Verðandi harmonikusnillingar

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 8. janúar 2010, komu m.a. fram þeir flemming Viðar Valmundsson, 14 ára og Jónas Ásgeir Ásgeirsson, 16 ára, en þeir stunda báðir nám í harmonikuleik. Léku þeir bæði sígild tónverk og alþýðlegri tónlist. Hljóðfæraleikur þeirra var hljóðritaður eins og allt efni funda Iðunnar.

Góðfúslegt leyfi hefur fengist til að birta sýnishorn af flutningi þeirra hér á síðunni. Hér er fyrst og fremst um tónleikahljóðrit að ræða. Þau eru oft skemmtilegri og meira lifandi en hljóðrit úr hljóðverum þar sem allt er dauðhreinsað.

Notaðir voru tveir Sennheiser ME-64 hljóðnemar. Þeir vísuðu hvor að öðrum og mynduðu um 100° horn. Þeir voru um 2 m frá tónlistarmönnunum í u.þ.b. 1,6 m hæð. Elín Árnadóttir sá um að stilla þeim upp en hún hefur einkargott auga fyrir réttri uppsetningu hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlíbrimið við Breiðamerkursand

Brimið við Breiðamerkursand 9. júlí 2009Það er magnþrungið að skreppa niður á Breiðamerkursand að njóta brimsins. Öldurnar gjálfra í flæðarmálinu en úti fyrir brotnar hafaldan óheft og af því verður mikill gnýr. Stöðugt gengur á landið og fer sjórinn sínu fram hvað sem líður bjástri og brölti mannanna.

Brimið hefur margvísleg hljóð og vafalaust nemur mannseyrað einungis hluta þeirra. Hér verður birt hljóðrit sem gert var 9. júlí 2009. Hljóðritið er birt í fullum gæðum, 16 bita hljóðritum. Hver og einn getur stillt hljóðið sem hann vill en ekkert hefur verið átt við hljóðritið.

Mælt er með því að fólk noti góð heyrnartól, vilji það njóta brimsins til hlítar.

Myndina tók Elín Árnadóttir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vængjaðir Seltirningar og blá og glöð augu

Vorið 1998 lauk ég námi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Þar sem ég fékk enga vinnu við fjölmiðla lagði ég fyrir dagskrárstjóra útvarpsins fjölmargar hugmyndir um útvarpsþætti. Fyrsti þátturinn fjallaði um fuglalífið á Seltjarnarnesi og var útvarpað í ágúst þá um sumarið.

Stefán Bergmann hjálpaði mér að hljóðrita kríugarg á nesinu og Elín, kona mín, var mér innan handar um annað. Ríkisútvarpið léði mér Sennheiser víóms-hljóðnema sem ég notaði nokkuð.

Viðmælendur og sögumenn voru Sigurlaug Jónsdóttir, kennari, Jóhann Óli Hilmarsson, ljósmyndari og fuglafræðingur, Stefán Bergmann, líffræðingur, Jens Pétur Hjaltested, sem lengi var í nefndum á vegum Seltjarnarnesbæjar og var ef ég man rétt formaður umhverfisnefndar, Jón Ásgeir Eyjólfsson, tannlæknir og formaður golfklúbbs Seltjarnarness, Guðjón Jónatansson, verndari fuglanna á Seltjarnarnesi og Anna Birna Jóhannesdóttir, kennari og náttúruvinur.

Látið ekki lélegan lestur undirritaðaðs fæla ykkur frá því að hlýða á athyglisverðar frásagnir sögumanna.

Ein saga verður að fljóta með í þessu samhengi.

Að morgni hvítasunnudags árið 1998 fórum við Elín upp í Heiðmörk að hljóðrita fugla. Mývargur var þar nokkur og komust einhverjar flugur inn fyrir skeljarnar sem hlífa fólki við að sjá hversu skemmd augu mín eru. Olli þetta mér miklum óþægindum og varð ég að taka augnskeljarnar úr mér.

Þegar við höfðum lokið við hljóðritanirnar sóttum við Hring okkar Árnason, sem þá var á fjórða ári og fórum síðan til foreldra Elínar.

Drengurinn horfði eitt sinn á mig og sagði: „Afi, augun þín eru rauð!“

Ég sagði honum að augun mín væru ónýt og nú skyldi hann segja bæði langömmu og Elínu ömmu að afi væri með ónýt augu.

Blessað barnið hugsaði sig um og sagði svo: „Já, en mín augu eru blá og glöð.“

Er til yndislegri yfirlýsing?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sunnudagsboðið

Móðir mín, Guðrún Stefánsdóttir (1908-2009), var gestrisin kona og vildi gjöra öllum eitthvað gott.

Þegar hún var um nírætt fór hún að bjóða nágrönnum sínum í mat. Þeir voru kröfuharðir sérvitringar og heimtuðu að fá mat sinn framreiddan á svölunum. Þar slógust þeir hver sem betur gat um hverja örðu.

Í mars 1998 laumaði ég hljóðnema út á svalirnar og hljóðritaði ósköpin. Gerði ég örstutta hljóðmynd fyrir Ríkisútvarpið. Hún glataðist og endurgerði ég hana því árið 2007.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumarið 1969

sumarið 1969 var mitt síðasta í foreldrahúsum. Þá voru helstu félagar mínir í Eyjum þeir Jón Ó. E. Jónsson, sem van lengst afí vélsmiðjunni Magna og Magnús Þórbergur Jakobsson, sem vann í Vélssmiðju Þorsteins Steinssonar. Ég minnist þess ekki að hafa hitt fyrrum skólafélaga mína úr Eyjum þetta sumar. Jón Ó.E. var nágranni okkar, bjó hjá Klöru Tryggvadóttur, ekkju Hallgríms Júlíussonar, skipstjóra, f. 1901 og dó árið 1985. Magnús eða Maggi í Skuld, var heimilismaður ömmu minnar og afa í Skuld. Hann fæddist 1903 og lést af slysförum árið 1970. Mér dimmir enn fyrir hugskotssjónum þegar ég minnist þessa atviks. Allir sem þekktu hann syrgðu hann sárt.

Fimmtudaginn 7. febrúar 2007, þegar 34 ár voru liðin frá því að ég kynnti Eyjapistil í fyrsta sinn, útvarpaði ég stuttum pistli með minningum frá árinu 1969.

Þar lesa þeir félagar Jón Ó. E. og Magnús ljóð sín, Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum fer með frumortar vísur og amma mín, Margrét í Skuld, Jónsdóttir, fer með vísur eftir mann sem kallaður var Gísli aumi.

Notast var við Sierra snældutæki og hljóðnema sem fylgdi því.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumarið '67

Fyrir þremur árum útvarpaði ég stuttum pistli með endurminningum frá sumrinu 1967. Þar má heyra frumgerð lags míns Fréttaauka, sem við Gísli lékum inn á band fyrir Ríkisútvarpið árið 1968, Tryggva Ísaksson, bónda í Hóli í Kelduhverfi flytja ljóð og Róbert Nikulásson á vopnafirði þeyta nikkuna ásamt hljómsveitinni Tiglum á dansleik sem haldinn var 30. júní þá um sumarið.

Hljóðritað var með hljóðnema og snældutæki frá Philips.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fýlaskvaldrið í Arnarneshamri

Arnarneshamar er á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar sem ganga inn úr Ísafjarðardjúpi. Þegar haldið er yfir í Álftafjörð er farið um dyr sem gerðar voru gegnum hamarinn árið 1949.

Þegar menn fara akandi til Súðavíkur veita fáir því athygli að mikil fýlabyggð er í hamrinum. Hljóðritið, sem hér er birt, var gert 2. júlí 2009. Auk fýlanna taka nokkrir lundar til máls og farþegabátur heyrist sigla út djúpið.

Einn fýllinn flaug svo nærri mér að mér varð hverft við. Það verður hlustendum væntanlega einnig. Mælt er með að fólk hlusti í góðum heyrnartólum.

Ég breiddi út faðminn við hamrinum og hélt á ME-62 hljóðnema í hvorri hendi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Alþjóðasöngur verkalýðsins og draumur þýðandans

Að kvöldi 15. júní 2009 héldu félagar í Kvæðamannafélaginu Iðunni fund við Grunnuvötn í Heiðmörk, en þar hefur félagið helgað sér reit. Ýmislegt var þar til skemmtunar eins og við mátti búast.

Þorvaldur Þorvaldsson, sem er hagur á tré og íslenskt mál, kynnti þar þýðingu sína á Baráttusöng verkalyðsins sem ortur var árið 1871 og rakti sögu hans. Einnig sagði hann frá tildrögum þess að hann réðst í að ljúka þýðingu Jakobs Smára Jóhannessonar, skálds, en höfundur ljóðsins, sem var franskur, birtist Þorvaldi í draumi og talaði prýðilega íslensku.

Frásögn Þorvalds hljóðritaði ég og frumflutning söngsins úti í náttúrunni. Notaður var Nagra Ares BB+ og AKG DM-230 víður hljóðnemi.

Efni þetta er birt með leyfi Þorvalds. Tekið skal fram að þýðingin hefur verið endurbætt og birtist væntanlega innan skamms.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fuglasöngur í Holti og ungauppeldi við Dýrafjörð

Þegar okkur bar að prests- og friðarsetrinu að Holti í Önundarfirði að morgni 30. Júní 2009 höfðu vængjaðir íbúar staðarins stillt saman strengi sína og hver söng með sínu nefi. Undirleikinn önnuðust lækirnir og sjórinn. Þaðan var haldið inn í botn Dýrafjarðar. Þar urðu á vegi okkar álftarhjón sem ræddu uppeldi barna sinna, en þeir héldu sig nærri og þögðu. Notaður var Nagra Ares BB+ og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar eins og stundum áður.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vigur og skagfirskar, söngelskar húsmæður í orlofi

sumarið 2009 nutum við hjónin þess að ferðast um Vestfirði. Gerðum við út frá Súðavík og hljóðrituðum margt.

Laugardaginn 27. júlí sigldum við út í Vigur en þangað ættu allir að fara sem nema staðar við Ísafjarðardjúp. Þar hljóðritaði ég viðtal við Salvar Baldursson, sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég notaði tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema, rétti honum annan og hélt sjálfur á hinum. Í hljóðvinnslunni færði ég rásirnar saman svo að viðtalið yrði ögn áheyrilegra. Á leiðinni í land sungu nokkrar skagfirskar húsmæður við raust, hressar eftir kaffið og bakkelsið í vigur.

Ég hljóðritaði andrúmsloftið í gönguförinni um vigur, hélt á hljóðnema í annarri hendi og vísaði honum niður. Þannig fékkst þyturinn af grasinu. Áður en ég útvarpaði samtalinu notaði ég tækifærið austur á Þingvöllum og talaði kynninguna þar. Engin umferð var og því hljóðumhverfið æskilegt í logninu. Þá notaði ég Sennheiser MD-21U sem var fyrst framleiddur árið 1954. Þann hljóðnema keypti ég hjá PFAFF árið 1983.

Söng skagfirsku kvennanna hljóðritaði ég á afturþilfari farþegabátsins. Hélt ég á tveimur ME-62 hljóðnemum, hafði um hálfan metra á milli þeirra og lét þá mynda u.þ.b. 100°. Þannig fæst skemmtileg hljóðdreifing. Nagra Ares BB+ var með í för.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband