Niðurinn í Elliðaárhólma

Elliaárhólmarnir eru sælureitur í Reykjavík. Þegar unað er við nið lækja og fossa liggur við að umferðargnýrinn hverfi gersamlega.

Í dag var um 20 stiga hiti í Reykjavík og héldum við hjónin hjólandi austur í Elliðaárhólmana. Komum við okkur fyrir á grasflöt skammt frá rafveituheimilið í námunda við bogabrúna.

Skammt þar frá rennur lækur yfir klappir út í árkvíslina. Það heyrist greinilega að lækurinn glímir við klappir. Ég freistaðist til að hljóðrita hjal hans. Beindi ég hljóðnemunum örlítið niður á við til þess að ná undirtónum lækjarins og hljóðritaði í 24 bita upplausn án nokkurs afskurðar.

Litlu ofar, nær stíflunni, eru flúðir og foss í nánd. Sama aðferð var notuð til þess að fanga undirtóna vatnsins.

Hlustendum er ráðlagt að njóta þessa hljóðrits í góðum hljómtækjum eða heyrnartólum. Hljóðritið er birt í 16 bita upplausn og 44,1 kílóriðum. Nokkurn tíma getur tekið að opna skrárnar og er fólk beðið að sýna þolinmæði.

Notaðir voru 2 Sennheiser ME62 og Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Breytilegur hljóðheimur og dálítil hljóðmengun

Fjaran sunnan við höfnina er friðsæl. Ljósmynd: Elín Árnadótir

Fimmtudagsmorguninn 22. júlí röltum við Elín um Grímsey. Á meðan við biðum eftir að fara í siglingu með Sæmundi Ólafssyni á bátnum Steina í Höfða settumst við á fjörukambinn skammt sunnan við höfnina. Þar er eins og menn fjarlægist erilinn sem fylgir manninum á meðan notið er öldugjálfursins..

Nokkrum hundruðum metrum norðar er rafstöð Hríseyinga. Hljóðið frá henni berst víða og stundum berst ómur þess þangað sem síst skyldi. Heimamenn segjast orðnir svo vanir að þeir heyra ekki hljóðið lengur, einkum þeir sem næst stöðinni búa. Grímsey er unaðsleg náttúruperla og Rarik ætti að sjá sóma sinn í að einangra stöðina betur svo að náttúruhljóðin fái betur notið sín á kyrrum kvöldum og morgnum.

Fyrra hljóðritiðvar gert einungis 2 m frá stöðarhúsinu. Hið seinna er talsvert magnað upp. Í raun var öldugjálfrið fremur lágvært. Með því að auka styrkinn heyra menn blæbrigði þess betur og um leið ördaufan dyninn frá rafstöðinni. Hann má einnig greina í hljóðritinu frá Köldugjá, en hann barst þangað með sunnanvindinum.

Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar með hefðbundinni uppsetningu. Hljóðritað var með Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á sunnanverðri Grímsey

Horft að vitanum úr norðaustri (ljósmynd)

Eftir hádegi 22. júlí blés hann upp með suðvestan kalda í Grímsey. Syðst á eyjunni stendur viti. Í nánasta umhverfi hans er fjölbreytt hljóðumhverfi sem seint verður fangað. Brimið brotnaði þar á klöppunum. Skilyrði til hljóðritunar voru ekki góð vegna vindsins. Ég brá því á það ráð að setja upp blimp-vindhlíf, troða í hana Shure VP88 hljóðnema, stilla á mið-víðóm og klæða síðan allt saman í loðkápu.

Ég hlustaði grannt eftir því sem hljóðritað var, bæði með heyrnartólum og með berum eyrum. Einkenilegt var hvað hljóðdreifingin var lítil. Ef til vill hefur vindurinn valdið þar nokkru um.

Um kvöldið gerði stililogn og fórum við Elín þá í göngu um nágrenni vitans ásamt dönskum hjónum. Þá brá svo við að álkan hafði talsvert til málanna að leggja og irtust fáir hafa áhuga á að muldra í kapp við hana. Hljóðnemarnir voru fjarri og þess vegna á ég erindi út í Grímsey til þess að hljóðrita álkuskvaldrið.

Morguninn eftir héldum við Elín enn á þessar slóðir. Fátt var um fugl í klettunum en þeir héldu sig þó nærri landi. Þá náði ég einstæðri hljóðritun af spjalli nokkurra langvía og greina þær sig vel hver frá annarri. Jafnvel heyrast ein eða tvær athugasemdir frá spakvitrum lundum. Hlustendum er eindregið ráðið að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum eða hátölurum svo að minnstu blæbrigði njóti sín.

Ljósmyndin var tekin vð þetta tækifæri og enn sem fyr var það Elín Árnadóttir, sérlegur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins sem tók myndina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Unaðsstund við Miðgarðaurð

Allt iðar af lífi við Miðgarðaurðina. Ljósmynd: Elín Árnadóttir.

Við sigldum norður undir eyjaroddann, en þá var kominn suðvestan kaldi og taldi Sæmundur ekki vert að sigla norður fyrir og suður með vesturströndinni. Því var snúið við. Elín bað Sæmund að nema staðar við Miðgarðaurðina og samferðafólkið samþykkti að hlusta með mér á yndisleik þess sem fyrir augu og eyru bar, sjávarhljóðið, langvíuna og önnur kvik flygildi.

Síðan flautaði Þórir Sæmundsson til heimferðar og vélin var sett í gang.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sigling með vélbátnum Steina í Höfða

Sæmundur Ólafsson um borð  í Steina í Höfða

Við Elín vorum í Grímsey 21.-23. júlí og nutum hins besta atlætis. Samvistum við okkur voru frænkurnar Þorbjörg Jónsdóttir og Höskuldsdóttir. Sú fyrri á frænku sem ætttuð er úr Grímsey og hafði hún ámálgað við Sæmund Ólafsson að hann færi með þr frænkur í siglingu. Við Elín höfðum einnig hug á að komast í siglingu og svo var einnig um fleiri. Varð úr að ég hringdi til Sæmundar og tók hann málaleitan minni afar vel, en frænka Þorbjargar hafði þá þegar haft samband við hann.

Við héldum úr höfn um kl. 12:30 fimmtudaginn 22. júlí. Með Sæmundi voru sonur hans, Þórir ásamt smásveininum Karli, syni Þóris.

Siglt var meðfram austurströnd Grímseyjar, en við norðanverða eyna rísa björgin í um 100 metra hæð. Öðru hverju var stansað og Sæmundur lýsti því sem fyrir augu og eyru bar. Einu launin sem hann vildi fyrir þessa unaðsstund var koss á kinn frá kvenfólkinu.

Þessari færslu fylgir hljóðrit. Fuglamergð er mikil við Miðgarðaurð eins og sæmundur lýsti fyrir okkur. Sem þaulreyndur veiðimaður vissi hann hvernig fæla skyldi fuglinn úr bjarginu. Þeim, sem hlusta með heyrnartólum, er ráðlagt að vera við öllu búnir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grímseyjarferjan Sæfari

Það er gaman á Grímseyjarsundi. Ljósmynd: Elín Árnadóttir

Við Elín sigldum á milli Dalvíkur og Grímseyjar dagana 21. og 23. júlí. Veður var blítt í bæði skiptin og ládauður sjór. Héldu margir sig á afturþiljum skipsin sem var kallað á Gullfossi Prómenaðedekk.

Fyrra hljóðritið var gert þegar Sæfari lagði úr höfn í Grímsey. Ég stóð aftur við rekkverkið og beindi hljóðnemunum útyfir bílaþilfarið.

Seinna hljóðritið lýsir siglingu skipsins. Þá stóð ég á bakborða miðskips og beindi hljóðnemunum út fyrir borðstokkinn til þess að nema boðaföllin.

Þessi hljóðrit eru einkum ætluð þeim sem hafa yndi af vélahljóði skipa. Því miður tókst mér ekki að afla mér upplýsinga um vélbúnað skipsins, stærð o.fl þar sem Skipaskrá Íslands er læst. Hafi einhver þær upplýsingar verða þær vel þegnar í athugasemdum.

Myndina tók Elín Árnadóttir þegar siglt var út í Grímsey 21. júlí 2010.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kaldagjá í Grímsey

Þegar við höfðum gengið frá tækjunum hurfum við á braut.

Dagana 21.-23. júlí vorum við Elín úti í Grímsey í góðu yfirlæti og nutum gestrisni eyjaskeggja. Fengum við bíl til umráða og komumst því yfir stærra svæði en ella. Okkur hafði verið tjáð að ekki tæki því að taka Orminn bláa með okkur út í Grímsey því að fjarlægðir væru þar litlar. en eyjan er um 6 km að lengd frá norðri til suðurs og rís í rúmlega 100m hæð þar sem hún er hæst. Hefði Ormurinn því komið að góðum notum.

fyrsta daginn fórum við í leiðangur upp á norðurhluta eyjarinnar. Námum við staðar við Köldugjá sem er á norðanverðri austurhlið Grímseyjar. Þar var hljóðumhverfið skemmtillegt. riturnar kvörtuðu hver við aðra sem mest þær máttu, fýllinn skvaldraði undir og lundarnir horfðu spekingslega í kringum sig. Frá þeim heyrðist fátt. Þótt bjpörgin iðuðu af lífi var það þó einungis svipur hjá sjón hjá því sem verður um varptímann, enda tel ég mig eiga erindi út í Grímsey næsta sumar.

Við komum tveimur Sennheiser ME62 fyrir og hljóðrituðum í fullri 24 bita upplausn á 44,1 kílóriðum. Hljóðritið er hér birt án nokkurrar hljóðsíunar svo að dýptin njóti sín sem best. Þess vegna heyrist örlítið í andblænum.

Hlustendur eru hvattir til að koma sér vel fyrir og hlusta annaðhvort í góðum heyrnartólum eða hátölurum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hettumávar og aðrir fuglar á Seltjarnarnesi

Að kvöldi 14. júlí gerði hellidembu á Seltjarnarnesi og var það sjálfsagt síðdegisskúrin sem spáð var.

Elín fór með mér út í fjöruna við Gróttu og hafði ég sett upp búnaðinn þar um kl. 11:30. Þar voru fleiri en ég og þurftu mikið að spjalla saman um leið og þeir nutu undurfagurs útsýnis. Nokkur gola var.

Um miðnættið lygndi og við Elín færðum okkur sunnar í átt að golfvellinum. Þar voru hettumávar, svartbakar og fleiri fuglar í æti. Æðarkollur tóku þátt í samræðunum og a.m.k. ein stokkönd auk annarra fugla hafði uppi ýmsar skoðanir.

Notaðir voru tveir ME62 hljóðnemar sem mynduðu u.þ.b. 100°hornog hljóðritað með Nagra Ares BB+ á 24 bitum, 44,1 khz. Hljóðritið er birt hér sem mp3skjal í 320 kb upplausn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grieg og sláttuvélin - hugmynd að píanókonsert

Við hjónin erum svo heppin að fyrir ofan okkur býr ungur píanóleikari, Birna Hallgrímsdóttir. Nú fæst hún við að æfa Píanókonsert Griegs. Ég stóðst ekki mátið upp úr kl. hálfsex í kvöld, þegar Elín var í önnum við að undirbúa kvöldmatinn, Birna að æfa sig og einhver að slá í nágrenninu. Þetta varð allt eitthvað svo heillandi hljóðsamsetningur, ég út á svalir með hljóðnema sem ég vísaði út í garðinn.

Fyrra hljóðritið var gert með ME-62 Sennheiser-hljóðnemum sem vísuðu í 90°. Við hið síðara notaði ég Sennheiser ME-64, en þeir eru stefnuvirkir. Hljóðmyndin úr þeim er gjörólík. Það er eins og vanti í hana ákveðna fyllingu. Betri en þrengri hljóðmynd hefði e.t.v. náðst hefði ég látið hljóðnemana vísa hvorn að öðrum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áhrif vindsins og nýting hans

Um verslunarmannahelgina 2007 vorum við Elín í Skálholti og gerðum þaðan út um suðurland. Norðan hvassviðri var allan tímann og setti það svip sinn á það sem var hljóðritað. Ég hafði meðferðis Nagra Ares-m hljóðrita, víðómshljóðnema sem smellt er á tækið og einn ME62 hljóðnema frá Sennheiser. Ég útvarpaði örstuttum pistli um ferðina og verða hlustendur að sætta sig við kynningar mínar því að frumgögnin eru mér ekki tiltæk af einhverjum ástæðum. Atriðin eru þessi:

Vindurinn leikur sér að fánaborginni í Skálholti, pólskir ferðalangar berjast á móti vindinum í Þjórsárdal, Lars Eek leikur á harmoniku í Árnesi og lúpínan sprengir fræbelgina.

Til þess að ná hljóðinu í fánaborginni varð ég að leggjast á jörðina. Hið sama var upp á teniningnum með lúpínuna. Þá notaði ég ME62 og lét hann eiginlega liggja á jörðinni. Annars hefði vindurinn náð yfirhöndinni, en gnauðið heyrist eigi að síður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband