Færsluflokkur: Seltjarnarnes

Næturstund á Golfvelli Seltjarnarness

 

Veðurspáin fyrir aðfaranótt 4. maí 2012 var hagstæð. Spáð var logni og því tilvalið að huga að fuglahljóðritunum.

Á Golfvelli Seltjarnarness er talsvert fuglalíf. Ber þar mest á hvers konar mófuglum, öndum, gæsum og margæsinni, sem hefur viðdvöl á Íslandi til þess að safna kröftum fyrir flugið til Grænlands.

Ég hélt út á golfvöll um kl. 3 eftir miðnætti og kom mér fyrst fyrir norðan við golfskálann. Golan var heldur hvassari en ég hafði búist við. Um 5-leytið flutti ég mig um set og færði mig sunnar. En um það leyti snerist vindurinn meira til suðvesturs. Allan tímann var meiri gola en ég hafði átt von á og markast hljóðritið af henni. Lolhlífarnar dugðu ekki nægilega til þess að einangra vindinn frá Røde NT-2A hljóðnemum, sem ég kom fyrir í A-B-uppsetningu með 43 cm millibili. Þá heyrðist nokkuð í leiðslunum þegar golan rjálaði við þær.

Fuglalífið var auðugt. Heyra mátti í lóu, stelk, maríuerlu, grágæs, öndum, hettumáfi, sílamávi og margæs, sem var ekki fjarri með skvaldur sitt. Þrátt fyrir ýmsa annmarka verður þetta hljóðrit birt hér á vefnum. Hljóðritið hófst um kl. 05:11.

Eindregið er mælt með því að hlustað sé með heyrnartólum.

 

IN ENGLISH

 

The weather forecast for the night befor May 4 2012 was nice, calm and therefore quite suitable for recording birds.

The golf course at Seltjarnarnes at the western outskirrts

of the Reykjavik Area, is a home to many speces of birds, as Plowers, Sea pies, Redshanks, Wagtails, Wrens and other small birds, Ducks and graylags, Blackedbacked gulls, Peewits  as well as Brant goose which is there in big flocks  with their mumbling sound.

The wind was a little stronger than I expected and that affected the recording as the dead chicken couldn‘t isolate the two Røde NT-2A microphones from the wind which played a little with the cables.

The microphones were set up in A-B stereo with 43 cm spacing. Sounds from flags fluttering in the wind are also heard. The recording started around 05:11 in the morning.

Headphones are recommended for listening.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skemmtilegur tvísöngur

Í dag setti ég upp tvo Røde NT-2A hljóðnema í MS-uppsetningu. Kom ég þeim fyrir á svölunum og beindi þeim í u.þ.b suðvestur. Ég skar af 80 riðunum vegna örlítillar golu.

 

Tilraunin heppnaðist að mestu leyti. Mér vannst ekki tími til þess að fínstilla þá, þar sem afar skemmtilegir tvísöngshljómleikar hófust fljótlega. Fyrst bar að  einn hrafn og kannaði hvaða fyrirbæri þessir loðhausar væru. Síðan bar að annan og hófst þá skemmtunin. Var krunkið bæði fjölbreytilegt og skemmtilegt og jafnvel slettu þeir í góm.

 

Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti og hljóðritað var með 24 bitum og 44,1 kílóriðum.

Mælt er með að hlustað sé með góðum heyrnartólum.

 

Stundum óska ég þess að umferðin væri minni, þegar svona skemmtanir eru haldnar, en hún er víst hluti þess veruleika sem kaupstaðarbúar búa við. Þó stefni ég að því að reyna að hljóðrita í hljóðlátara umhverfi innan borgarmarkanna, helst einhverjum garði, þar sem margt er um fugla.

 

IN ENGLISH

 

Today I decided to make some experiments with 2 Røde NT-2A microphones in an MS-setup. I placed them on my balcony facing towards south-west. I used the filter to cut of 80 kHz due to a gentle breeze and covered them with a „dead chicken“.

 

Before I was able to fine-tune the setup a raven appeared to have a look at these furry phenomenons. Shortly after another one came and the concert started. The sounds were amazingly variable.

 

The recording was made in 24 bits, 44,1 kHz on a Nagra Ares BB+.

Good headphones are recommended.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavíkurmaraþonið 2011

 

Aldrei hafa fleiri skráð sig í Maraþon og hálf-Maraþon Íslandsbanka en í gær, 20. ágúst. Hið sama átti við um 10 km hlaupið.

http://mbl.is/mm/greinilegur/frett/1588519/

Nokkrum sinnum hefur undirritaður reynt að hljóðrita skemmtiskokkið og eru hljóðrit frá árinu 1998 og 2010 á þessum síðum. Í gær, laugardaginn 20. ágúst, viðraði einstaklega vel. Fyrstu Maraþonhlaupararnir fóru vestur Nesveginn við Tjarnarból 14 um kl. 08:50. Komið var fyrir Røøde NT-2A og NT-55 hljóðnemum í vindhlíf. Notuð var MS-uppsetning. Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ á 24 bitum og 44,1 kílóriðum.

 

Óvænt truflun

 

skemmtiskokkið var einnig hljóðritað. Rétt áður en það hófst hljómaði lagið Austrið er rautt í farsímanum, en ég hafði gleymt að slökkva á honum. Glöggum hlustendum, sem hlusta á hljóðritið með heyrnartólum, skal bent á að vel heyrist að ég sat fyrir aftan hljóðnemana. Hlustendur eru hvattir til að láta ekki hávaða vélknúinna ökutækja fæla sig frá því að hlusta á hljóðritið.

 

In English

 

The day of Reykjavik is 18. August. The first Satureday after 18. August is called „Cultural night" probably because when it was first celebrated the main emphasis was on evening and night activities. But now the festival takes place during the day.

http://menningarnott.is/

 

Before the start of the cultural activitees there are some sport events organized by the Bank of Iceland - Marathon, Half-Marathon and 10 km run. On August 20 this year 684 people took part in the Marathon, 1852 in half-Marathon and 4.431 in the 10 km run.

First the Marathon and Half-Marathon runners passed by my house at around 08:30 (the first recording) and at around 09:40 both the Marathon runners as well as 10 km runners starting flowing from east to west.

 

Unexpected Disturbance

 

Just after the second recording was started my mobile phone began playing The East is Red as I had forgotten to turn it off. Those, who listen to the recording with stereo headphones, will notice that I was sitting behind the microphones.

I used the same setup as in previous recordings.

Do not let the noise from passing cars disturbing you from enjoying the recording and the atmosphere.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Iðandi mannlíf og fuglamergð í fjörunni við Gróttu

Sólsetur við Gróttu. Ljósmynd: Elín Árnadóttir 

Eyjan Grótta er eins konar griðastaður vestast í útjaðri Reykjavíkursvæðisins, yst á Seltjarnarnesi. Þar er fræðasetur sem opnað var árið 2000.

Fræðasetrið í Gróttu

Grandi tengir eyjuna við land og fer hann á kaf þegar flæðir að. Í Gróttu og við eyjuna er mikið fuglalíf og er eyjan og nánasta umhverfi eftirsótt til ljósmyndunar.

 

Miðvikudaginn 20. júlí 2011 var yndislegt veður. Um kl. 13:30 hljóðum við tækjum og tólum á Orminn bláa og hjóluðum út að Gróttufjöru. Við stilltum hljóðnemum í MS-uppsetningu í fjöruborðið og námu þeir hljóð fugla, manna og flugvéla auk hins þunga niðar sem er orðinn stöðugur á Reykjavíkursvæðinu.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Þá heyrast ýmis aukahljóð sem mannseyrað greinir vart, svo sem smellir í kuðungum og sitthvað fleira.

Glöggir hlustendur geta kannað hvort þeir þekki sjálfa sig, fugla- og flugvélategundir sem við eyru ber. Þá geta þeir látið hugann reika til fyrri tíðar samanber meðfylgjandi efni:

Nánar um Gróttu


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunkyrrð

Mig hefur lengi langað til að hljóðrita morgunkyrrðina. Stundum berst ómur hafsins að eyrum mér þegar ég kem út á morgnana, en þá er yfirleitt of hvasst til þess að ná skemmtilegu hljóðriti.

Ég ber þær gyllivonir í brjósti að árla morguns mætti hljóðrita fugla af svölunum á Tjarnarbóli 14, en þetta vorið hafa þeir haldið sig fjarri. Það leynist þó ýmislegt í kyrrðinni.

Hljóðneminn greinir ýmislegt sem mannseyrað verður varla vart við. Ætli þyturinn, sem heyrist og virðist grunnur hljóðritsins, sé ekki í vatnskerfi íbúðarhússins? Rétt fyrir kl. 6 í morgun átti geitungur leið framhjá hljóðnemunum. Þá bar að göngugarp og í fjarska mátti heyra í nokkrum fuglum.

Skömmu áður heyrðist í fjarska hvar kona nokkur hélt til vinnu sinnar og síðan heyrðist fólk kallast á. Ekki heyrði ég betur en að um árrisula Taílendinga væri að ræða. Hljóðin berast langt í morgunkyrrðinni.

Hljóðritað var með Røde NT-1A sem stiltur var á áttu og Sennheiser ME-64.

Notaður var Nagra Ares BB+ og SD-302 formagnari.

sér leið


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Listfengir hrafnar

Í þrjú ár hef ég gert nokkrar atrunnar að því að hljóðrita hrafna. Margra klukkustunda hljóðrit hafa skilað litlum árangri þar til í morgun að náðist 5-6 mínútna sæmilega heillegt hljóðrit. Þar krunkuðu hrafnar á ýmsa vegu. Þótt umferðarhávaðinn sé nokkur má þó greina að þeir sletta í góm o.s.frv.

Ég þyrfti að komast fjær umferðinni til þess að ná betri hljóðritum af hröfnum og öðru fiðurfé.

Á næstu dögum verða birt nokkur hljóðrit frá 11. og 13. mars þar sem koma við sögu vindurinn og fulgar.

Notður var Shure VP88 á miðstillingu. Hljóðneminn var hafður í Blimp-vindhlí.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunn á svölunum í mars

 

 

Á kyrrum vetrarmorgni í úthverfi stórborgar gera sé fáir grein fyrir þeim fjölda hljóða sem berst að eyrum fólks og rýfur kyrrðina. Þetta gerist jafnvel þótt úthverfið sé sjálfstætt sveitarfélag.

Í morgun var ttalsverður atgangur hrafna. Greip ég lítinn hljóðrita, skellti á hann vindhlíf og setti út á svalir. Eftir það flugu einungis tveir hrafnar framhjá og krunkuðu. Ýmislegt annað barst að eyrum.

Látið ykkur dreyma með góð heyrnartól á höfðinu. Lygnið aftur augunum og ímyndið ykkur hhvað þi sjáið og hvernig veðrið var.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldaboli

Þegar ég var barn trúði ég á Kuldabola. Mér fannst hann skelfileg skepna og það lét stundum hátt í honum.

Kuldaboli hélt sig stundum í stiganum niður í kjallara og það heyrðist í honum gegnum skráargatið á hurðinni, þessi margtóna, síbreytilegi hvinur. Nautin í Hábæ og í Dölum öskruðu eða bölvuðu, en Kuldaboli var engu skárri.

Þegar ég kom heim frá því að selja Viðskiptablaðið í gær hvein suðvistanáttin í örmjórri gætt á stofuglugganum. Ég lagði Olympus LS11 í gluggakistuna og hvarf á braut. Hljóðneminn nam einræður Kuldabola. Glöggir hlustendur heyra einnig tifið í stofuklukkunni og einhver hljóð að utan.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum. Ef einhver á ljósmynd af Kuldabola væri hún vel þegin.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvænt hetjusaga

Í gær brá ég mér út á Eiðistorg að sinna ýmsum erindum. Þegar ég kom út úr apótekinu tók ég eftir því að farið var að rigna. Dró ég þá upp Olympus LS-11 hljóðrita og brá honum á loft. Ég var ekki með nein heyrnartól en vissi nokkurn veginn hversu mikinn styrk væri óhætt að setja inn á tækið.

Í miðri hljóðritun heilsaði mér Eiríkur Einarsson, þýðandi, en hann býr einnig á Seltjarnarnesi. við höfðum ekki hist áður og tókum tal saman um hagi okkar. Ekki hafði ég slökkt á hljóðrituninni og kom því samtalið allt inn á tækið. Með leyfi Eiríks er það nú birt hér á blogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áramótaskothríðin 2010-2011

Gleðilegt ár.

fyrsti áratugur aldarinnar endaði vel. Miklu var skotið af flugeldum en púðurreykurinn ekki jafnmikill og stundum áður. Veðurguðirnir sáu fyrir því.

Hamagangurinn var svo mikill að ég stóðst ekki mátið og dró fram tækjabúnaðinn. Hélt ég mig á svölunum á 3. hæð Tjarnarbóls 14 með tvo sennheiser Me62-hljóðnema. Hljóðritað var á Nagra Ares BB+ á 24 bitum, 44,1 kílóriðum.

Fyrst skar ég neðan af 100 riðunum en ákvað síðan að láta skeika að sköpuðu og afnam afskurðinn. Drunurnar verða því býsna tilkomumiklar og örlítið kann að bera á yfirmótun.

Þeir sem hafa gaman af samanburðarrannsóknum geta borið saman skothríðina um þessi áramót og hin síðustu. Væntanlega verður þessum hljóðritunum haldið áfram næstu ár og fæst þá samanburður á milli staða auk þess sem áætla má magn ólíkra tegunda flugelda af hljóðunum sem rata inn á minniskortið.

Hljóðritið nýtur sín best í góðum heyrnartólum eða hljómtækjum. Höfundur hljóðritsins tekur hvorki ábyrgð á heyrnar- né tækjaskaða.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband