Notaður var lítill Audiotechnica víðómshljóðnemi. Ég stóð hjá hljóðnemanum og heilsuðu mér því ýmsir eins og heyra má. Þar má meðal annara heyra í Boga Ágústssyni og Eygló Eiðsdóttur sem vann þá á Blindrabókasafni Íslands.
Ef grannt er hlustað heyrist íþróttagarpurinn Jón Sigurðsson frá Úthlíð fara framhjá á hjólastóli.
Reykjavík | 23.8.2010 | 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)

Tengdadóttir okkar Elínar, Elfa Hrönn Friðriksdóttir, tók þátt í 10 km Reykjavíkurhlaupi í ár. Horfðu synir hennar o eiginmaður ásamt fleira fólki á hana streyma framhjá Tjarnarbóli 14. Elín kvikmyndaði aturðinn og ég hljóðreit. Ég hef hljóðritið Reykjavíkurhlaup áður, gerði það árið 1998 og útvarpaði. Verður það hljóðrit birt hér á vefum innan skamms ásamt ýmsu öðru.
Í gær voru aðstæður til hljóðritunar ekki alls kostar góðar. Allhvass norðaustan-vindur var á. Ég hugðist byrja fyrr, en um morguninn, skömmu áður en Maraþon-hlaupararnir voru ræstir, var mun hvassara og þótti mér ekki fýsilegt að reyna hljóðritun.
Notaðir voru 2 Sennheiser ME-62 hljóðnemar sem vísuðu í 90° til austurs. Nauðsynlegt reyndist að skera af 100 riðum og síðar af 80 riðum til þess að fjarlægjasem mest af vindgnauðinu. Mér virðist þó sem hljóðið sé tiltölulega eðlilegt. Að ásettu ráði er meðalstyrkur hljóðritsins látinn ráða.
Hljóðritu hófst um kl. 09:45 laugardagsmorguninn 21. ágúst 2010. Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir.
Vinir og fjölskylda | 22.8.2010 | 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Bryndís Bjarnadóttir fæddist á Húsavík árið 1923, dóttir hjónanna Bjarna Benediktssonar og Þórdísar Ásgeirsdóttur, merkra heiðurshjóna. Ég heimsótti hana fyrir skömmu og sagði hún mér sitthvað af ættingjum okkar, foreldrum sínum og sjálfri sér. Bryndís er eins og systkini hennar, mikil sagnakona og minnug. Þess má geta að undir flokknum vinir og fjölskylda á þessum síðum, eru tvær frásagnir bróður hennar, Vernharðs Bjarnasonar, af samstarfi og kynnum sínum af Helga Benediktssyni og vélskipinu Helga VE 33, en Vernharður vann hjá frænda sínum í nokkur ár í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.
Mánudaginn 16. ágúst síðastliðinn heimsótti ég Bryndísi og sagði hún mér þá frá því er faðir mannsins hennar, Þórhallur Sigtryggsson, bjargaði lífi Sigtryggs Sigtryggssonar, sonar Bryndísar og Sigtryggs Þórhallssonar haustið 1960, en Sigtryggur var þá 10 ára gamall. Lesendur Morgunblaðsins kannast flestir við Sigtrygg, en hann hefur unnið á blaðinu árum saman.
Frásögn Bryndísar ber ljósan vott um skyggnigáfu þá eða ófreski sem er algeng í ættinni. Þess skal getið að farðir Bryndísar og afi minn, Benediktt Kristjánsson, voru bræðrasynir og erum við Sigtryggur Sigtryggsson, sem greinir frá í frásögn móður hans, því fjórmenningar.
fyrir þá sem hafa gaman af tæknimálum skal þess getið að notaður var AKG DM-230 hljóðnemi.
Vinir og fjölskylda | 19.8.2010 | 22:22 (breytt 20.8.2010 kl. 19:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugi Hreiðarsson, markaðsfræðingur, tók viðtal við nokkra skipverja og aðra sem komu að þessu máli og bjó hljóðritið til flutnings í útvarpi. Vegna anna vannst honum ekki tími til að ganga endanlega frá verkinu og fól mér að annast lokaþáttinn.
Það er nú svo að hver maður fer sínum höndum um heimildirnar. Breytti ég því handriti þáttarins talsveert með samþykki Huga.
Þessi útvarpsþáttur var frumfluttur sumarið 1999 og vakti fádæma athygli. Í þættinum eru áhrifamiklar lýsingar á þeim hörmungum sem áhöfnin varð að ganga í gegnum, lýsingar sem engum líða úr minni sem á hlýðir.
Viðmælendur Huga voru Bárður Árni Steingrímsson, Þórir Atli Guðmundsson, Fríða Einarsdóttir og Vilhjálmur Rafnsson.
Skipshljóin fengust af geisladiskum sem BBC gaf út og eru í eigu Ríkisútvarpsins. Tæknimaður var Georg Magnússon.
Þessi þáttur er birtur hér á Hljóðblogginu vegna eindreginna tilmæla.
Sögur af sjó | 17.8.2010 | 12:32 (breytt kl. 12:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)

Í haust verða 50 ár liðin frá því að ég hélt frá Vestmannaeyjum suður til Reykjavíkur í barnaskóla. Eftir andlát Helga bróður míns 28. ágúst 1960 reikaði ég um nokkra uppáhaldsstaði mína og kvaddi þá, en við tvíburarnir höfðum verið kvaddir suður til Reykjavíkur í Blindraskólann. Einn þessara staða var Dalurinn. Því var ekki nema eðlilegt að leita þangað til hljóðritunar föstudaginn 13. ágúst 2010. Hljóðin voru fjarlæg - dynur hafsins og ys og þys bæjarins. Ýmsir mávar létu til sín heyra auk smáfugla og eitthvert rjátl heyrðist í vegfarendum´sem áttu leið um.
Hljóðritið er birt í fullri 16 bita upplausn. Því getur tekið eiinhverja stund að hala það niður. Hlustendur fá best notið þess í góðum heyrnartólum eða hátölurum.
Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir. Auk hljóðritarans sést Hringur Árnason og tilgátubær landnámsmannsins Herjálfs Bárðarsonar í baksýn.
Umhverfishljóð | 14.8.2010 | 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)

Föstudaginn 13. ágúst 2010 fórum við Elín ásamt Hring Árnasyni til Vestmannaeyja. Notaði ég þá tækifærið og hljóðritaði. Elín var sem fyrr hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.
Hljóðritin eru tvö sem fylgja þessari færslu. Hið fyrra er tekið skammt utan við göngustíginn meðfram Kaplagjótu. Vakin er sérstök athygli á djúpum tónum sem heyrast þegar öldurnar skella á klettunum.
Seinna hljóðritið er tekið litlu sunnar. Þar ber meira á hljóðinu sem myndast þegar vatn seytlar niður bergið, en úrhellingsrigning hafði verið fyrr um daginn.
Notaðir voru 2 Sennheiser ME62 hljóðnemar sem stillt var upp í 90° horn. Enginn afskurður er á hljóðritinu sem var gert í 24 bita upplausn. Fólki er eindregið ráðlagt að hlusta annaðhvort í góðum hátölurum eða heyrnartólum. Þannig njóta litbrigði hljóðsins sín best.
Á Heimaslóð segir svo um Kaplagjótu:
Kaplagjóta er löng gjóta sunnan við
Dalfjall sem gengur til austurs, samhliða Herjólfsdal. Gjótan dregur nafn
sitt af því að hestum var varpað þar niður til þess að farga þeim, þar sem ekki mátti eta hrossakjöt lengi á Íslandi. Dæmt um það á
Vilborgarstaðaþingi árið 1528 að ekki skyldu vera fleiri en 16 hross í
Heimaey, og viðtekin var sú venja að konungsumboðsmaður mætti láta drepa, slá eign sinni á, eða ráðstafa með öðrum hætti þeim hrossum sem fundust fram yfir regluna, en eigendur höfðu þó 14 daga til þess að koma aukateknum hrossum sínum annars staðar fyrir. Óskilafærleikum var þá gjarnan hrint ofan í sjóinn, þeim sem fundust fram yfir regluna, eða voru orðnir of gamlir til þess að koma að gagni.
Annar staður á Heimaey var notaður til sama brúks að talið er, en það voru
Kaplapyttir í Stórhöfða.
Tíkartóa-draugurinn
Í suðaustanverðu Dalfjalli, ofan við Kaplagjótu, eru grösugar hillur, sem nefndar hafa verið
Tíkartær . Um langt skeið hafðist þar við afturganga sem menn urðu oft varir við. Tildrög að afturgöngu þessari voru þau, að
einhverju sinni hafði burðalítill piltur verið sendur út á Fjall til lundaveiða. Fór hann nauðugur í þessa ferð en hart hafði verið að honum gengið. Hrapaði hann í Tíkartónum og gekk síðan aftur. Sást hann oft vera aðsteypa sér kollhnís fram af Tíkartónum ofan í Kaplagjótu en aldrei gerði hann neinum manni mein, að því er kunnugt sé.
Nánar má forvitnast um örnefni í Vestmannaeyjum á síðunni
http://www.heimaslod.is
Sjórinn | 14.8.2010 | 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Fyrir fjórum árum var mér bent á að Sibyl Urbancic ætlaði að halda námskeið í svokallaðri Feldenkrais tækni. Aðferðin byggir á að ná stjórn á líkama sínum og auka hreyfifærni hans með fíngerðum hreyfingum. Eftir að hafa sótt kynningu hjá henni þótti mér þessi aðferð svo merkileg að ég fékk Sibyl til þess að ræða við mig fyrir Ríkisútvarpið. Var viðtalinu útvarpað í september 2006. Það er enn í fullu gildi og er því birt hér með samþyki hennar.
Þess má geta að Sibyl heldur námskeið í Feldenkrais-tækninni í byrjun næsta mánaðar og fylgir auglýsingin þessari færslu sem viðhengi.
Menntun og skóli | 10.8.2010 | 22:43 (breytt kl. 23:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um þessar mundir er 5 ára afmæli Raggagarðs á Súðavík haldið hátíðlegt. Vilborg Arnarsdóttir, stofnandi garðsins, hefur unnið einstætt samfélagsafrek og garðurinn á sér vart nokkra hliðstæðu hér á landi.
Þegar við Elín vorum vestur í Súðavík í fyrrasumar sagði Vilborg mér sögu garðsins sem ég útvarpaði 6. ágúst árið 2009. Hlustendur geta einnig kynnt sér heimasíðuna
http:www.raggagardur.is
Ljósmyndina tók Elín Árnadóttir 28. júní árið 2009.
Bloggar | 6.8.2010 | 07:38 (breytt kl. 17:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag var um 20 stiga hiti í Reykjavík og héldum við hjónin hjólandi austur í Elliðaárhólmana. Komum við okkur fyrir á grasflöt skammt frá rafveituheimilið í námunda við bogabrúna.
Skammt þar frá rennur lækur yfir klappir út í árkvíslina. Það heyrist greinilega að lækurinn glímir við klappir. Ég freistaðist til að hljóðrita hjal hans. Beindi ég hljóðnemunum örlítið niður á við til þess að ná undirtónum lækjarins og hljóðritaði í 24 bita upplausn án nokkurs afskurðar.
Litlu ofar, nær stíflunni, eru flúðir og foss í nánd. Sama aðferð var notuð til þess að fanga undirtóna vatnsins.
Hlustendum er ráðlagt að njóta þessa hljóðrits í góðum hljómtækjum eða heyrnartólum. Hljóðritið er birt í 16 bita upplausn og 44,1 kílóriðum. Nokkurn tíma getur tekið að opna skrárnar og er fólk beðið að sýna þolinmæði.
Notaðir voru 2 Sennheiser ME62 og Nagra Ares BB+.
Vatnið | 31.7.2010 | 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Fimmtudagsmorguninn 22. júlí röltum við Elín um Grímsey. Á meðan við biðum eftir að fara í siglingu með Sæmundi Ólafssyni á bátnum Steina í Höfða settumst við á fjörukambinn skammt sunnan við höfnina. Þar er eins og menn fjarlægist erilinn sem fylgir manninum á meðan notið er öldugjálfursins..
Nokkrum hundruðum metrum norðar er rafstöð Hríseyinga. Hljóðið frá henni berst víða og stundum berst ómur þess þangað sem síst skyldi. Heimamenn segjast orðnir svo vanir að þeir heyra ekki hljóðið lengur, einkum þeir sem næst stöðinni búa. Grímsey er unaðsleg náttúruperla og Rarik ætti að sjá sóma sinn í að einangra stöðina betur svo að náttúruhljóðin fái betur notið sín á kyrrum kvöldum og morgnum.
Fyrra hljóðritiðvar gert einungis 2 m frá stöðarhúsinu. Hið seinna er talsvert magnað upp. Í raun var öldugjálfrið fremur lágvært. Með því að auka styrkinn heyra menn blæbrigði þess betur og um leið ördaufan dyninn frá rafstöðinni. Hann má einnig greina í hljóðritinu frá Köldugjá, en hann barst þangað með sunnanvindinum.
Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 hljóðnemar með hefðbundinni uppsetningu. Hljóðritað var með Nagra Ares BB+.
Sjórinn | 29.7.2010 | 22:27 (breytt 30.7.2010 kl. 23:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Aðventan
- Áramótahljóð
- Birds
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Cars and engines
- China
- Dægurmál
- Environmental sounds
- Ferðalög
- Fuglar
- Grímsey
- Heilsa og heilsuvernd
- Heimilishljóð
- Hjólreiðar
- Hringitónar - Ringtones
- Kínversk málefni
- Kínversk tónlist
- Kveðskapur og stemmur
- Lífstíll
- Ljóð
- Lystisemdir lífsins
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Minningar
- Music
- Religion
- Reykjavík
- Samgöngur
- Seltjarnarnes
- Sjórinn
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Strandabyggð
- Sögur af sjó
- Tónlist
- Trúmál
- Umhverfishljóð
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vatnið
- Veitingahús
- Veraldarvefurinn
- Vestmannaeyjar
- Vélar
- Viðtöl
- Vindurinn - The wind
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Water and waterfalls
- Wind
- Þjóðlegur fróðleikur
Bloggvinir
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar