Dynjandi í Dynjandisvogi

Unaður hljóðs og myndaSumarið 2009 fórum við hjónin um Vestfirði og nutum þess að skoða það sem fyrir augu og eyru bar.

Föstudaginn 26. Júní héldum við Elín áleiðis úr Reykhólasveitinni norður til Súðavíkur. Námum við staðar við fossinn Dynjandi og nutum þar umhverfisins. Hljóðritaði ég fossinn og reyndi að fanga hin margbreytilegu hljómbrigði. Notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema sem vísuðu u.þ.b 45° hvor frá öðrum. Um 120 cm voru á milli hljóðnemanna.

Myndirnar tók Elín, eiginkona mín, félagi og vinur.

Fyrsta hljóðritið er tekið við neðstu fossana.

Þá kemur Hundafoss.

Síðan var staðnæmst við göngumannafoss.

Nokkru ofar fundum við heppilegan stað þar sem ég settist. Elín hélt áfram upp að Fjallfossi. Þar tóku þýskir ferðamenn af henni myndina sem tengd er þessari færslu ásamt mynda- og hljóðskrám. Þar sem ég beið Elínar og naut nálægðarinnar við fossinn beindi ég hljóðnemunum frá dynjandi hávaðanum. Takið eftir dýpt hljóðsins.

Hljóðritin eru birt í fullum gæðum.

„Dynjandisvogur fyrir botni Arnarfjarðar er einstök náttúruperla. Þar er einn fegursti foss landsins og mesti foss Vestfjarða - Dynjandi. Fossinn og umhverfi hans er friðlýstur sem náttúruvætti. Áin Dynjandi rennur ofan af Dynjandisheiði sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu.

Dynjandi er ótrúlegur á allan hátt og er ein af fegurstu djásnum Íslands. Áin fellur fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg með smástöllum. Fossinn breiðir úr sér yfir klappirnar sem eru í reglulegum stöllum og fellur þrep af þrepi.

Bergið er myndað af hörðum hraunlögum og millilögum úr sendnum leir sem eru mun mýkri. Mjúku millilögin hafa gefið eftir undan ágangi jökuls og síðar vatns og fossastigi hefur myndast.

Fossarnir í Dynjandi eru sex. Efst er tilkomumesti fossinn, Fjallfoss, 30 metra breiður efst og um 60 metra breiður neðst. Hann er um 100 metra hár. Neðar í ánni eru Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss. Minnir fossaröðin helst á brúðarslör. Hægt er að ganga á bak við Göngumannafoss. Hvergi á landinu ber fyrir augu fegurra fossasvæði í einni sjónhending.

Dynjandi var aldrei nefndur annað en Dynjandi fyrr en einstaka menn fóru að kalla hann Fjallfoss á fyrri hluta 19. aldar. Fossinn ber nafn með rentu því drunurnar frá honum berast langar leiðir.“

http://www.breidavik.is/Is/Naesta_nagrenni/Dynjandi_-_Fjallfoss/


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband