Færsluflokkur: Ljóð
Á litla hagyrðingamótinu, sem haldið var á síðasta fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar 4. febrúar síðastliðinn, var ort um súrt, rammt og sætt. Helgi Zimsen stýrði mótinu að vanda. Auk hans komu fram þeir Gunnar Thorsteinsson og Höskuldur Búi Jónsson. Ingi Heiðmar Jónsson forfallaðist og flutti Helgi vísur hans.
Ljóð | 11.2.2011 | 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 4. febrúar 2011, fluttu Iðunnarfélagar tvo vísnabálka eftir Helga Zimsen. Fyrri bálkurinn fjallar um íslenskan mat. En þar sem ekki var snæddur íslenskur matur á fundinum nema þá pönnukökur, fór Rósa Jóhannesdóttir, formaður rímnalaganefndar, þess á leit við Helga að hann orti eina lokavísu. Þær urðu 7 og mátti hún velja eina þeirra. Hún kaus að láta flytja þær allar vegna valkvíða.
Matargikksbálkur
Aftur kominn enn á ný
árs er víst á fresti
ýmsir blóta þorra því
þá er úldnað nesti.
Freðinn ref ef finn á grund
fráleitt neita að borð'ann
úldna rollu eða hund
allt má drýgja forðann.
Gamalt nesti nörtum í
næring feðra vorra
borðum þetta bara af því
blóta verðum þorra.
Hákarl siginn sigla fær
svona oní maga:
brennivín um bitinn rær
bragð má þannig laga.
Súrinn virðist sumum best
sviðin aðrir kjósa
háfsins illri ýldupest
ýmsir jafnvel hrósa.
Sviðin eru mönnum mæt
metið þau við getum
snoppan er svo ósköp sæt
að við hana étum.
Þorra blóta, yrki óð,
önd og búknum hlýnar.
Finnst mér þá sem flæði blóð
fornt um æðar mínar.
Kjaftur bítur, lína er lögð
lengst úr fyrri tíma.
Þorrakrása kynleg brögð
kýs ég við að glíma.
Gengnir áar gæddu sér
á gömlum mat og þráum,
vegna þessa í veislu hér
vistir góðar fáum.
Punga þunga og súran sel
með sviði í kviðinn læði.
Metið get ég magál vel,
mikið spikið snæði.
(Helgi Zimsen)
Ábótarvísur
Kvæðamannafundir fljótt
fylla gesti kæti.
Flæðir rímið fram á nótt
fjörið held það bæti.
Iðunn glæðist óðs á stund,
örvast fjör og gaman.
Gamlar hefðir gleðja lund,
glöggt það finnum saman.
Hér nú yrkjum hress og slyng.
Hér er skáldafákur.
Hér er ekkert hrafnaþing.
Hér eru engar krákur.
Gaman er á gleðistund,
gefst þó fátt að éta.
Kvæðamannakempufund
kann ég vel að meta
Enn við kveðum eina stund,
óð í góðum hópi
Heftir ekki hal og sprund
hér þótt Steindór skrópi.
Þorrin eru þessi ljóð
þau við kváðum saman
þó að blóti einhver óð
ekki súrnar gaman.
Víst hér enda verðum brag
vísnaflóði lýkur.
Nú er fundið lokalag
línan hinsta fýkur.
(Helgi Zimsen)
Ljóð | 5.2.2011 | 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Lýsingarorðið "hringhendur" er notað innan Kvæðamannafélagsins Iðunnar um þann sem létt er um að yrkja hringhendur. Heiðurshjónin og snilldarhagyrðingarnir, Anna Heiðrún Jónsdóttir og Sigmundur Benediktsson, fylla þann flokk með sæmd.
Ég útvarpaði viðtölum við þau í janúar 2008 og fylgja þau bæði með þessari færslu.
Ljóð | 22.12.2010 | 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Fyrir nokkrum árum birtist ný stjarna á hagyrðingahimni Íslendinga og hefur skinið skært síðan. Sigrún Ásta Haraldsdóttir, sem stýrir þjónustusviði tölvudeildar Landspítalans, er fædd á Blönduósi árið 1953 og ól aldur sinn fyrstu 10 ár ævinnar á bænum Litla-Dal í Austur-Húnavatnssýslu. Fyrir þremur árum útvarpaði ég nokkru af kveðskap hennar og fylgir hljóðritið með þessari færslu. Síðar verður birt meira af ljóðum og vísum Sigrúnar.
Ljóð | 16.12.2010 | 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Tæknigrúskurum skal sagt að notaður var Nagra BB+ hljóðriti. Hljóðritað var á 44,1 kílóriðum og 24 bitum. Hljóðneminn var shure VP88 sem settur var á þrengstu víðómsstillingu.
Ljóð | 9.11.2010 | 16:28 (breytt 13.11.2010 kl. 17:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Ég hef þekkt Níels Árna Lund lengi. Sjönunda maí síðastliðinn kom hann á fund í Kvæðamannafélaginu Iðunni og fór með frumortar gamanvísur. Þær hefur hann gefið út á einkar skemmtilegum geisladiski sem hann selur á vægu verði.
Einfaldast er að hafa samband við hann á netfanginu lund@simnet.is og panta hjá honum disk sem kostar 1500 kr.
Njótið heil.
Ljóð | 6.11.2010 | 01:18 (breytt 8.11.2010 kl. 20:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég hef áður vikið að tónleikum, sem haldnir voru í Seltjarnarneskirkju í sumar þar sem hluti þess efnis, sem er á geisladiskinum, var fluttur. Það er skemmst frá því að segja að flutningurinn er hin prýðilegasti og útsetningar Atla Heimis hefja þessi lög í annað veldi en menn hafa þekkt hingað til. Leyfi ég mér að spá því að mörg lögin þeirra Ása og Oddgeirs eigi eftir að hljóma á einsöngstónlekum og tekið verði mið af útsetningum Atla Heimis þegar útsett verður fyrir kóra eða hljómsveitir.
Við Ási í Bæ áttum ævinlega góð samskipti og sem unglingi þótti mér undurvænt um Oddgeir Kristjánsson. Það hríslaðist um mig sælukennd þegar ég hlýddi á flutning laga eins og "Ég veit þú kemur", Sólbrúnir vangar, Heima auk fleiri laga.
Ekki eru öll ljóð Ása á diskinum sem hann samdi við lög Oddgeirs en flest þau bestu. Freyja, sem er sonardóttir Ása hefur staðið einstaklega vel að þessari útgáfu.
Kjartan Sveinsson, kenndur við sigurrós, og Birgir Jón Birgisson hljóðrituðu og hljóðjöfnuðu. Hafa þeir leyst verk sitt prýðilega af hendi.
Aðstandendum disksins eru færðar einlægar heillaóskir í tilefni útgáfunnar. Jafnfram er þeim þakkað fyrir að flytja útsetninguna sem Atli Heimir gerði af þessu tilefni og skilar svo vel efni ljóðsins Fréttaauka.
Telja verður víst að tónlistarunnendur taki þessari útgáfu fegins hendi og er hún einn fjársjóðurinn í menningararfi Vestmannaeyinga og reyndar þjóðarinnar allrar.
Ljóð | 16.10.2010 | 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ljóð | 9.10.2010 | 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á aðalfundi Iðunnar 6. mars 2009 kvað hann nokkrar frumortar vísur. Notaður var Shure VP88 við þá hljóðritun.
Enn var Ingimar á dagskrá Iðunnarfundar föstudaginn 9. mars árið 2010. Í það skipti kvað hann vísur eftir Kristján Samsonarson og gerði í upphafi grein fyrir ævi þessa listfenga hagyrðings.
Notaðir voru tveir Sennheiser Me64 hljóðnemar.
Hljóðritin eru birt með leyfi Ingimars.
Ljóð | 10.4.2010 | 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudaginn 7. febrúar 2007, þegar 34 ár voru liðin frá því að ég kynnti Eyjapistil í fyrsta sinn, útvarpaði ég stuttum pistli með minningum frá árinu 1969.
Þar lesa þeir félagar Jón Ó. E. og Magnús ljóð sín, Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum fer með frumortar vísur og amma mín, Margrét í Skuld, Jónsdóttir, fer með vísur eftir mann sem kallaður var Gísli aumi.
Notast var við Sierra snældutæki og hljóðnema sem fylgdi því.
Ljóð | 22.3.2010 | 18:51 (breytt kl. 19:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Aðventan
- Áramótahljóð
- Birds
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Cars and engines
- China
- Dægurmál
- Environmental sounds
- Ferðalög
- Fuglar
- Grímsey
- Heilsa og heilsuvernd
- Heimilishljóð
- Hjólreiðar
- Hringitónar - Ringtones
- Kínversk málefni
- Kínversk tónlist
- Kveðskapur og stemmur
- Lífstíll
- Ljóð
- Lystisemdir lífsins
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Minningar
- Music
- Religion
- Reykjavík
- Samgöngur
- Seltjarnarnes
- Sjórinn
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Strandabyggð
- Sögur af sjó
- Tónlist
- Trúmál
- Umhverfishljóð
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vatnið
- Veitingahús
- Veraldarvefurinn
- Vestmannaeyjar
- Vélar
- Viðtöl
- Vindurinn - The wind
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Water and waterfalls
- Wind
- Þjóðlegur fróðleikur
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 65515
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar