljóðpela og Shure VP88 víðómshljóðnema. Hlustendur eru hvattir til þess að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum og skynja um leið það sem gerist innan dyra og utan bílsins.

Slóðin á vef Tilraunaglassins er

http://ruv.is/tilraunaglasid


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grímseyjarferjan Sæfari

Það er gaman á Grímseyjarsundi. Ljósmynd: Elín Árnadóttir

Við Elín sigldum á milli Dalvíkur og Grímseyjar dagana 21. og 23. júlí. Veður var blítt í bæði skiptin og ládauður sjór. Héldu margir sig á afturþiljum skipsin sem var kallað á Gullfossi Prómenaðedekk.

Fyrra hljóðritið var gert þegar Sæfari lagði úr höfn í Grímsey. Ég stóð aftur við rekkverkið og beindi hljóðnemunum útyfir bílaþilfarið.

Seinna hljóðritið lýsir siglingu skipsins. Þá stóð ég á bakborða miðskips og beindi hljóðnemunum út fyrir borðstokkinn til þess að nema boðaföllin.

Þessi hljóðrit eru einkum ætluð þeim sem hafa yndi af vélahljóði skipa. Því miður tókst mér ekki að afla mér upplýsinga um vélbúnað skipsins, stærð o.fl þar sem Skipaskrá Íslands er læst. Hafi einhver þær upplýsingar verða þær vel þegnar í athugasemdum.

Myndina tók Elín Árnadóttir þegar siglt var út í Grímsey 21. júlí 2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðgrunnur Reykjavíkursvæðisins

Veturinn 1999 brá ég mér á tækniráðstefnu sem haldin var í borginni Schwerte í Þýskalandi. Að ráðstefnunni lokinni bjó ég á gistihúsi í dortmund. Ég var með stafrænt segulbandstæki og hljóðritaði umferðina. Hljóðsýni verða birt síðar. Það vakti athygli mína hvað umferðarhljóðin í Dortmund voru miklu mýkri en í Reykjavík. Að sjálfsögðu stafaði það af því að Þjóðverjar nota ekki neglda hljóbarða a.m.k. ekki svo sunarlega sem Dortmund er.

Ég hef nokkrum sinnum hljóðritað umferð á Íslandi en ekki séð ástæðu til að birta afraksturinn. Einnig hef ég nokkrum sinnum hljóðritað umhverifið við tjarnarból 14 á Seltjarnarnesi. Svalirnar snúa í suðvestur og á bakvið er Nesvegurinn með sinni umferð.

Mér finnst ég búa í tiltölulega hljóðlátu umhverfi en veit þó að það yrði enn hljóðlátara ef ég byggi annars staðar á nesinu. Hljóðneminn getur blekkt álíka mikið og ljósmyndavélin og er afrakstur hljóðrits oftast nær í réttu samhengi við áhugamál þess sem hljóðritar. Þó getur það gerst að ýmislegt óvænt slæðist inn á minniskort tækisins.

Mánudaginn 7. júní á því herrans ári 2010 var stafalogn á Seltjarnarnesi framundir hádegi. Upp úr kl. 11 setti ég Shure VP88 hljóðnema út á svalir og nam hann um stund það sem gerðist í kring. Lítil umferð var um Tjarnarbólið en þó má greina ýmis merki þess að sumar hafi ríkt. Enginn ók um á negldum hjólbörðum. Það heyrist í nokkrum störrum, greina má ördaufan þrastasöng í fjarska, einhver notar slípirokk o.s.frv. Að baki er umferðin sem myndar þennan sífellda en breytilega hljóðgrunn höfuðborgarsvæðisins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fýlaskvaldrið í Arnarneshamri

Arnarneshamar er á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar sem ganga inn úr Ísafjarðardjúpi. Þegar haldið er yfir í Álftafjörð er farið um dyr sem gerðar voru gegnum hamarinn árið 1949.

Þegar menn fara akandi til Súðavíkur veita fáir því athygli að mikil fýlabyggð er í hamrinum. Hljóðritið, sem hér er birt, var gert 2. júlí 2009. Auk fýlanna taka nokkrir lundar til máls og farþegabátur heyrist sigla út djúpið.

Einn fýllinn flaug svo nærri mér að mér varð hverft við. Það verður hlustendum væntanlega einnig. Mælt er með að fólk hlusti í góðum heyrnartólum.

Ég breiddi út faðminn við hamrinum og hélt á ME-62 hljóðnema í hvorri hendi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vigur og skagfirskar, söngelskar húsmæður í orlofi

sumarið 2009 nutum við hjónin þess að ferðast um Vestfirði. Gerðum við út frá Súðavík og hljóðrituðum margt.

Laugardaginn 27. júlí sigldum við út í Vigur en þangað ættu allir að fara sem nema staðar við Ísafjarðardjúp. Þar hljóðritaði ég viðtal við Salvar Baldursson, sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég notaði tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema, rétti honum annan og hélt sjálfur á hinum. Í hljóðvinnslunni færði ég rásirnar saman svo að viðtalið yrði ögn áheyrilegra. Á leiðinni í land sungu nokkrar skagfirskar húsmæður við raust, hressar eftir kaffið og bakkelsið í vigur.

Ég hljóðritaði andrúmsloftið í gönguförinni um vigur, hélt á hljóðnema í annarri hendi og vísaði honum niður. Þannig fékkst þyturinn af grasinu. Áður en ég útvarpaði samtalinu notaði ég tækifærið austur á Þingvöllum og talaði kynninguna þar. Engin umferð var og því hljóðumhverfið æskilegt í logninu. Þá notaði ég Sennheiser MD-21U sem var fyrst framleiddur árið 1954. Þann hljóðnema keypti ég hjá PFAFF árið 1983.

Söng skagfirsku kvennanna hljóðritaði ég á afturþilfari farþegabátsins. Hélt ég á tveimur ME-62 hljóðnemum, hafði um hálfan metra á milli þeirra og lét þá mynda u.þ.b. 100°. Þannig fæst skemmtileg hljóðdreifing. Nagra Ares BB+ var með í för.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vernharður Bjarnason - Venni frændi

Vernharður Bjarnason fæddist 16. júní 1917 og lést 1. mars árið 2001. Hann var einhver mesti frænd æsku minnar í föðurætt, en Benedikt, föðurfaðir minn og Bjarni, faðir Venna, voru bræðrasynir. Bjarni mun m.a. hafa átt hlut að því að fá föður mínum hið góða fóstur hjá þeim hjónum, Sigtryggi Péturssyni og Hólmfríði Magnúsdóttur á Húsavík nokkru eftir að móðir hans dó frá honum rúmlega árs gömlum.

Árið 1992 bað ég Venna að rifja upp kynni sín af föður mínum, Helga Benediktssyni, athafnamanni í Vestmannaeyjum. Venni kunni einhver reiðinnar býsn af sögum og sagði betur frá en flestir sem ég hef þekkt. Varð hann vel við bón minni.

Sjö árum síðar tók ég hann enn tali og bað hann að segja mér frá kynnum sínum af vélskipinu Helga VE 333 sem fórst við Faxasker 7. janúar árið 1950. Notaði ég brot úr þeirri frásögn í útvarpsþætti sem ég gerði um slysið.

Frásagnir Venna frænda hafa aldrei verið birtar í heild. Birti ég þær nú algerlega óklipptar í minningu þeirra frændanna, föður míns og hans. Þeir áttu margt saman að sælda og þótti vænt hvorum um annan. Og móðir mín sagði um Venna að hann væri ráðabesti maður sem hún hefði þekkt og oft óskaði hún þess að Venni réði öllu hér á landi.

Njótið heil.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skaftfellingur, aldna skip, aldrei verður sigling háð

Árið 1999 gerði ég þrjá þætti fyrir Ríkisútvarpið sem báru heitið "Sögur af sjó". Einn þeirra fjallaði um vélskipið Skaftfelling VE33. Byggt var m.a. á útvarpsþáttum sem Gísli Helgason hafði gert um skipið á 8. áratugnum auk þess sem viðtöl voru tekin við Jón Hjálmarsson, Ágúst Helgason og Guðrúnu Gísladóttur.

Árið eftir að þátturinn var gerður var Skaftfellingur fluttur austur í Vík í Mýrdal. Þar er hann nú geymdur í gamalli skemmu og bíður þess er verða vill.

Flest viðtölin voru tekin með Sennheiser ME-65 og notað var Sony md-tæki.

Hægt er að fá hljóðrit í fullum gæðum hjá höfundi þáttarins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hljóðnemi í reiðhjólstösku

Um verslunarmannahelgina árið 2002 var vesturheimsk frænka mín og vinkona okkar hjóna, Cindy Anderson, hjá okkur. Föstudaginn 2. ágúst þvældum við henni á reiðhjóli um alla borg. Vorum við Elín á Orminum bláa, tveggjamanna hjólinu sem Elín gaf mér í afmælisgjöf en var sérhannað handa henni sem stýrimanni en Cindy reið DBS-hjóli sem Elín á.Fyrst fórum við út í Nauthólsvík og sleiktum sólskinið, héldum svo sem leið lá austur á Elli- og hjúkrunarheimilið Eiri að heimsækja móður mína, nutum svo náttúrunnar í Elliðaárhólmunum og héldum þaðan heim á leið.

Seinna um kvöldið fórum við vestur á Seltjarnarnes að horfa á sólarlagið. Þegar við hjóluðum eftir göngustígnum yfir nesið flaug mér í hug að setja lítið minidisk-tæki í hjólatöskuna og vita hvernig til tækis. Þegar hlustað er á hljóðritið er ótrúlegt að heyra öll hin margbreytilegu hljóð sem eitt reiðhjól gefur frá sér. Það er sem heil verksmiðja fari í gang. Sá, sem er utan töskunnar, heyrir hins vegar fæst þessara hljóða.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband