Hljóðheimur æskunnar - Herjólfsdalur

Ágústsíðdegi í Herjólfsdal (ljósmynd).

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.

Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.

Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Bergsson

Skemmtileg og notaleg upptaka. Það verður að teljast ákaflega undarlegt að í þessum dal sé haldið eitt svæsnasta fyllirí landsins einu sinni á ári þegar hægt er að njóta gæða hanns allsgáður.  

Er þetta hljóðrit suðhreinsað? 

Magnús Bergsson, 15.8.2010 kl. 14:50

2 Smámynd: Arnþór Helgason

Ég veit að það er ekki vel séð hjá sumum, en ég hreinsaði hljóðnemasuðið að mestu með suðhreinsinum í Sondforge 10Pro. Áður bar ég ítarlega saman hljóðritin. Mögnunin var svo mikil að það varð vart hjá því komist að hreinsa suðið. Aftur á móti skar ég ekkert af öðrum tíðnisviðum og því er hljóðritunin óvenjulega djúp. Í óðagotinu við að setja upp hljóðnemana gleymdi ég að setja svampa á þá, en Kári hélt niðri í sér andanum svo að þetta slapp fyrir horn. Skemmtilegasti hluti hljóðritsins, upphafið, fór þó forgörðum. Þar var áberandi fuglasöngur og kind jarmaði. Þá kom aðvífandi fólksbifreið og nam staðar. Síðan drattaðist bíllinn á brott og nam staðar s.s. 100 m frá mér því að mæðgurnar í bílnum þóttust bera kennsl á Elínu. Þar voru þá á ferð mágkona mín og bróðurdóttir og bauð mágkonan okkur í kaffi sem við þágum með þökkum. Mig þekktu þær ekki, héldu að þarna væri einhver að taka myndir. Þegar ég ætlaði að tengja saman hlutana með því að klippa bílhljóðið burtu varð örlítill smellur og frekari tilraunir leiddu í ljós nægilega mikinn mun á hljóðumhverfinu til þess að ég hætti við að nota upphafið.

Síðar um kvöldið var ég spurður hvort ég væri ekki landsþekktur rithöfundur.:) Hver veit nema ég hefjist handa við að rita ævisögu mína eða eihvers annars, ef sá eða sú býður sig fram.

Arnþór Helgason, 15.8.2010 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband