Færsluflokkur: Umhverfismál

Nokkur vorhljóð

Flestir hlakka til sumarsins.

Í fyrra tók ég saman nokkur hljóð sem tengjast vori og sumri.

Við hefjumst handa í fjörunni við Gróttu, höldum þaðan út í eyjuna og skjálfum dálítið í næðingnum. Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 og Nagra Ares BB+.

Þaðan er haldið út á göngustíginn meðfram Ægisíðu. Þar verður fyrir okkur pirraður hundur, fuglar syngja, fólk hleypur og hjólar. Þetta var hljóðritað með Nagra Ares-M og Shure VP88 hljóðnema vorið 2006.

Þá greinir frá samskiptum hrafns og sauðkindar. Það hljóðrit fékk ég að láni hjá aðstandendum sýningarinnar Reykjavík 871 +-2, sem allir ættu að sjá.

Næsta hljóðskot er úr öldruðum GMC fjallatrukki sem skrönglaðist upp brattan slóða laugardaginn fyrir páska 2006. Þar notaði ég áfestan hljóðnema við Nagra Ares-M.

Þá er það lítill lækur og að lokum fjaran við Gróttu um miðjan apríl 2009. Þar var notaður Nagra Ares BB+.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tilraun

Í dag setti ég tvo örsmáa Sennheiser-hljóðnema á gleraugnaspangir. Þótt þeir séu víðir (omnidirectional) gáfu þeir allskemmtilega hljóðmynd.

Heyra má mismunandi umhverfishljóð á heimilinu, líkamshljóð og kaffidrykkju, umhverfishljóð frá svölunum og síðast en ekki síst margbreytileg hljóð í hröfnum.

Hljómurinn í talinu er ekki mjög skemmtilegur. Sjálfsagt valda loðsvampar því auk þess sem hljóðnemarnir vísuðu fram á við og voru fremst á spöngunum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bæjarlækur og öldugjálfur vestur í Skálavík

Vestur í Skálavík, sem er vestasta byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu vestan Ísafjarðarkaupstaðar, er nú engin byggð, en landið nýtt á sumrin. Nokkrir sumarbústaðir eru þar.

Víkin er fyrir opnu hafi og hefur því lendingin verið óhæg þar. Við hjónin vorum þar á ferð ásamt Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, 2. Júlí 2009 og nutum veðurblíðunnar.

Fyrir okkur varð lítill bæjarlækur sem hnepptur hafði verið í bunustokk og gert var úr járntunnu. Tónleikur lækjjarins vakti upp gamlar minningar um brunnlokið úti í Vestmannaeyjum sem söng í rigningu.

Í grýttri fjörunni settist ég á stein og hljóðritaði skvaldur Ægis þar sem hann mynntist við lábarið fjörugrjótið. Hlustendur þessara hljóðrita hafa heyrt hluta öldugjálfursins í færslunni um síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur sem er birt undir þessum flokki. Takið eftir tónbrigðum sjávarins.

Nánari upplýsingar um Skálavík eru á síðunni http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_skalavik.htm


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vængjaðir Seltirningar og blá og glöð augu

Vorið 1998 lauk ég námi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Þar sem ég fékk enga vinnu við fjölmiðla lagði ég fyrir dagskrárstjóra útvarpsins fjölmargar hugmyndir um útvarpsþætti. Fyrsti þátturinn fjallaði um fuglalífið á Seltjarnarnesi og var útvarpað í ágúst þá um sumarið.

Stefán Bergmann hjálpaði mér að hljóðrita kríugarg á nesinu og Elín, kona mín, var mér innan handar um annað. Ríkisútvarpið léði mér Sennheiser víóms-hljóðnema sem ég notaði nokkuð.

Viðmælendur og sögumenn voru Sigurlaug Jónsdóttir, kennari, Jóhann Óli Hilmarsson, ljósmyndari og fuglafræðingur, Stefán Bergmann, líffræðingur, Jens Pétur Hjaltested, sem lengi var í nefndum á vegum Seltjarnarnesbæjar og var ef ég man rétt formaður umhverfisnefndar, Jón Ásgeir Eyjólfsson, tannlæknir og formaður golfklúbbs Seltjarnarness, Guðjón Jónatansson, verndari fuglanna á Seltjarnarnesi og Anna Birna Jóhannesdóttir, kennari og náttúruvinur.

Látið ekki lélegan lestur undirritaðaðs fæla ykkur frá því að hlýða á athyglisverðar frásagnir sögumanna.

Ein saga verður að fljóta með í þessu samhengi.

Að morgni hvítasunnudags árið 1998 fórum við Elín upp í Heiðmörk að hljóðrita fugla. Mývargur var þar nokkur og komust einhverjar flugur inn fyrir skeljarnar sem hlífa fólki við að sjá hversu skemmd augu mín eru. Olli þetta mér miklum óþægindum og varð ég að taka augnskeljarnar úr mér.

Þegar við höfðum lokið við hljóðritanirnar sóttum við Hring okkar Árnason, sem þá var á fjórða ári og fórum síðan til foreldra Elínar.

Drengurinn horfði eitt sinn á mig og sagði: „Afi, augun þín eru rauð!“

Ég sagði honum að augun mín væru ónýt og nú skyldi hann segja bæði langömmu og Elínu ömmu að afi væri með ónýt augu.

Blessað barnið hugsaði sig um og sagði svo: „Já, en mín augu eru blá og glöð.“

Er til yndislegri yfirlýsing?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fýlaskvaldrið í Arnarneshamri

Arnarneshamar er á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar sem ganga inn úr Ísafjarðardjúpi. Þegar haldið er yfir í Álftafjörð er farið um dyr sem gerðar voru gegnum hamarinn árið 1949.

Þegar menn fara akandi til Súðavíkur veita fáir því athygli að mikil fýlabyggð er í hamrinum. Hljóðritið, sem hér er birt, var gert 2. júlí 2009. Auk fýlanna taka nokkrir lundar til máls og farþegabátur heyrist sigla út djúpið.

Einn fýllinn flaug svo nærri mér að mér varð hverft við. Það verður hlustendum væntanlega einnig. Mælt er með að fólk hlusti í góðum heyrnartólum.

Ég breiddi út faðminn við hamrinum og hélt á ME-62 hljóðnema í hvorri hendi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fuglasöngur í Holti og ungauppeldi við Dýrafjörð

Þegar okkur bar að prests- og friðarsetrinu að Holti í Önundarfirði að morgni 30. Júní 2009 höfðu vængjaðir íbúar staðarins stillt saman strengi sína og hver söng með sínu nefi. Undirleikinn önnuðust lækirnir og sjórinn. Þaðan var haldið inn í botn Dýrafjarðar. Þar urðu á vegi okkar álftarhjón sem ræddu uppeldi barna sinna, en þeir héldu sig nærri og þögðu. Notaður var Nagra Ares BB+ og tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar eins og stundum áður.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vigur og skagfirskar, söngelskar húsmæður í orlofi

sumarið 2009 nutum við hjónin þess að ferðast um Vestfirði. Gerðum við út frá Súðavík og hljóðrituðum margt.

Laugardaginn 27. júlí sigldum við út í Vigur en þangað ættu allir að fara sem nema staðar við Ísafjarðardjúp. Þar hljóðritaði ég viðtal við Salvar Baldursson, sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég notaði tvo Sennheiser ME-62 hljóðnema, rétti honum annan og hélt sjálfur á hinum. Í hljóðvinnslunni færði ég rásirnar saman svo að viðtalið yrði ögn áheyrilegra. Á leiðinni í land sungu nokkrar skagfirskar húsmæður við raust, hressar eftir kaffið og bakkelsið í vigur.

Ég hljóðritaði andrúmsloftið í gönguförinni um vigur, hélt á hljóðnema í annarri hendi og vísaði honum niður. Þannig fékkst þyturinn af grasinu. Áður en ég útvarpaði samtalinu notaði ég tækifærið austur á Þingvöllum og talaði kynninguna þar. Engin umferð var og því hljóðumhverfið æskilegt í logninu. Þá notaði ég Sennheiser MD-21U sem var fyrst framleiddur árið 1954. Þann hljóðnema keypti ég hjá PFAFF árið 1983.

Söng skagfirsku kvennanna hljóðritaði ég á afturþilfari farþegabátsins. Hélt ég á tveimur ME-62 hljóðnemum, hafði um hálfan metra á milli þeirra og lét þá mynda u.þ.b. 100°. Þannig fæst skemmtileg hljóðdreifing. Nagra Ares BB+ var með í för.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ómarsgangan 28. september 2006

Það var eftirminnilegt þegar Ómar Ragnarsson efndi til samstöðugöngu gegn virkjun við Kárahnúka 28. september 2006. Ég hljóðritaði alla gönguna og á athyglisverða hljóðmynd af henni. Hún verður e.t.v. birt síðar. Um 10-12.000 manns sóttu útifundinn sem haldinn var eftir gönguna.

Ég gerði göngunni örlítil skil í stuttum pistli fyrir þáttinn Vítt og breitt. Hann fær að fljóta inn á þessa síðu. Í lokin er rætt við séra Jón Ragnarsson.

Notaður var Nagra Ares-M hljóðriti með áfestum víðómshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leikur að vatni

Haustið 1999 gerði ég vinkilsþáttinn „Leikur að vatni“, en þar lék ég mér að vatni með ýmsu móti.

Leikurinn hófst í sundlaug Seltjarnarness einn lygnan laugardagsmorgun í október. Við vorum tveir í sturtunni og bað ég félaga minn, hver sem hann var, að veita mér viðtal en hann kvaðst of feiminn til þess. Ég var á leiðinni út og vildi fá hljóðmyndina af gönguferðinni. Því setti ég tækið á hljóðritun. Og viti menn. Maðurinn byrjaði að tala og úr varð þetta ágæta samtal sem hann vissi ekki að hefði verið hljóðritað.

Leikurinn barst svo austur að Geysi, Hringur Árnason, sem þá var 5 ára, sagði mér frá því til hvers hann notaði vatnið, litið var við á kínverska ballettinum Rauðu kvennaherdeildinni, haldið vestur í Skjaldfannardal og lækir látnir dansa saman, hverasvæði í Krísuvík skoðuð og loksins staðnæmst úti við Gróttu. Þar naut ég liðsinnis vinar míns, Magnúsar Bergssonar, hljóðlistarmanns, en hann hljóðritaði öldugjálfrið eina sumarnótt árið 1994. Vek ég sérstaka athygli á þeim hluta þáttarins.

Móðursystir mín, Guðfinna Stefánsdóttir, sagði mér einnig í þættinum hvernig fólk í Vestmannaeyjum hefði margnýtt vatnið á æskuárum sínum. Einnig greindi einn bræðra minna frá víngerð, en málrómi hans var breytt svo að hann yrði ekki lögsóttur. Nú er óhætt að upplýsa að hann heitir Páll Helgason, enda er málið fyrnt.

Heil mikið tilstand var vegna þessa þáttar. Ég hélt að ég gæti rumpað honum af eins og ég var vanur enda kom ég með allt efnið klippt og vandlega undirbúið. En tæknimaður Ríkisútvarpsins, Björn Eysteinsson, var mér ekki sammála og taldi handritið bjóða upp á flest annað en hroðvirkni. Eina ráðið væri að tölvuvinna þáttinn. Endirinn varð um 10 klst. vinna í hljóðveri.

Mælt er með því að fólk hlusti með góðum heyrnartólum. Dans lækjanna skilaði sér ekki nægilega vel í útsendingu útvarpsins, en hann fór þannig fram að ég stóð á mótum tveggja lækja og sneri mér nokkra hringi. Hlusti menn grannt geta þeir heyrt að tvö systkini, börn Lóu á Skjaldfönn, spyrja furðulostinn hvað ég sé eiginlega að gera.

Einn af dagskrárgerðarmönnum BBC, sem hélt námskeið fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, tók þennan þátt sem dæmi um það sem hægt væri að gera með einu md-tæki og víðómshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krummi krunkar úti

Um þetta leyti ber mikið á hrafni á höfuðborgarsvæðinu. Hann skemmtir mörgum með krunki sínu og athæfi.

Þann 10. febrúar árið 2009 hitti ég að máli Ólaf Nielsen og fékk hann til að segja mér frá hrafninum. Var samtalinu útvarpað tveimur dögum síðar.

Í upphafi syngur Elín Árnadóttir, eiginkona mín, hjálparhella og vinurinn besti, lagið Krummi krunkar úti sem ég gerði handa Birgi Finnssyni, systursyni mínum árið 1967, en þá var hann á þriðja ári. Lagið er samið eftir 5 tóna skalanum og ar einhver baráttusöngur rauðu varðliðanna fyrirmyndin, en ég var þá orðinn Maoisti sem ég hef verið síðan.

Hrafnana, sem koma fram í þættinum, hljóðrituðum við Pétur Halldórsson. Notaði hann Shure VP88 en ég beitti tveimur Sennheiser ME62 sem mynduðu um 100° horn og vísuðu hvor frá öðrum. Samtalið var hljóðritað með Sennheiser ME-65, en hljóðrýmið var þess eðlis að nota varð stefnuvirkan hljóðnema.

´Serstök athygli er vakin á lokum þáttarins. Þá kemur hrafn aðvífandi, sest á handriðið, gaumgærir hljóðnemana og flýgur svo á brott í skyndi. Setjið því á ykkur góð heyrnartól og njótið hreyfingarinnar í hljóðritinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband